Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 290/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður —15. gr. 1. og 2. mgr. — 23. gr. 1. mgr.  

Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Bifreiðaviðskipti — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Útreikningar söluhagnaðar — Verðbreyting — Stofnverð — Sölutap — Frádráttarbærni — Frádráttarheimild — Tap á sölu eigna, sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri

I.

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1986 fylgdi yfirlit yfir bifreiðaviðskipti á árinu 1985. Samkvæmt yfirliti þessu keypti kærandi 6 bifreiðar á árinu 1985 og seldi þær jafnframt á því sama ári. Þá kom fram í greinargerð um eignabreytingar í skattframtalinu, að kærandi seldi bifreiðina B fyrir 260.000 kr. Þessa bifreið hafði kærandi keypt á árinu 1984 fyrir 240.000 kr. Þá kom þar fram, að kærandi keypti bifreiðina C á árinu 1985 fyrir 300.000 kr. Ekki færði kærandi sér til tekna neinn söluhagnað af bifreiðaviðskiptum þessum.

Með bréfi, dags. 9. júní 1986, krafði skattstjóri kæranda um ársreikning vegna nefndra bifreiðaviðskipta þeirra, er greindi í fylgiskjali með skattframtalinu, enda þætti umfang þeirra benda til þess, að um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi væri að ræða, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði skattstjóri til 91. gr. laga þessara varðandi fylgigögn með skattframtölum bókhaldsskyldra aðila og gerði nánari grein fyrir því hvernig þau skyldu úr garði gerð og hvaða gögn skyldu fylgja. Kvað skattstjóri skattframtalið ekki vera í samræmi við nefnda 91. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og yrði því vikið til hliðar og skattstofnar áætlaðir, ef tilskilin gögn bærust ekki. Gefinn var 10 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins er virðist hafa verið framlengdur til 23. júní 1986. í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 25. júní 1986, kom fram, að af hálfu kæranda var litið svo á, að umfang þessara bifreiðaviðskipta væri svo lítið, að ekki gæti talist um sjálfstæða starfsemi að ræða heldur einungis áhugamál. Var vísað til þess, að fjórar af þeim sex bifreiðum, sem hefðu verið keyptar og seldar á árinu, hefðu í raun verið gjaldmiðlar. Til þess að geta selt tilteknar bifreiðar hefði kærandi þurft að taka aðrar upp í, sem hann hefði ekki kært sig um að eiga. Yrði tæplega litið svo á, að ágóðasjónarmið lægju að baki bifreiðaviðskiptum ársins 1985. Mætti færa að því gild rök, að betri ávöxtun hefði náðst af því fjármagni, sem lægi í bifreiðunum, með því að ráðstafa því á verðbréfamarkaði.

Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði ákveðið að hafna skattframtali hans árið 1986 og áætla tekjuskattsstofn 800.000 kr., hækkun eignarskattsstofns um 100.000 kr. og áætla aðstöðugjaldsstofn 1.000.000 kr. Þá væri bætt 25% álagi á skattstofna þessa. Byggðist höfnunin á því, að ekki hefðu verið lögð fram umbeðin gögn, sbr. bréf skattstjóra, dags. 9. júní 1986, og væri skattframtalið því ófullnægjandi og ekki í samræmi við 91. gr. laga nr. 75/1981.

II.

Með kæru, dags. 22. ágúst 1986, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu skattstjóra með vísan til röksemda og skýringa í bréfi sínu til skattstjóra, dags. 25. júní 1986, er barst skattstjóra að liðnum svarfresti, sbr. að framan.

Skattstjóri tók málið til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 13. október 1986. Vék skattstjóri að bifreiðaviðskiptum kæranda árið 1985. Hefðu tvær bifreiðanna sex verið keyptar af Innkaupastofnun ríkisins og seldar u.þ.b. mánuði síðar með 75.000 kr. hagnaði hvor bifreið, þ.e.a.s. hækkun hefði verið 107% og 125% á u.þ.b. 30 dögum. Bifreiðin D hefði verið seld með 65.000 kr. hagnaði 8 dögum eftir kaupdag eða 32,5% hækkun frá kaupverði. Mætti ljóst vera, að kærandi keypti ekki bifreiðar í því skyni að eiga þær eða hafa af þeim not. Ekki kvaðst skattstjóri geta fallist á þá staðhæfingu kæranda, að fjórar af hinum seldu bifreiðum hefðu í raun verið gjaldmiðill. Eins og fram kæmi í greinargerð kæranda hefðu fjórar bifreiðar verið keyptar af einstaklingum og félögum með beinum peningagreiðslum. Almennt gilti sú regla í bifreiðaviðskiptum í þeim tilvikum, þegar seljandi fengi aðra bifreið sem greiðslu, þá væri sú bifreið verulega ódýrari en sú selda. Því gæti skattstjóri ekki fallist á, að bifreið, sem keypt hefði verið af Y., væri bifreið tekin upp í söluverð heldur væri kærandi að láta bifreiðina G upp í kaupin á dýrari og betri bifreið, en síðastnefnda bifreiðin hefði verið keypt með peningum eða á samsvarandi hátt. Ljóst mætti því vera, að einungis ein bifreið, F, gæti talist vera tekin sem gjaldmiðill í bifreiðaskiptum. Þá vék skattstjóri að fyrri bifreiðaviðskiptum kæranda. Á árinu 1984 hefði hann keypt og selt sex bifreiðar og söluverð umfram kaupverð verið 120.000 kr. Á árinu 1982 hefði kærandi keypt 14 bifreiðar og selt 16. Árið 1981 hefði hann keypt og selt 12 bifreiðar. Á framtali 1983 hefði kærandi talið bifreiðaviðskipti sín fram sem atvinnurekstur, en viðskiptin á árinu 1981 hefði skattstjóri skattlagt sem atvinnurekstur og kærandi ekki mótmælt því. Væri því ekki um tilfallandi viðskipti að ræða árið 1985 heldur starfsemi, sem staðið hefði árum saman. Að mati skattstjóra teldust bifreiðaviðskiptin vera atvinnurekstur, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, og væri þá litið til umfangs viðskiptanna og þess hve lengi þau hefðu staðið yfir. Ekki féllst skattstjóri á röksemdir kæranda varðandi ágóðasjónarmið. Taldi skattstjóri rétt, að fram komnu svarbréfi kæranda, að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1986 með þeirri breytingu, að til tekna í reit 62 á framtalinu færðust 195.000 kr. er væri hagnaður af bifreiðaviðskiptunum. Stofn til aðstöðugjalds yrði 870.000 kr., sbr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga.

III.

Með kæru, dags. 17. október 1986, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess krafist aðallega, að breytingar skattstjóra verði niður felldar. Til vara er þess krafist, að rekstrarreikningur fyrir árið 1985 vegna bifreiðaviðskiptanna, er fylgdi kærunni, verði lagður til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 hvað varðar sjálfstæða starfsemi. Skv. þeim rekstrarreikningi nema hreinar tekjur af bifreiðaviðskiptum 24.121 kr. Kveður umboðsmaðurinn kæranda hafa um nokkurt árabil hafa stundað viðskipti, er felist í kaupum, endurbótum og sölu á notuðum bifreiðum. Hins vegar liti kærandi svo á, að umfang þessara viðskipta væri orðið svo lítið, að ekki yrði talið, að um sjálfstæða starfsemi væri að ræða. Á árinu 1984 hefði kærandi t.d. keypt og selt sex bifreiðar án þess að færa þær á rekstrarreikning og hefði skattstjóri ekki gert athugasemdir við það. Þá væri kærandi í fullu starfi sem launþegi en viðskipti þessi væru tæpast nema örfá dagsverk, enda liti hann á þetta sem áhugastarf. Þá gefi rekstrarreikningurinn til kynna, að ágóðasjónarmið sé ekki að baki þessum viðskiptum.

IV.

Með bréfi, dags. 12. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Þar sem kærandi hefur ekki orðið við ósk skattstjóra, sbr. bréf hans 9. júní 1986, varðandi framlögn á gögnum, er gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

V.

Skilja verður aðalkröfu kæranda svo, að hagnaður hans af umræddum bifreiðaviðskiptum teljist eigi til skattskyldra tekna skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en varakröfu þannig, að 24.121 kr. færist til tekna í reit 62 í skattframtali sem hreinar tekjur af sjálfstæðri starfsemi, sbr. rekstrarreikning þann, er fylgdi kærunni til ríkisskattanefndar. Skattstjóri hefur litið svo á, að um sjálfstæða starfsemi sé að ræða og tekjufært 195.000 kr. í reit 62 sem hreinar tekjur af þeirri starfsemi, sbr. yfirlit það, sem fylgdi skattframtalinu. í tilefni af kröfugerð ríkisskattstjóra þykir rétt að benda á, að skattstjóri hefur fellt niður áætlanir sínar og byggt á skattframtalinu og gögnum þeim meðfylgjandi, þótt þau gögn væru eigi lögð fram, sem um getur í bréfi skattstjóra, dags. 9. júní 1986. Eigi verður á það fallist með skattstjóra, sbr. og varakröfu kæranda, að bifreiðaviðskipti kæranda geti skoðast atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi hans. Að þessu virtu og málavöxtum að öðru leyti þykir bera að ákvarða söluhagnað kæranda af bifreiðaviðskiptum eftir ákvæðum 15. gr. laga nr. 75/1981. Eigi verður séð, að nein efni séu til þess, að bifreiðin B., er kærandi keypti í desember 1984 af H. s.f. á 240.000 kr. og seldi fyrir 260.000 kr. á árinu 1985 sé utan við uppgjör söluhagnaðar. Að teknu tilliti til verðbreytinga verður sölutap af bifreið þessari að fjárhæð 48.832 kr. er kemur til frádráttar söluhagnaði af öðrum seldum bifreiðum alls 220.000 kr. ásamt sölutapi 25.000 kr. af F, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 75/1981. í rekstrarreikningi þeim, er fylgdi kærunni til ríkisskattanefndar, gjaldfærir kærandi varahluti o.fl. 115.369 kr., kostnað við umskráningu 9.910 kr. og sölulaun 45.600 kr. eða alls 170.879 kr. Eigi fylgdu gögn um kostnað þennan, en út af fyrir sig þykja eigi efni til þess að draga í efa, að kostnaður af þessu tagi hafi fallið á kæranda, er taka beri tillit til við ákvörðun söluhagnaðar. Þegar það er virt, sem að framan segir, verður eigi talið, að kærandi hafi haft skattskyldan söluhagnað af bifreiðaviðskiptum árið 1985. Skv. þessari niðurstöðu verður því eigi neitt tilefni til þess að taka afstöðu til málsástæðu fyrir aðalkröfu kæranda um skattfrelsi söluhagnaðar skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Þá ber að fella álagt aðstöðugjald niður, sbr. fyrrgreinda niðurstöðu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja