Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 391/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 45. gr. — 55. gr. — 55. gr. A — 55. gr. B  

Fyrning — Fyrnanleg eign — Bifreið — Bifreiðakostnaður — Rekstrarkostnaður — Almenn fyrning — Fyrning lausafjár — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Fyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Álag á tekjufært fjárfestingarsjóðstillag — Niðurlagsverð — Rekstrartap — Bókhald — Fjárfestingarsjóður, kröfur um bókhald.

Kærandi, sem hafði með höndum jarðýtuvinnu, lét ársreikning vegna þeirrar starfsemi fylgja skattframtali sínu árið 1987. Meðal eigna í efnahagsreikningi var færð jeppabifreið, er keypt var á árinu 1986. Var kaupverð hennar 400.000 kr. í fyrningarskýrslu árið 1986 var færð fyrning að fjárhæð 360.000 kr. á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags, sbr. 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeirri grein var breytt með 11. gr. laga nr. 8/1984. Ekki var bifreiðin fyrnd almennri fyrningu og ekki kom sérstaklega fram neinn rekstrarkostnaður vegna bifreiðarinnar.

Með bréfi, dags. 12. júní 1987, boðaði skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að breyta skattframtali hans árið 1987 með tilliti til þess, að fyrrnefnd bifreið teldist einkabifreið en ekki fyrnanleg eign, sbr. leiðbeiningar og fyrirmæli ríkisskattstjóra. Við leiðréttingu í samræmi við þetta félli aukafyrning 360.000 kr. niður. Væri kæranda gefinn kostur á að fylla út eyðublað vegna rekstrar ökutækis. Þá benti skattstjóri kæranda á, að þar sem engin almenn fyrning hefði verið færð, hefði aukafyrningin ekki geta orðið hærri en 280.000 kr. Miðað við innlegg á fjárfestingarsjóðsreikningi hefði kærandi tekið út 432.993 kr. og hefði þá verið tekið tillit til verðbreytinga skv. 26. gr. laga nr. 75/1981 og þar sem úttektin hefði ekki verið nýtt skv. 55. gr. laga nr. 75/1981 þá færðist hún til tekna að viðbættu 20% álagi skv. 55. gr. A fyrrnefndra laga.

Hinni fyrirhuguðu breytingu skattstjóra var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 16. júní 1987 og taldi engan vafa leika á því, að fyrrnefnd jeppabifreið væri atvinnutæki. Hún væri daglega notuð til þess að flytja ýtumann til og frá vinnustað auk þess sem varahlutir væru fluttir í bifreiðinni. Bifreiðin hefði verið fyrnd á móti framlagi í fjárfestingarsjóði og stæði nú í niðurlagsverði. Færsla almennrar fyrningar (80.000 kr.) myndi ekki breyta niðurstöðu ársreiknings, þar sem bæði tap og aukafyrning færðust á fjárfestingarsjóðsreikning.

Með bréfi, dags. 21. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að til tekna í reit 62 í skattframtali hans hefðu verið færðar 435.907 kr., er væri vegna úttektar af fjárfestingarsjóðsreikningi, sbr. bréf skattstjóra, dags. 12. júní 1987, en ekki væri fallist á röksemdir kæranda í svarbréfi, dags. 16. júní 1987.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessum breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 6. ágúst 1987. Hélt umboðsmaðurinn fast við það, að hér væri um fyrnanlega eign að ræða, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. í kærunni er að finna svofelldan rökstuðning:

„1. A hefur á undanförnum árum verið með arðvænlegan jarðýturekstur, rekstrartekjur á

verðlagi 1986.

1983 tekjur ............ kr. 3.268.000

1984 - ............ - 4.002.000

1985 - ............ - 2.787.000

1986 - ............ - 1.790.000

Þannig að um raunverulegan atvinnurekstur er að ræða þó að sveiflur séu nokkrar milli ára, jarðýtan hefur verið í rekstri víðsvegar á Norðurlandi og víðar, að meginhluta í vinnu fyrir Vegagerðina. A hefur á undanförnum árum notað eina af einkabifreiðum sínum eingöngu til aksturs til og frá vinnu og til aðfangaflutninga fyrir ýtuna, enda eru slíkir ýtubílar varla bjóðandi utan vinnustaðar sem fjölskyldubílar.

2. Í árslok 1985 og 1986 eru 3 einkabílar skráðir á skattframtal og er afskriftabifreið ekki þar á meðal.

3. Ekki er að finna í skattalögum neina grein sem kveður á um að á annan hátt skuli farið með gjaldfærslu atvinnurekstrartækja í eigu einstaklinga, heldur en skráðra fyrirtækja. Á því leikur ekki vafi að hafi rekstur A verið undir hluta- eða sameignarfélagsformi og að öllum öðrum liðum óbreyttum, þá hefði athugasemd skattstjóra ekki komið til.

Samantekt:

A er rekstraraðili og notar bifreiðina eingöngu í atvinnurekstrarskyni. A á gnægð einkabíla sem notaðir eru í frístundum. Tilvísun skattstjóra í leiðbeiningar ríkisskattstjóra vísar ekki til þess liðar sem við á í þessu tilviki (2.4.). Að samandregnu virðist umboðsmanni breytingar skattstjóra byggðar á mjög óljósum hugmyndum um umfang og rekstur A.“

Með kæruúrskurði, dags. 2. október 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Tók skattstjóri fram í forsendum fyrir synjun sinni, að önnur tilgreind bifreiðaeign kæranda útilokaða ekki eigin not hans af umræddri jeppabifreið. Þá væri enginn rekstrarkostnaður vegna bifreiðarinnar gjaldfærður á rekstrarreikningi árið 1986 og því ekki líklegt, að um mikil not bifreiðarinnar við reksturinn hafi verið að ræða. Væri því hafnað að telja bifreiðina atvinnurekstrartæki. Ennfremur skaut skattstjóri stoðum undir niðurstöðu sína með því að vísa til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 318 frá 30. apríl 1987.

Með kæru, dags. 5. október 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að breytingum skattstjóra verði hnekkt með vísan til rökstuðnings í kæru til skattstjóra, dags. 8. ágúst 1987. Skírskotað er til 31. og 32. gr. laga nr. 75/1981. Ekki sé í skattalögum að finna heimild fyrir því, að varanlegir rekstrarfjármunir einkaaðila skuli meðhöndlaðir á annan hátt en hjá lögskráðum fyrirtækjum. Leiðbeiningar ríkisskattstjóra víki fyrir lögum. Þess er getið, að allur rekstrarkostnaður bifreiðarinnar sé færður undir rekstur jarðýtu. Bent er á, að aðrar bifreiðar séu til einkanota. Því er mótmælt, að úrskurður ríkisskattanefndar nr. 318, 30. apríl 1987, eigi við í tilviki kæranda. Atvikin séu ekki sambærileg.

Með bréfi, dags. 25. apríl 1988, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Myndun og ráðstöfun fjárfestingarsjóðs kæranda verður eigi ráðin af fyrirliggjandi gögnum. Hin umdeilda tekjufærsla kæranda á fjárfestingarsjóðstillagi og ráðstöfun hinnar skattskyldu fjárhæðar til þeirrar sérstöku fyrningar, sem um er deilt í máli þessu, er eigi í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum, um fjárfestingasjóði þessa, enda einungis gerð grein fyrir þessum ráðstöfunum undir bundnu óskattlögðu fjármagni jafnframt því að tap ársins skv. rekstrarreikningi 83.684 kr. er fært þar til lækkunar á fjárfestingarsjóðnum. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kærunni frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja