Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 401/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. D-liður 1. og 2. tl. — 31. gr. 1. tl  

Lífeyrisiðgjald — Félagsgjald — Stéttarfélagsgjald — Arkitekt — Félag sjálfstætt starfandi manna — Rekstrarkostnaður — Sjálfstæð starfsemi — Risna — Risnukostnaður

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði eftirfarandi breytingar á skattframtali kæranda 1984:

1) Lækkaði gjaldfærðan risnukostnað í rekstrarreikningi 1983 um 15.000 kr., úr 44.643 kr., í 29.643 kr., „þ.e. matur, drykkjarföng og blómaskreytingar eins og segir í bréfi skattstjóra.

2) Framlag í lífeyrissjóð 10.365 kr. og félagsgjöld 5.332 kr., voru enn fremur felld niður í rekstrarreikningi og færð í reiti 55 og 56 á skattframtali kæranda 1984.

Skattstjóri hækkaði hreinar tekjur af atvinnurekstri um framangreindar fjárhæðir og endurákvarðaði opinber gjöld til samræmis. Með úrskurði uppkveðnum 18. júlí 1985 synjaði skattstjóri kröfum kæranda um að framangreindar breytingar yrðu felldar niður.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með svofelldri kæru:

„Með bréfi þessu leyfi ég mér að fara þess á leit við yður að þér endurmetið úrskurð skattstjórans varðandi þau kæruatriði, sem hér um ræðir:

1) Lækkun risnukostnaðar.

2) Færsla félagsgjalda af rekstrarreikningi á skattframtal.

Í bréfum mínum til skattstjóra dags. 17. mars, 24. apríl og 14. júní 1985 (meðf. ljósrit) hef ég gert ítarlega og sundurliðaða grein fyrir risnukostnaði mínum og rökstutt þann kostnað vegna samskipta við stofnanir, opinber fyrirtæki og einstaklinga. Allir mínir helstu viðskiptaaðilar eru nafngreindir. Slík risna er viðurkennd í rekstri opinberra fyrirtækja og hjá einstaklingum með sjálfstæðan atvinnurekstur. Skattstjórinn hefur ekki tekið fullt tillit til röksemda minna né hefur hann gert mér grein fyrir því hvers vegna ég fæ ekki að njóta þessa frádráttar að fullu, sem vissulega er til kominn vegna starfs míns (sbr. framtal). Þá tel ég einnig að félagsgjöld mín séu tilkomin vegna atvinnurekstrar, þar sem ég fæ ýmis gögn frá Arkitektafélaginu sem nauðsynleg verða að teljast við starf mitt svo sem upplýsingarit, útreikninga vegna gjaldskrár, fundargerðir starfshópa, ráðstefnulýsingar o.fl.

Í bréfi, dags. 26. september 1985, gerir ríkisskattstjóri þær kröfur f.h. gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið er gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Svo sem fram kemur eru kæruatriði fyrir ríkisskattanefnd lækkun skattstjóra á gjaldfærðum risnukostnaði og færsla félagsgjalda af rekstrarreikningi á persónuhlið skattframtals kæranda.

Að því er risnukostnað varðar þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á nauðsyn kostnaðar þessa til öflunar tekna sinna umfram það er felst í mati skattstjóra. Er kröfulið þessum því hafnað.

Að því er varðar hin umdeildu félagsgjöld þykir bera að staðfesta ákvörðun skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja