Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 575/1988

Gjaldár 1987

Reglugerð nr. 558/1981   Lög nr. 73/1980 — 38. gr. — 41. gr.   Lög nr. 42/1978  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstig — Fiskiðnaður — Fiskirækt — Fiskeldi — Laxeldi — Gjaldstig — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Iðnaður — Iðnaðarrekstur — Löggilt iðngrein

Um er deilt í kærumáli þessu hvort flokka beri fiskirækt kæranda undir fiskiðnað í skilningi b-liðs 38. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og hvort X-hreppi hafi verið heimilt að ákveða aðstöðugjald 1,3% af þessum rekstri kæranda. Við álagningu opinberra gjalda 1987 lagði skattstjóri 1,3% aðstöðugjald á aðstöðugjaldsstofn samkvæmt skattframtali kæranda árið 1987. Sú álagning var kærð til skattstjóra með kæru, dags. 29. ágúst 1987, og fylgdi henni rökstuðningur í bréfi, dags. 30. október 1987. Var farið fram á að álagningin yrði leiðrétt og á það bent að kærandi stundi „laxeldi og fellur því undir fiskiðnað og aðstöðugjaldsstig 0,65%, en ekki 1,3%“. Með kæruúrskurði, dags. 27. nóvember 1987, hafnaði skattstjóri þessari kröfu. Byggði hann þá niðurstöðu sína á því að talið sé „að laxeldi falli ekki undir fiskiðnað, með vísan til atvinnuvegaflokka Hagstofu Íslands, en þar segir: „Með iðnaði er átt við atvinnustarfsemi í verksmiðjum, verkstæðum og heimilum, sem fólgin er í „mekanískri“ eða „kemískri“ umbreytingu gæða í nýjar afurðir“.“. Bendir skattstjóri á að laxeldi sé flokkað undir annan atvinnurekstur samkvæmt áðurefndu lagaákvæði og aðstöðugjaldsstigið í X-hreppi sé 1,3% á allan atvinnurekstur.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 10. desember 1987. Er því mótmælt að nota eigi aðstöðugjaldsstigið 1,3% á laxeldisfyrirtæki og gerð krafa um að álagning verði byggð á aðstöðugjaldsstiginu 0,65%. Þá kröfu styður umboðsmaður kæranda þeim rökum að tilvísun skattstjóra í atvinnuflokkun Hagstofu Íslands ætti ekki rétt á sér. Kærandi ali annars vegar fiskseiði í gönguseiðastærð og hins vegar í fulla stærð sem síðan er slátrað til manneldis. Þarna sé því um fiskiðnað að ræða og eigi reksturinn því að flokkast undir b-lið 38. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Sú fullyrðing skattstjóra að aðstöðugjaldsstig sé 1,3% á allan atvinnurekstur í X-hreppi standist ekki skv. 38. gr. þeirra laga.

Með bréfi, dags. 21. september 1988, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur að niðurstöðu til. Ekki er á það fallist með umboðsmanni kæranda að laxeldi teljist fiskiðnaður í skilningi b-liðar 38. gr. laga nr. 73/1980.“

Ákvæði 38. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga eru svohljóðandi: „Aðstöðugjald má eigi hærra vera en hér greinir:

a. Allt að 0,33% af rekstri fiskiskipa og flugvéla.
b. Allt að 0,65% af rekstri verslunarskipa og af fiskiðnaði.
c. Allt að 1% af hvers konar iðnaðarrekstri öðrum.
d. Allt að 1,3% af öðrum atvinnurekstri.“

Úrslit máls þessa velta á því undir hvaða lið þessarar lagagreinar umrædd starfsemi kæranda eigi að falla. Á þá skoðun hans, að hér sé um iðnrekstur, og þá fiskiðnað, að ræða og að starfsemi hans falli því réttilega undir b-lið nefndrar lagagreinar, er eigi unnt að fallast, hvorki að því er varðar starfsemina í heild eða hluta hennar. Þannig er í 5. gr. reglugerðarinnar 558/1981 um iðnfræðslu taldar upp allar þær iðngreinar, sem löggiltar eru hér á landi og verður að telja að þar sé um tæmandi upptalningu að ræða, en þar er eigi talin starfsemi kæranda. Þá verður eigi talið, að starfsemi kæranda falli undir iðnaðarlög nr. 42/1978 eða önnur þau lög eða reglugerðir er telja starfsemi kæranda til atvinnuvegarins iðnaður í skilningi 38. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þess skal og getið að í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sem um getur í máli þessu, er starfsemi kæranda flokkuð undir atvinnuveginn fiskveiðar, atvinnugrein nr. 160. Með vísan til framanritaðs verður því að líta svo á að starfsemi kæranda geti eigi talist iðnaðarrekstur og að hún falli því hvorki undir b- né c-lið 38. gr. síðasttöldu laganna, heldur undir d-lið nefndrar lagagreinar, er heimilar að reikna aðstöðugjald allt að 1,3% af „öðrum atvinnurekstri“. Samkvæmt þessu er eigi fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja