Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 402/1986

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981 — 14. gr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Land — Lóð — Lögbýli — Bújörð — Söluhagnaður, frestun — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Íbúðarhúsnæði — Stofnverð — Söluhagnaður færður til lækkunar stofnverðs íbúðarhúsnæðis — Lögskýring — Lögskýringargögn — Ræða framsögumanns fyrir lagafrumvarpi — Lagafrumvarp

Málavextir eru þeir, að kærendur seldu lóðir og hús úr landi lögbýlis síns árið 1982. Nam söluverð 440.000 kr. Fram kemur í gögnum málsins að fasteignamat hinna seldu eigna margfaldað með verðstuðli nam 226.075 kr. við sölu og var söluhagnaður því 213.925 kr. Skattstjóri ákvarðaði kærendum söluhagnað samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981 215.000 kr. sem hann færði kærendum til tekna í reit 76 á skattframtali þeirra 1983. í kæru til skattstjóra, dags. 23. ágúst 1983, var þess krafist, með vísan til 14. gr. laga nr. 75/1981, að hinn skattskyldi söluhagnaður færðist til lækkunar á nýbyggingarkostnaði íbúðarhúss kærenda á jörðinni. Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1983, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á þeirri forsendu að enginn lagaheimild væri fyrir þeirri meðferð á söluhagnaði er krafa kærenda lyti að. Þá hefðu kærendur ekki sýnt fram á að aðstæður væru með þeim hætti, að heimil væri frestun söluhagnaðar samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar og þess krafist að honum verði hnekkt. Röksemdir umboðsmanns kærenda eru m.a. svohljóðandi: „Rök mín fyrir þessari kröfu eru ákvæði í 14. grein fjórðu málsgrein gildandi skattalaga nr. 40 frá 1978 þau rök sem hníga að ofangreindri grein eru:

1) Skattþegnar eru bændur á lögbýli sínu H., þau eru að byggja nýtt íbúðarhús á jörð sinni, og fjármagna það með landsölu í formi byggingar lóða, íbúðarhús þeirra er enn í byggingu.

2) Þau hjón hafa búið á jörð sinni um langt árabil (um einn mannsaldur) sem er mun lengri ábúðartími en ívitnuð grein gerir ráð fyrir.

Vikið er að kæruúrskurði skattstjóra og þess getið, að skattframtöl kærenda hafi ótvírætt borið þess merki að fullyrðing hans fái ekki staðist. Í skattframtali kærenda 1981 hafi verið farið fram á frestun söluhagnaðar af sömu ástæðum og nú og hafi frestun á honum verið veitt án athugasemda. Á skattframtali næsta árs var söluhagnaður síðan færður framreiknaður til niðurfærslu stofnverðs íbúðarhúss (nýbyggingar) á jörðinni án athugasemda frá skattstjóra. Nú kveði hins vegar við annan tón, án þess að fram hafi farið breyting á gildandi skattalögum. Umboðsmaður kærenda ítrekar gerðar kröfur í málinu.

Með bréfi dags. 6. febrúar 1984, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu f.h. gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ekki verður á það fallist að kærendur uppfylli skilyrði 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. ákvæðinu til skýringar ræða framsögumanns fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar um breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. 44. mál 102. löggjafarþings, er hann flutti þann 14. febrúar 1980.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja