Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 735/1987

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 16. gr. 1., 2., 4., 7. og 8. mgr.  

Söluhagnaður — Íbúðarhúsnæði — Eignarhaldstími — Framreikningar — Tímaviðmiðun byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyldur söluhagnaður — Byggingarstig íbúðarhúsnæðis

Kærð er endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1985. Er kærð sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna í skattframtali 1985 söluhagnað að fjárhæð 278.516 kr. vegna sölu á íbúðarhúsnæði kæranda í Kópavogi samkvæmt kaupsamningi dags. 3. febrúar 1982. Með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafði skattstjóri frestað skattlagningu söluhagnaðarins um tvenn áramót. í febrúar 1986 kaupir kærandi íbúð á S. og kveðst ekki hafa átt kost á að kaupa íbúð á árinu 1985 vegna reglna Húsnæðisstofnunar um lánveitingar. Kærandi krefst þess að ákvörðun skattstjóra verði felld niður að fullu þar sem hann geti ekki greitt hvorutveggja íbúðina og skatthækkun skattstjóra.

Með bréfi, dags. 25. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kæran sæti frávísun hjá ríkisskattanefnd þar eð hún er of seint fram borin.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi kæruna til efnislegrar afgreiðslu er gerð krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til röksemda hans.“

Eftir atvikum er kæran til ríkisskattanefndar tekin til efnismeðferðar.

Svo sem fram hefur komið snýst mál þetta um hagnað kæranda af sölu íbúðarhúsnæðis hans í Kópavogi. Er sölusamningurinn dagsettur 3. febrúar 1982 eftir því sem fram kemur í gögnum málsins. Samkvæmt fyrirliggjandi ljósritum úr bókhaldi þess aðila er annaðist um byggingu íbúðar þessarar var fyrsta greiðsla kæranda til hans innt af hendi þann 4. október 1976. Bygging íbúðarhúsnæðisins stóð til ársins 1981 og lagði kærandi árlega fram fé til byggingarinnar. Liggur eigi annað fyrir en kærandi hafi innt þær greiðslur af hendi eftir framvindu byggingarinnar. Við ákvörðun söluhagnaðar af sölu umrædds íbúðarhúsnæðis ber að fara eftir ákvæðum 1., 4., 7. og 8. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.á m. að því er varðar hvenær lagt er í byggingarkostnað. Fyrir liggur að hluti framlagðs fjár til byggingarinnar var eldri en 5 ára á söludegi. Að teknu tilliti til þess og framreiknaðs stofnverðs íbúðarinnar eftir nefndum lagaákvæðum ákvarðast að skattskyldur söluhagnaður kæranda hafi numið 25.697 kr., sem framreiknaður til ársins 1984 til tekjufærslu í skattframtali kæranda árið 1985 nemur 55.901 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja