Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 35/1988

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.   Lög nr. 51/1972 — 8. gr. — 9. gr.  

íbúðarlán — Rekstrarskuld — Búrekstur — Landbúnaðarskýrsla — Íbúðarkaup — Bjargráðasjóður — Bjargráðasjóðslán — Vefenging skattframtals — Málsmeðferð áfátt — Sönnun

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem stundar búrekstur, aðallega kartöflurækt, færði meðal skulda í skuldahlið skattframtals síns (S 1) árið 1985 lán úr Bjargráðasjóði að fjárhæð 515.000 kr. Með bréfi, dags. 10. júní 1986, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á lántöku hjá Bjargráðasjóði ásamt rökum fyrir því að færa það lán ekki á landbúnaðarskýrslu. Gefinn var svarfrestur til 16. júní 1986. Ekki barst svar frá kæranda og með bréfi, dags. 11. desember 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1985, að skuld við Bjargráðasjóð hefði verið flutt af persónuframtali á landbúnaðarframtal.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu mótmælt í kæru, dags. 2. febrúar 1987. Var vísað til þess, að kæranda hefði staðið til boða að fá umrætt lán úr Bjargráðasjóði. Hann hefði ekki þurft þess með vegna búrekstrar en tekið það til þess að fjármagna íbúðarkaup. Bæri því að telja lánið til skuldar á persónuframtali. Með kæruúrskurði, dags. 13. mars 1987, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Taldi hann rétt að taka hana til efnismeðferðar þrátt fyrir það, að hún væri of seint fram komin. Hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með skírskotun til þess, að skv. upplýsingum frá Bjargráðasjóði væri ekki og hefði ekki verið lánað úr sjóðnum til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði. Hefði umrætt lán því verið veitt kæranda vegna búrekstrar.

Með kæru, dags. 13. apríl 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þær kröfur, að skattframtal kæranda árið 1985 verði látið standa óbreytt og kæruúrskurði skattstjóra hnekkt. Svofelldan rökstuðning er að finna í kærunni, studdan þargreindum gögnum:

„G. stóð til boða að fá lán úr Bjargráðasjóði. Þurfti hann ekki á því að halda eins og fram kemur í meðfylgjandi fjármagnsstreymi fyrir árið 1984.

Vegna fasteignakaupanna þurfti G. að fá lán til að greiða útborgun árið 1984 (kr. 600.000). Þar sem honum bauðst framangreint lán sem hann hafði ekki þörf fyrir vegna búrekstrarins taldi hann hagkvæmara að taka það en neita því og þurfa að leita eftir láni hjá öðrum lánastofnunum vegna fasteignakaupanna.

Meðfylgjandi er einnig fjármagnsstreymi fyrir árið 1985 og kemur þar fram að G. hefur getað fjármagnað greiðslu vegna fasteignakaupa af búrekstri.“

Með bréfi, dags. 2. desember 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra frá 13. mars 1987 varðandi gjaldár 1985 verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Rétt hefði verið, að skýrar hefði komið fram í bréfi skattstjóra, dags. 10. júní 1986, að hann vefengdi hinn umdeilda þátt skattframtals kæranda árið 1985, en eigi þykir þó alveg næg ástæða til þess að ómerkja hina kærðu breytingu af þessum sökum. Eigi kemur glöggt fram í máli þessu af hvaða ástæðum kæranda var veitt umrætt lán úr Bjargráðasjóði. Þykir þó mega byggja á því, að kæranda hafi verið veitt lán úr búnaðardeild sjóðsins, sbr. 9. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, vegna einhverra þargreindra áfalla í búrekstri, en eigi úr hinni almennu deild sjóðsins, sbr. 8. gr. sömu laga með síðari breytingum, til að bæta tjón á fasteignum og lausafé af völdum náttúruhamfara. Að þessu athuguðu og málsatvikum að öðru leyti þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja