Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 390/1988

Gjaldár 1986

Auglýsing nr. 6/1983, um Norðurlandasamning til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir. — 25. gr. 3. tl. c-liður.   Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 117. gr. 1. mgr.  

Tekjur erlendis — Heimilisfesti — Ótakmörkuð skattskylda — Tvísköttun — Tvísköttunarsamningur — Milliríkjasamningur — Skattgreiðslur erlendis — Skattaleg heimilisfesti — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Ríkisskattstjóri

Málavextir eru þeir, að kærendur höfðu skv. skattframtali árið 1986 tekjur bæði á íslandi og í Svíþjóð. Tekjur þær, er kærendur öfluðu hér á landi, færðu þau sér til tekna í skattframtalinu. í athugasemdadálki skattframtalsins gerðu kærendur grein fyrir tekjum sínum í Svíþjóð og skattgreiðslum þar í landi af þeim tekjum. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 láðist skattstjóra að leggja á kærendur.

Með bréfi, dags. 26. mars 1987, tilkynnti skattstjóri kærendum, að fyrirhugað væri að leggja opinber gjöld á þau skv. skattframtali árið 1986. í þessu sambandi vísaði skattstjóri til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 7. júní 1983, þar sem kærendur væru úrskurðuð með skattalega heimilisfesti hér á landi, meðan á námi erlendis stæði, og væru því skattskyld af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra væri aflað, og öllum eignum, hvar sem þær væru, hvort sem skattar hefðu verið greiddir af þeim eða ekki. Með vísan til þessa var skorað á kærendur að leggja fram ljósrit af staðfestu skattframtali (sænsku) vegna tekna ársins 1985, námsvottorð til stuðnings námsfrádrætti og greinargerð un notkun húsnæðis í Reykjavík. Gögn frá kærendum bárust skattstjóra 14. apríl 1987. Að þeim fengnum ákvarðaði skattstjóri kærendum opinber gjöld gjaldárið 1986, sbr. bréf skattstjóra, dags. 4. maí 1987, og skattbreytingaseðla, dags. sama dag. Varðandi skattálagningu þessa segir svo í bréfi skattstjóra:

„Við útreikning á skattstofnum gjaldenda er höfð hliðsjón af tekjum erlendis, sbr. 1. mgr. 117. gr. ofangreindra laga sbr. E-lið 3. tl. 25. gr. tvísköttunarsamnings Norðurlanda, stj.tíð. l. nr. 6/1983.“

Af hálfu kærenda var álagningin kærð með kæru, dags. 1. júní 1987, og vísað til skattframtals árið 1986 og gagna því meðfylgjandi. Með kæruúrskurði, dags. 9. júní 1987, ákvað skattstjóri, að álagningin skyldi óhögguð standa, er byggðist á skattframtali kærenda árið 1986 og hagað væri á þann veg, er fyrr segir, sbr. bréf skattstjóra, dags. 4. maí 1987.

Með kæru, dags. 26. júní 1987, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er vísað til kærunnar til skattstjóra og bent á háan skattstiga Svía, er sé allmiklu hærri en sá íslenski. Gerður er fyrirvari um frekari rökstuðning síðar.

Með bréfi, dags. 12. apríl 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Óumdeilt er í máli þessu og á því byggt, að kærendur séu skattskyld hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og ber því að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, og eignarskatt af öllum eignum sínum, hvar sem þær eru, sbr. upphafsákvæði greinarinnar. Skattlagningu á kærendur ber að haga í samræmi við ákvæði þeirra samninga, sem í gildi eru, til þess að koma í veg fyrir tvísköttun og taka til tilviks kærenda. Eigi verður annað séð, en skattstjóri hafi gætt ákvæða Norðurlandasamnings til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu nr. 6, 25. júlí 1983, sem birt er í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. m.a. C-lið 3. tl. 25. gr. samnings þessa. Að þessu virtu og þar eð skýr kröfugerð liggur eigi fyrir af hendi kærenda verður álagning skattstjóra látin óhögguð standa. Rétt þykir að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja