Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 380/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 10. gr. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 35. gr.   Lög nr. 20/1923  

Fyrning — Fyrningargrunnur — Stofnverð — Fyrningarskýrsla — Fyrnanleg fasteign — Fyrnanlegt lausafé — Hjón — Hjónaskilnaður — Fjárskipti hjóna — Skilnaðarsamningur — Sameignarfélag — Samrekstur

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 2. desember 1986, boðaði skattstjóri kæranda, sem er starfandi tannlæknir, að fyrirhugað væri að leiðrétta fyrningarskýrslu árið 1985, rekstrar- og efnahagsreikning það ár vegna tannlækningastofu þannig að stofnverð áhalda og tækja og 50% húseignar yrði lækkað í það horf, sem það ætti að vera. Kærandi hefði uppfært nýtt stofnverð á þessum eignum, en skv. fyrirliggjandi upplýsingum væri um yfirtöku eignanna skv. skiptingu á hjúskapareign við hjónaskilnað að ræða.

Með bréfi, dags. 15. desember 1986, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum fyrirhuguðu breytingum. Segir svo í bréfinu:

„Á árinu 1985 skildu þau hjón A. og B. og urðu ásátt um að skipta eignum sínum að jöfnu á milli sín með þeirri undantekningu að A. keypti af B. hennar hlut í tannlæknastofu með tilheyrandi áhöldum fyrir kr. 1.040.865 sem greiddust með yfirtöku áhvílandi skulda á sameiginlegu búi þeirra og með peningum kr. 500.000. Gerð er full grein fyrir þessum kaupum á fylgiskjali með skattframtali 1986. Líta verður svo á að þegar annar aðili að sameignarfélagi sem ekki var sjálfstæður skattaðili selur hinum myndist nýr fyrningarstofn hjá kaupanda.“

Með bréfi, dags. 12. janúar 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga. Ekki væri á það fallist, að skipting hjúskapareigna leiddi til þess, að heimilt væri að endurmeta fyrningargrunn eignarhluta eigna, sem kæmu til skipta þrátt fyrir það, að eitthvert verð væri ákveðið sem verðgildi eignanna. Því væri ekki fallist á þá skýringu í bréfi kæranda frá 15. desember 1986, að um hliðstæðu við sölu hluta í sameignarfélagi væri að ræða. Við breytingar skattstjóra lækkuðu gjaldfærðar fyrningar um alls 171.083 kr. og hreinar tekjur af tannlæknastofu hækkuðu um sömu fjárhæð.

Með kæru, dags. 5. febrúar 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingum skattstjóra og vísaði til bréfs síns, dags. 15. desember 1986. Kvað hann öllum eignum, þ.m.t. búslóð, bifreiðum og fasteignum, hafa verið skipt jafnt milli kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans. Kærandi hefði ákveðið að kaupa eignarhlut B. í tannlæknastofunni, þar sem eðlilegt hefði þótt, að hann ætti stofuna einn, enda slík eign B. arðlaus. Ekki væri um það að ræða, að notuð væri viss aðferð til þess að gefa eignum þeim, er féllu undir skiptin tölulegt gildi, heldur væri málið einfaldlega það, að kærandi léti af hendi við B. ákveðna fjárhæð og yfirtæki frá henni ákveðnar skuldir. í staðinn hefði hann fengið eignarhluta hennar í tannlæknastofunni. Engin önnur fjármálaleg viðskipti hefðu orðið vegna sjálfra skiptanna svo að ekki væri um önnur verðmæti að ræða en tannlæknastofuna, er látin væru í stað umræddra greiðslna. Væri þess því krafist, að litið verði svo á, að um kaup væri að ræða á umræddri tannlæknastofu og að kaupverðið myndi nýjan fyrningarstofn.

Með kæruúrskurði, dags. 25. maí 1987, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar og ákvað, að fyrri endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1986 skyldi óbreytt standa. Ítrekaði skattstjóri röksemdir sínar, er fram höfðu komið í endurákvörðuninni, dags. 12. janúar 1987, og bréfi, dags. 2. desember 1986.

Með kæru, dags. 9. júní 1987, skaut kærandi kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og boðaði, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Í bréfi, dags. 20. ágúst 1987, hefur kærandi gert grein fyrir kröfum sínum og röksemdum. Krefst hann þess, að kaup á hluta B. í tannlæknastofunni verði lögð til grundvallar fyrningum á umsömdu kaupverði 1.040.865 kr. svo sem gerð væri grein fyrir í fylgiskjali með skattframtali árið 1986. Þá segir svo í kærunni:

„Til áréttingar kröfu minni vil ég geta þess, að við skilnað okkar B. vorum við sammála um að við hefðum lagt jafnmikið fram til stofnunar tannlækningastofunnar, enda vann B. fulla vinnu við stofuna þau ár sem hjónabandið varði ekki síður en ég. Þá leyfi ég mér og benda á að í skilnaðarsamningi er eignum skipt jafnt og ég greiði B. meira en skylda er í meðlag. Ég taldi mig verða að kaupa tannlækningastofuna og gat því ekki keypt hennar hluta í öðrum sameiginlegum eignum okkar, þ.e. húseigninni X. Ég álít það deginum ljósara að kaupin á hluta B. í tannlækningastofunni eru þannig viðskipti að engu breytti þótt keypt sé af fyrrverandi eiginkonu, þau urðu að fara fram, hún fékk sanngjarnt verð fyrir sinn hluta í sameiginlegu fyrirtæki okkar, fyrirtæki sem ég á núna óvefengjanlega einn og hef allar mínar tekjur af.“

Bréfinu fylgdi endurrit úr hjónaskilnaðarbók embættis bæjarfógeta vegna skilnaðar kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans að borði og sæng, er hefur m.a. að geyma samkomulag um fjárskipti.

Með bréfi, dags. 2. mars 1988, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt samkomulagi því um fjárskipti, sem fyrr greinir, dags. 17. október 1985, féll m.a. í hlut kæranda við skilnaðinn eignarhluti í fasteign ásamt öllum búnaði og tækjum á tannlæknastofu. Ýmsar aðrar eignir féllu í hlut kæranda svo sem bifreið, hluti innbús og hlutdeild í húseigninni X. er varð í óskiptri sameign kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans og selja skyldi sem fyrst skv. samkomulaginu. Þá tók kærandi skv. samkomulaginu að sér greiðslu allra skulda búsins með tveimur tilgreindum undantekningum. Þá var svo umsamið, að kærandi greiddi fyrrverandi eiginkonu sinni fyrir eignarhlutann í fasteigninni, er féll í hlut hans, 500.000 kr. með fjórum greiðslum á tímabilinu 31. október 1985 til 1. ágúst 1986. Kærandi hefur talið sig kaupa 50% í fasteigninni og 50% tækja tannlæknastofunnar af eiginkonu sinni skv. samkomulaginu um fjárskiptin. Telur hann kaupverðið hafa numið 1.040.865 kr., sbr. greinargerð um kaup og sölu eigna (R3.02), er fylgdi skattframtali hans. Hann telur kaupverðið vera nefndar 500.000 kr. og að viðbættum 540.865 kr. vegna yfirtöku skulda skv. samkomulaginu. Hann heldur því fram, að kaupverð þetta myndi fyrningargrunn fyrrgreinds hluta (50%) í eignum þessum og hagar framtalsgerð sinni svo, að hann telur 500.000 kr. sem nýjan fyrningargrunn fyrir 50% fasteignarinnar og 540.865 kr. sem nýjan fyrningargrunn samsvarandi hluta áhalda og tækja, sbr. fyrningarskýrslu árið 1985. Þegar litið er til þess skilnaðarsamkomulags, sem fyrr er getið, staðfestu af yfirvaldi og réttarreglna um fjárskipti hjóna þykir eigi hafa verið sýnt fram á það af hálfu kæranda að líta beri á öflun umræddra eigna á annan hátt en sem lið í nefndum fjárskiptum hjónanna. Rétt er að taka fram, að eigi fengi það skipt máli varðandi þessa niðurstöðu, þótt hjónin teldust hafa haft þann félagsskap um rekstur þennan, sem fram kemur af hálfu kæranda, en gögn málsins benda frekar til þess, að eigi hafi verið um slíkt að ræða. Með þessum athugasemdum er hinn kærði úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja