Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 93/1988

Gjaldár 1986

Skattmat ríkisskattstjóra framtalsárið 1986, liður 3.6.0.   Lög nr. 75/1980 — 2. gr. — 12. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 4. tl.  

Húsaleigustyrkur — Húsnæðiskostnaður — Alþingismaður — Alþingi — Þingfararkaup — Skattmat ríkisskattstjóra — Húsaleiga — Kostnaður á móti húsaleigustyrk — Lögheimili — Skattskyldar tekjur — Kjaradómur — Orkukostnaður — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar

Málavextir eru þeir, að kærandi sem er alþingismaður með lögheimili á B. fékk greidda húsaleigu frá Alþingi árið 1985, að fjárhæð 118.800 kr. Færði kærandi þá fjárhæð sem tekjur í reit 27 og sem hlunnindi til frádráttar í reit 34 í skattframtali sínu 1986. Skattstjóri sendi kæranda fyrirspurnarbréf, dags. 6. nóvember 1986. Óskaði hann eftir sundurliðun á fyrrgreindum frádrætti í reit 34, 118.800 kr. Skattstjóri vísaði til þess, að skv. skattmati ríkisskattstjóra lið 3.6.0. skuli frádráttur vegna þessa húsaleigustyrks, nema sama sannanlegum kostnaði og leyfður sé til frádráttar skv. gildandi skattalögum frá leigutekjum manna af útleigu íbúðarhúsnæðis og auk þess fjárhæð vegna orkukostnaðar (rafmagns og hita) er nemi allt að 20% af húsaleigustyrk, þó ekki hærri fjárhæð alls en sem nemur húsaleigustyrk. Þessi frádráttur komi því aðeins til álita hafi framteljandi þurft að standa straum af íbúðarkostnaði á tveim stöðum, en skv. skattframtali eigi kærandi aðeins eina íbúð og greiði ekki húsaleigu. í svarbréfi kæranda, dags. 24. nóvember 1986, var m.a. vitnað til 2. gr. laga nr. 75/1980 en þar væru að firma ákvæði um lögkjör alþingismanna. Yrði sá réttur sem þingfararkaupslög veittu kæranda sem alþingismanni ekki af honum tekinn með skattaákvæði því sem vitnað væri til. Með fyrrgreindri 2. gr. væri sú staða alþingismanna virt að þeir hlytu yfirleitt að „eiga tvö heimili“ sem leiddi af eðli þingmannsstarfsins. Mótmælti kærandi því, að greiðsla húsnæðiskostnaðar sem honum bæri að lögum vegna stöðu sinnar væri skattskyld. Ákvæði skattmats ættu ekki við í þessu tilfelli. Fram kom að kærandi hafði greitt tveim aðilum húsaleigu árið 1985. Ekki var getið um fjárhæðir þeirra greiðslna. Með bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 1. desember 1986, voru kæranda sendir greiðslumiðar vegna greiddrar húsaleigu og ljósrit af skattmati ríkisskattstjóra, „svo yður sé ljóst hvaða kostnað heimilt er að draga frá á móti húsaleigustyrk“ eins og segir í bréfi skattstjóra. Jafnframt áréttaði skattstjóri að húsaleigustyrkur væri að fullu skattskyldur enda þótt heimilt væri að færa á móti honum kostnað að uppfylltum skilyrðum. í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 19. desember 1986, felldi hann niður frádrátt á móti húsaleigustyrk frá Alþingi 118.800 kr. Kærandi hefði ekki skilað greiðslumiðum og hefði ekki sýnt fram á neinn kostnað sem sem unnt væri að færa á móti greindum húsaleigustyrk. Enn fremur kom fram í bréfi skattstjóra að kærandi ætti íbúð í Reykjavík en hefði lögheimili á B. Í kæru til skattstjóra, dags. 16. janúar 1987, lagði kærandi áherslu á að um væri að ræða húsnæðiskostnað (ekki styrk) sem ákveðinn væri af kjaradómi, sbr. 12. gr. þingfararkaupslaga, enda hluti af lögkjörum alþingismanna utan af landi. Hefði svo verið allt frá endurreisn Alþingis að þeir ættu rétt á að fá greiddan húsnæðiskostnað vegna þingstarfa, sbr. 2. gr. þingfararkaupslaga. Reynt væri að koma til móts við fjárhagsbyrði utanbæjarþingmanna og áætla eins konar meðalkostnað í þessu sambandi. Var því harðlega mótmælt af hálfu kæranda að skattmatsákvæði það, sem skattstjóri hefði vísað til, svipti sig réttindum sem þingfararkaup áskildi sér sem þingmanni búsettum á B. nú og alla sína starfsævi. Krafðist kærandi þess að mál þetta yrði vandlega kannað, enda um „prinsipmál að ræða“, er varði alla utanbæjarþingmenn. Kærandi ítrekaði að ekki væri um að ræða húsaleigustyrk sbr. orðalag skattstjóra, heldur áætlaðan húsnæðiskostnað sem flokkist ekki undir hlunnindi og beri því ekki að skattleggjast. Með úrskurði, uppkveðnum 27. janúar 1987, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að ekki hefði verið sýnt fram á neinn þann kostnað, sem komið gæti til frádráttar húsaleigustyrk og ekki hefði verið upplýst um greidda húsaleigu.

Úrskurði skattstjóra hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með svofelldri kæru:

„Skattstjóri N-umdæmis hefur ákveðið að skattleggja húsnæðiskostnað minn sem alþingismanns búsetts utan Reykjavíkur. Húsnæðiskostnað þennan (ekki styrk) ákveður (áætlar) kjaradómur, sbr. 12. gr. þingfararkaupslaga, enda hluti af lögkjörum alþingismanna utan af landi (og hefur svo verið allt frá endurreisn Alþingis) að þeir eiga rétt á að fá greiddan húsnæðiskostnað (ekki styrk) vegna þingstarfa, sjá 2. gr. þingfararkaupslaga. Aðstaða utanbæjarþingmanns er sú að hann verður í raun að eiga tvö heimili og er reynt að koma til móts við fjárhagsbyrði sem af því hlýst með því að áætla eins konar meðalkostnað í þessu sambandi. Er fráleitt að skattleggja þessar greiðslur.

Ég mótmæli því að skattmatsákvæði það, sem skattstjóri hefur vísað til, svipti mig réttindum, sem þingfararkaupslög áskilja mér sem þingmanni búsettum utan Reykjavíkur nú og alla mína starfsævi. Að því er ég best veit eru kollegar mínir úr N-kjördæmi ekki skattlagðir á þann hátt sem nú á að beita mig. Hlýtur það að vekja nokkra furðu, og leyfi ég mér að benda háttv. ríkisskattanefnd sérstaklega á það í þessu sambandi. Þess þykist ég vita dæmi að skattstjórinn í V-umdæmi hafi hætt við fyrirætlun um að skattleggja alþingismann á þeim grundvelli sem mér er ætlaður. Hví er ekki gætt samræmis í framkvæmdinni?

Óska ég að þetta mál verði vandlega kannað, enda um prinsipmál að ræða, sem varðar alla utanbæjarþingmenn. Ég vek athygli á því orðalagi skattstjóra að nefna áætlaðan húsnæðiskostnað þingmanns húsaleigustyrk. Þetta er ekki styrkur, ekki hlunnindi heldur. Þetta er, eins og lög nefna það og allir kunnugir vita að er, kostnaður við að gegna þingmannsstarfi. Kostnað á ekki að skattleggja.“

Með bréfi, dags. 7. desember 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, þó með þeim breytingum að með hliðsjón af matsreglum ríkisskattstjóra fyrir árið 1986, lið 3.6.0. þykir kærandi eiga rétt á að færa til frádráttar 20% af fengnum húsaleigustyrk, vegna orkukostnaðar.

Rétt þykir að fram komi í þessu sambandi að ríkisskattstjóri lítur svo á að hin umdeilda greiðsla frá Alþingi sé húsaleigustyrkur en ekki endurgreiðsla á útlögðum kostnaði, skv. 2. gr. laga 75/1980 um þingfararkaup, enda er upphæð styrksins ákveðin af Kjaradómi sbr. 12. gr. s.l., sama fjárhæð fyrir alla þingmenn sem lögheimili eiga utan Reykjavíkur, óháð mismiklum kostnaði sem þeir óhjákvæmilega bera.“

Kærandi, sem var alþingismaður árið 1985, átti það ár lögheimili á B., en dvaldist í eigin húsnæði í Reykjavík vegna þingstarfa sinna. Hann naut m.a. greiðslu húsnæðiskostnaðar vegna þingstarfa sinna skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1980, um þingfararkaup alþingismanna. Svo sem öllum atvikum er háttað þykir mega byggja á því, að umrædd greiðsla eigi ekki að leiða til skattlagningar hjá kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja