Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 615/1987

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 56. gr.   Lög nr. 32/1978 — 129. gr.  

Hlutafélag — Hlutafélög, nafnbreyting — Samruni hlutafélaga — Sameining félaga — Hlutafélagaskrá — Réttaráhrif afgreiðslu Hlutafélagaskrár — Tilkynning til Hlutafélagaskrár — Tilkynningafrestur til Hlutafélagaskrár

I.

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1984. Er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svohljóðandi:

„Forsaga málsins er sú að á árinu 1983 var nafni S. hf. breytt í Ö. hf. og síðan voru félögin H. hf., A. hf. og J. hf. sameinuð Ö. hf. Öll félögin voru í eigu sömu aðila og við sameininguna var gætt ákvæða 56. gr. skattalaga og ákvæða hlutafélagalaga samkvæmt upplýsingum lögmanns félagsins.

Í samræmi við fyrirliggjandi gögn og samkvæmt upplýsingum forráðamanna félagsins var saminn ársreikningur Ö. hf. vegna rekstrarársins 1983, þar sem m.a. var gerð grein fyrir sameiningu félaganna. Með hliðsjón af þessu voru ekki gerðir ársreikningar fyrir hin félögin vegna rekstrarársins 1983, heldur var rekstur þeirra felldur inn í ársreikning Ö. hf., þar sem félögunum var slitið við sameininguna 31. ágúst 1983.

Með bréfi dags. 25. febrúar 1985, boðar skattstjóri að sameining félaganna undir nafni Ö. hf. virðist óheimil, því ekki hafi verið gerðar breytingar á skrásetningu fyrirtækjanna. Málið var kannað nánar og kvaðst Hlutafélagaskrá hafa móttekið tilkynningu um nafnbreytingu 16/8 1983 (fskj. 1), en ekki kæmi fram að tilkynningar um sameiningu félaganna hefðu borist embættinu (sjá fskj. 2). Lögmaður Ö. hf. staðfesti að viðkomandi bréf voru útbúin í ágúst 1983, undirrituð og send Hlutafélagaskrá, eftir því sem hans gögn segðu. Taldi hann því líklegt að bréfin varðandi sameiningu félaganna hefðu mislagst hjá Hlutafélagaskrá (sjá fskj. 3.).

Framangreindum upplýsingum frá Hlutafélagaskrá og lögmanni félagsins ber ekki saman, en ljóst er að eigendur félagsins voru í góðri trú um að félögin hefðu verið sameinuð og að öðrum skilyrðum fyrir lögmætri sameiningu hefði verið fullnægt af þeirra hálfu, sbr. fundargerðarbækur félagsins og önnur gögn. Ljóst er ennfremur að lánadrottnar félaganna hafa á engan hátt skaðast af sameiningu þeirra, enda félögin öll í eigu sömu aðila.

Við leyfum okkur því, sem aðalkröfu, að kæra úrskurð skattstjóra til hæstvirtrar Ríkisskattanefndar og förum fram á að skattframtal Ö. hf. 1984 verði lagt til grundvallar álagningu og áætluð gjöld skattstjóra felld niður, þar sem sameining félaganna var lögmæt að okkar áliti.

Til vara förum við fram á að meðfylgjandi ársreikningar og skattframtöl Ö. hf., H. hf. og A. hf. vegna rekstrarársins 1983 verði lögð til grundvallar álagningu, áætluð gjöld skattstjóra felld niður og úrskurðað um yfirfæranleg rekstrartöp. Enginn rekstur hefur verið í félaginu J. hf. um nokkur ár og vísast til ársreiknings Ö. hf. 1983 um yfirfæranlegt rekstrartap þess.

Mál Ö. hf., H. hf. og A. hf. eru samtengd eins og ljóst má vera. Ekki var unnt að vinna frekar að framgangi mála H. hf. og A. hf. fyrr en úrskurður var fenginn um málefni Ö. hf. og sameiningu félaganna. Förum við þess vinsamlegast á leit við hæstvirta Ríkisskattanefnd að hún taki framtöl félaganna til efnismeðferðar og úrskurðar, með hliðsjón af því sem áður greinir.“

II.

Með bréfi dags. 27. febrúar 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Af þeim gögnum sem fyrir liggja verður ekki ráðið að formi og efnisskilyrðum til sameiningar félaganna H. hf., A. hf. og J. hf. og kæranda hafi verið fullnægt á tilsettum tíma. Verður ekki séð að kærandi geti byggt umkrafinn rétt á þeim gögnum er fyrir liggja í málinu. Með vísan til þess og að öðru leyti til gagna málsins og rökstuðnings skattstjóra er sú krafa gerð að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.“

III.

Skattstjóri hefur byggt hina umdeildu ákvörðun á því að tilkynning til Hlutafélagaskrár hafi eigi farið fram innan þess frests, sem settur er í 129. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, og sé því úr gildi fallin skv. ákvæðum sömu lagagreinar. Skuli því skattlagning á kæranda gjaldárið 1984 fara fram, svo sem enginn samruni hafi orðið við kæranda á árinu 1983. Þegar litið er til afgreiðslu Hlutafélagaskrár varðandi samruna þann sem í málinu greinir, og upplýst er um í gögnum málsins, þykir svo sem á stendur rétt að byggja á því í skattaréttarlegu tilliti, að samruni hafi orðið á árinu 1983. Með því að enginn ágreiningur er í máli þessu um önnur atriði viðvíkjandi þessum samruna þykir bera að fallast á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja