Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 408/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 63. gr. 1. mgr. 3. tl. 2. mgr. 2. ml.  

Hjón — Sameignarfélag — Samrekstur hjóna — Vinnuframlag maka — Breytt framtalsskil — Rafvirki — Sönnun

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem stundar sjálfstæða starfsemi, rafvirkjun, dró frá hagnaði af þeirri starfsemi, er nam 615.941 kr., ónotaðar eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum, er námu framreiknaðar 1.539.501 kr., sbr. samræmingarblað R4.05, er fylgdi skattframtali hans árið 1986. Yfirfæranleg fjárhæð rekstrartaps til næsta árs nam 923.560 kr. samkvæmt þessu.

Með bréfi, dags. 23. júlí 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að niður væri felldur frádráttur fyrrnefnds rekstrartaps frá fyrri árum 615.941 kr. og yfirfærsla eftirstöðva þess til næsta árs 923.560 kr., þar sem hið yfirfæranlega rekstrartap 1.539.501 kr. hefði myndast í rekstri, sem eiginkona kæranda hefði staðið fyrir. Vísaði skattstjóri til 1. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Urðu hreinar tekjur af atvinnurekstri til skatts 615.914 kr. samkvæmt þessu, en voru engar áður.

Með kæru, dags. 27. ágúst 1986, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 og boðaði, að rökstudd kæra yrði send síðar. Með kæruúrskurði, dags. 28. október 1986, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að rökstuðningur í framhaldi af kæru hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Rökstuðningur kæranda fyrir kærunni til skattstjóra er dagsettur hinn 5. nóvember 1986 og barst skattstjóra degi síðar. Með bréfi, dags. 11. nóvember 1986, hefur skattstjóri framsent ríkisskattanefnd bréf þetta, þar sem það hefði borist í kærufresti til nefndarinnar. Í þessu bréfi gerir kærandi ýmsar breytingar á skattskilum sínum, er leiða af því að hann vill nú telja eiginkonu sína aðila að þeim rekstri, sem hann hafði með höndum á árinu 1985. Segir svo um þetta í bréfinu: „M., kærandi og eiginkona hans K. ráku á árinu 1985 sameignarfélag í Garðabæ undir nafninu X. s.f. Tilgangur félagsins var alhliða verktakastarfsemi. Samkv. 3. ml. 1. mgr. 3. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981 var félagið ekki sjálfstæður skattaðili. Aðspurð segir K. að hún hafi unnið við rekstur félagsins allt árið. Hún segist hafa séð um innkaup, útskrift reikninga, innheimtu, bókhald og allt annað, sem snéri að skrifstofu félagsins. Einnig hafi hún stöku sinnum unnið við raflagnir, þegar mikið lá við. Við framtalsgerð 1986 var ekki tekið tillit til þessa. Ég fer því fram á að framtal 1986 verði leiðrétt með tilliti til þess að um samrekstur var að ræða.“ Þá var gerð grein fyrir þeim breytingum, sem af þessu leiddu, þ.m.t. nú reiknuðu endurgjaldi vegna eiginkonu 250.000 kr., er var ekkert skv. framtali, og gjald- og skuldfærslu áætlaðs launaskatts vegna þessa 8.750 kr. Samkvæmt þessum breytingum urðu hreinar tekjur af atvinnurekstri 357.191 kr., er skipt var að jöfnu milli kæranda og eiginkonu hans 178.596 kr. hjá hvoru um sig og færðist hlutur kæranda í reit 62 í skattframtali, en hjá eiginkonu komu fyrrnefnd rekstrartöp 1.539.501 kr. til frádráttar og yfirfæranlegar eftirstöðvar til næsta árs því 1.360.905 kr. Grein var gerð fyrir þessu á samræmingarblöðum R4.05. Þá fylgdi bréfinu staðfest endurrit tilkynningar til Firmaskrár Garðakaupstaðar, dags. 30. desember 1985, þar sem segir, að kærandi og eiginkona hans reki í Garðakaupstað sameignarfélag með ótakmarkaðri ábyrgð undir nafninu X. s.f. Tilgangur félagsins sé alhliða rafverktakastarfsemi. Með bréfi, dags. 2. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Ríkisskattstjóri gerir aðallega þá kröfu að hin kærða álagning standi óbreytt. Sá atvinnurekstur sem hafður er með höndum er rafvirkjun og skv. framtalsgögnum er hann háður sérþekkingu eiginmanns. Með vísan til 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 ber að telja hagnað af rekstrinum hjá þeim er sérþekkinguna hefur svo sem skattstjóri gerði. Varðandi kröfu umboðsmanns kæranda um reiknuð laun til handa eiginkonu lítur ríkisskattstjóri svo á að synja beri þeirri kröfu. Í fyrsta lagi þykir greinargerð umboðsmanns kærenda í kæru, dags. 5. nóv. 1986, ekki trúverðug þegar litið er til þess hversu seint hún kemur fram. Þegar uppgjör rekstrarins og framtalsskil fóru fram bar kæranda (eiginkonu) að reikna sér endurgjald í samræmi við vinnuframlag sitt árið 1985. Það var ekki gert og lítur ríkisskattstjóri því svo á að ekkert vinnuframlag hafi verið um að ræða hjá kæranda (eiginkonu). A það er einnig að líta að þessi krafa um að eiginkonu verði reiknuð laun kemur fyrst fram eftir að skattstjóri hefur breytt framtalinu í löglegt form og þessi hagstæðu framtalsskil kærenda stóðust ekki.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi til greina kröfur umboðsmanns um reiknað endurgjald til handa eiginkonu þá gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að það verði ákveðið kr. 218.000 í samræmi við viðmiðunarreglur hans þar sem við ákvörðun launa eiginmanns eru viðmiðunartekjur ríkisskattstjóra notaðar. Einnig er gerð sú krafa að 25% álagi verði bætt á þessi vanframtöldu laun skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Jafnframt með vísan til 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 ber að telja hagnaðinn af atvinnurekstri kr. 397.941 fram hjá kæranda, eiginmanni.“

Skattstjóri hefur framsent ríkisskattanefnd rökstuðning kæranda til hans sem kæru til nefndarinnar. Eftir atvikum þykir mega láta við það sitja.

Kærandi vill nú breyta skattskilum sínum með tilliti til þess, að eiginkona hans hafi verið aðili að rekstri hans árið 1985 að jöfnu við hann. Þó er hreinum tekjum eigi skipt í samræmi við 2. ml. 2. mgr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og mál þetta ber að og að virtum málsatvikum og með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á, að í skattskilum hans fyrir árið 1985 beri að byggja á aðild eiginkonu hans að rekstrinum né á vinnu hennar við þennan rekstur. Þá er þess rétt að geta, að eigi liggur fyrir í málinu, að umrætt sameignarfélag hafi verið stofnað fyrr en í árslok 1985. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja