Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 102/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 5. gr. — 31. gr. 4. tl. — 44. gr. 1. mgr. 3. tl. — 63. gr. 1. mgr. 3. tl. 3. mgr.  

Hjón — Sköttun hjóna — Rekstrartap, frádráttarbærni — Rekstraraðili — Rekstrartap, meðferð hjá hjónum — Sjálfstæður skattaðili — Firmaskrá — Firmaskráning — Samrekstur — Samrekstur hjóna — Niðurfærsla vörubirgða — Vörubirgðir — Niðurfærsluheimild — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Fyrning tekjufærslu — Rekstrarskuldir — Vaxtagjöld — Úttekt úr rekstri — Framlag til rekstrar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986 og eru kæruatriði sem hér greinir:

1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að lækka tilfærðar langtímaskuldir í ársreikningi ársins 1985 um 560.000 kr. og gjaldfærð vaxtagjöld um 65.000 kr. og færa fjárhæðir þessar á persónuframtal kærenda. Byggði skattstjóri ákvörðun þessa á því að miðað við úttekt úr eigin atvinnurekstri yrði að líta svo á að nefnd skuld tilheyrði kærendum persónulega en eigi atvinnurekstri þeirra. í kæru umboðsmanns kærenda til ríkisskattanefndar eru svofelldar kröfur gerðar varðandi þetta kæruatriði: „Varðandi lið 1 í bréfi skattstjóra dags. 2. mars 1987 vil ég benda á það, að á árinu 1985 er úttekt K. umfram reiknuð laun u.þ.b. kr. 560.000 í A. og framlag hans til B. kr. 547.516. Framlag hans til B. á árinu 1984 var kr. 168.000. Af framansögðu ætti að vera ljóst, að ekki hefur veríð um neina aukningu á persónutengdum skuldum að ræða. Farið er fram á, að framtalið standi óbreytt varðandi þetta atriði. Til vara förum við fram á, að áætlaðar skuldir kr. 560.000 og áætlaður kostnaður vegna þeirra kr. 65.000 verði færður í ársreikning B.“

2. Í öðru lagi er kærð sú ákvörðun skattstjóra að heimila kæranda, eiginmanni, ekki að færa til frádráttar rekstrarhagnaði fyrirtækis hans, sem er prentsmiðja, rekstrartap fyrirtækis, tískuverslunar, sem skattstjóri taldi kæranda, eiginkonu, reka. Byggði skattstjóri ákvörðun þessa á 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og vitnaði í því sambandi til úrskurða ríkisskattanefndar merkta nr. 57 og 201 frá árinu 1986. Þó tók skattstjóri fram að samkvæmt tilkynningu til firmaskrár ræki eiginkonan þá verslun á eigin ábyrgð. Vegna þessarar afstöðu skattstjóra gerir umboðsmaður kærenda svofelldar kröfur í kærunni til ríkisskattanefndar:

„Varðandi lið 3, þá viljum við upplýsa það, að K. hefur fjármagnað rekstur B. sbr. svar við lið 1. Hann ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldum vegna kaupa á versluninni og hefur haft yfirumsjón með öllum fjármálum þar að lútandi. Það að verslunin B. var skráð á D. en ekki K. á sínum tíma var eingöngu hagkvæmnisatriði, enda eru þau harðgift og hafa aldrei gert greinarmun á því, hvort þeirra væri skráð fyrir sameiginlegum eignum. Þar sem að ljóst er að um sameiginlegan rekstur er að ræða, förum við fram á, að tapi af rekstri B. verði jafnað á móti hreinum tekjum af rekstri A., eins og gert er á framtali þeirra. Til vara förum við fram á, að fasteignin H. verði flýtifyrnd um kr. 897.290, sem eru 40% af verðbreytingartekjum og að birgðir verði niðurskrifaðar um kr. 180.265 þannig, að hreinar tekjur af rekstri A. verði kr. 0.“

Með bréfi dags. 25. nóvember 1987 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Um 1. Skattstjóri þykir eigi hafa stutt nægum rökum þá breytingu að lækka langtímalán um 560.000 kr, og vaxtagjöld um 65.000 kr. í ársreikningi kæranda, K., vegna A., og telja fjárhæðir þessar tilheyra kærendum persónulega. Er þessi breyting skattstjóra því felld úr gildi.

Um 2. Samkvæmt skattframtali kærenda árið 1986 unnu hvorugt hjónanna við B. á árinu 1985. Kærandi, eiginkona, telst standa fyrir rekstri verslunarinnar samkvæmt tilkynningu þar um til firmaskrár Reykjavíkur. Með vísan til þessa og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er aðalkröfu kærenda hafnað. Hins vegar er fallist á varakröfu um að fasteignin H., verði fyrnd skv. ákvæðum 2. ml. 1. mgr. 44. gr. sömu laga um 897.290 kr. og matsverð vörubirgða verði fært niður um 180.265 kr. sbr. 4. tl. 1. mgr. 31. gr. nefndra laga svo sem farið er fram á í kærunni til ríkisskattanefndar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja