Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 671/1987

Söluskattur 1981—1983

Lög nr. 10/1960 — 2. gr. 2. mgr. — 3. gr.  

Söluskattur — Myndbandaleiga — Neytandi — Endurseljandi vöru og þjónustu — Útleiga — Endurákvörðun

Kærð er endurákvörðun sölugjalds vegna söluskattstímabilanna frá júlí 1981 til og með febrúar 1983. Mótmælir umboðsmaður kæranda þeirri hækkun sölugjalds, sem byggð er á svofelldum forsendum hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra: „Í stuttu máli eru málsatvik þessi: Þegar starfsmenn rannsóknardeildar skattstofu Reykjavíkur þann 1. mars 1983 hófu rannsókn á bókhaldi gjaldanda þá fór fram talning á myndböndum sem voru í eigu hans og reyndust myndböndin vera 1801. Samkvæmt innkaupanótum í bókhaldi gjaldanda frá júlí 1981 til og með 1. mars 1983 var heildarfjöldi keyptra myndbanda aðeins 1064. Í ljós kom að hluti þessara myndbanda sem til voru nótur yfir voru keypt án söluskatts. Samkvæmt söluskattsskírteini gjaldanda var honum heimilt að kaupa myndbönd án söluskatts til endursölu en þar sem um kaup til eigin nota var að ræða taldi skattstjóri að gjaldandi ætti að standa skil á sölugjaldinu. í skýrslu rannsóknardeildar skattstjóra segir að engar frambærilegar skýringar hefðu komið fram af hálfu gjaldanda varðandi tilvist 441 myndbands.

„Í kæru sinni gerir umboðsmaður m.a. svofellda grein fyrir kröfu sinni: „Ekki fæ ég séð staf um það í lögum nr. 10/1960 að framangreind viðskipti skapi söluskattsskuld hjá umbjóðanda mínum, þar sem hann er kaupandi vöru en ekki seljandi sbr. 2. mgr. 2. gr. þessara laga. Jafnframt er ljóst eins og áður segir að skattstofan hafði upplýsingar um öll myndbandakaup umbjóðanda míns við dreifingaraðila og sá söluskattur sem af þeim viðskiptum laut er þegar fram komin.“

Með bréfi dags. 15. júlí 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda grein fyrir kröfum sínum í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjanda:

„Að úrskurður ríkisskattstjóra frá 24. nóv. 1986 verði staðfestur enda verður ekki séð að kæra umboðsmanns kæranda sé studd viðhlítandi gögnum. Eins og gögn málsins bera með sér var færsla bókhalds með öllu ófullnægjandi. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn sem tilgreina seljendur umræddra myndbanda, og þar sem kærandi hafði í höndum söluskattsskírteini skv. 6. gr. rg. nr. 486/1982, er heimilaði honum að kaupa vörur án söluskatts, verður að telja að honum hafi borið að standa skil á söluskatti af umræddum myndböndum og að hann hefði átt að hafa það í huga við verðákvörðun myndbandanna.“

Fram kemur í gögnum kærumáls þessa að á því tímabili sem um ræðir þ.á m. í rekstrarreikningi fyrir árið 1982, hafi kærandi haft aðaltekjur sínar af útleigu myndbanda svo og er um nokkra sólu þeirra að ræða. Kærandi hefur fullyrt að umrætt 441 myndband hafi hann keypt til útleigu og hefur því út af fyrir sig eigi verið mótmælt af hálfu gjaldkrefjanda. Kæranda verður því eigi gert að standa skil á sölugjaldi af þeim innkaupum sínum, sem hér um ræðir og með þeim hætti sem gert er í hinni kærðu endurákvörðun, sbr. m.a. 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt með síðari breytingum. Kæran er því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja