Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 572/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 63. gr.  

Sköttun hjóna — Skattmeðferð hjóna — Hjón — Samrekstur — Samrekstur hjóna — Framtalsaðferð tekna af samrekstri hjóna — Teknaskipting

Á skattframtali sínu árið 1987 skiptu kærendur, sem eru hjón, jafnt á milli sín hagnaði af atvinnurekstri. Skattstjóri féllst ekki á þessa tilhögun og með skírskotun til 3. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, færði hann allan hagnaðinn til tekna hjá kæranda, eiginmanni. Umboðsmaður kærenda krefst þess að þessari ákvörðun skattstjóra verði hnekkt. Tekur hann fram að kærendur eigi og reki atvinnuhúsnæði með öðrum og um eiginlegt vinnuframlag þeirra hafi ekki verið að ræða. Því telur hann, með skírskotun til 2. mgr. 63. gr. nefndra laga, að kærendur megi skipta hagnaði samkvæmt vinnuframlagi, þar sem ekki sé krafist sérþekkingar eða persónubundinna leyfa til rekstrarins. Vinnuframlag hvors þeirra í þessu tilfelli hafi verið jafnt, þ.e. ekki neitt, og því hafi kærendur heimild til þess að skipta hagnaði af rekstrinum jafnt á milli sín.

Með bréfi, dags. 2. september 1988, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að því virtu sem fram kemur í gögnum málsins þ.á m. skattframtölum kærenda árin 1986 og 1987, er á það fallist með skattstjóra, að kærandi eiginmaður, standi fyrir þeim rekstri sem um ræðir í máli þessu. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja