Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 613/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 11. gr. — 14. gr. — 16. gr. — 25. gr. — 26. gr. — 63. gr. 1. mgr. 3. tl. 2. mgr. — 99. gr. — 101. gr. 3. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Bújörð — Sala bújarðar — Söluhagnaður fyrnanlegra eigna — Söluhagnaður fyrnanlegra fasteigna — Söluhagnaður fyrnanlegs lausafjár — Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis — íbúðarhúsnæði — Útreikningur söluhagnaðar — Söluverð — Skipting söluverðs — Söluverð, skipting — Fasteignamatsverð — Landbúnaðarskýrsla — Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Rökstuðningur — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Reiknað endurgjald — Yfirfæranlegt rekstrartap — Hjón — Sköttun hjóna — Samrekstur hjóna — Samrekstur, teknaskipting — Atvinnurekstrartekjur — Sölukostnaður — Kaupverð — Skipting kaupverðs — Kaupverð, skipting — Verðbreytingarstuðull — Fyrning

I

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1987 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Með kæru umboðsmanns kærenda, dags. 27. ágúst 1987, barst skattstjóra skattframtal þeirra árið 1987. Fór umboðsmaðurinn þess á leit, að álagi yrði ekki beitt vegna síðbúinna framtalsskila. Sem ástæðu fyrir beiðninni taldi umboðsmaðurinn vera þá, að vorið 1987 hefði aðalstarfsmaður sinn flutt búferlum í annan landshluta og ekki hefði tekist að fá fólk til aðstoðar. Þá var þess getið í bréfi umboðsmannsins, að öllum eigum sínum hefðu kærendur tapað í búrekstri.

Með bréfum, dags. 16. og 17. september 1987, tilkynnti skattstjóri kærendum að fyrirhugað væri að gera breytingar á skattframtali þeirra 1987 með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Lutu þær boðuðu breytingar að útreikningi hagnaðar af sölu jarðanna A og B. Kærendur höfðu í skattframtali sínu talið söluhagnað af íbúðarhúsi á fyrrnefndri jörð hafa numið 1.638.694 kr., en söluhagnað af landi, ræktun og útihúsum þessara jarða 783.737 kr. Síðarnefnda fjárhæðin var tekjufærð í landbúnaðarskýrslu með skattframtali kærenda 1987, en farið hafði verið fram á frestun á skattlagningu söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði. Skattstjóri taldi hins vegar, að söluhagnaður íbúðarhússins, hefði numið 511.488 kr., en söluhagnaður af ræktun og útihúsum alls 1.872.735 kr. eða 1.088.998 kr. hærri fjárhæð en kærendur höfðu fært til tekna í landbúnaðarskýrslunni. í bréfinu frá 17. september 1987 tók skattstjóri m.a. fram:

„Eins og landbúnaðarskýrsla með framtölum yðar 1987 er gerð ber skattstjóra samkvæmt bréfinu frá 16. þessa mánaðar að færa umræddar kr. 1.088.998 í teknahlið hennar og færa hreinar tekjur af búrekstri, sem verða kr. 1.080.526 að teknu tilliti til yfirfæranlegs taps, kr. 8.472, í reit 62 á framtölum ykkar, kr. 540.263 hjá hvoru og taka framtalið þannig breytt til álagningar.“

Veittur var 7 daga frestur til skriflegra athugasemda út af hinum boðuðu breytingum á skattframtali kærenda. Af gögnum málsins verður eigi ráðið, að kærendur hafi andmælt hinum áformuðu breytingum.

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu, þann 9. október 1987. Féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal kærenda til grundvallar álagningu að gerðum hinum áður boðuðu breytingum á því. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á gjaldstofna með hliðsjón af skilatíma framtalsins. Kvað skattstjóri í því efni vera stuðst við ákvæði 106. gr. laga nr.75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hafa kærendur skotið til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 3. nóvember 1987. í fyrri kröfulið kærunnar fara kærendur fram á, að 25% álag á gjaldstofna verði fellt niður og vísa í því sambandi til tilgreindra ástæðna í kærubréfi, dags. 27. ágúst 1987, með innsendu framtali. Leggja kærendur áherslu á það, að ekki hafi það verið þeirra sök, að skattframtal þeirra skyldi ekki berast skattstofu í tæka tíð. Þá minna kærendur á eignatjón sitt vegna búrekstrarins. í síðari kröfulið kærunnar er farið fram á, að nefndur söluhagnaður verði endurskoðaður og felldur niður að einhverju eða öllu leyti, því engin verðmæti hafi skapast, sem kærendur geti greitt hin álögðu opinberu gjöld með.

II

Kærendur fóru fram á það við ríkisskattstjóra, að reiknað endurgjald þeirra vegna búrekstrar í skattframtölum gjaldáranna 1983—1986 yrði hækkað. Með úrskurðum, dags. 8. febrúar 1988, féllst ríkisskattstjóri á beiðni kærenda varðandi gjaldárin 1983 og 1986, en kærendur höfðu ekki reiknað sér neitt endurgjald í skattframtölum þeirra ára. Ríkisskattstjóri hafnaði hins vegar beiðni kærenda um hækkun á reiknuðu endurgjaldi þeirra gjaldárin 1984 og 1985, enda hefðu þeir reiknað sér endurgjald í samræmi við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Með úrskurðunum ákvarðaði ríkisskattstjóri kærendum hvorum um sig 40.000 kr. reiknað endurgjald gjaldárið 1983. Gjaldárið 1986 ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda, D., reiknað endurgjald vegna búrekstrar að fjárhæð 195.000 kr., en 145.000 kr. hjá kæranda, E. Samkvæmt nefndum úrskurðum ríkisskattstjóra skyldi yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs á skattframtali kærenda árið 1986 vera sem hér segir: Hjá kæranda, D, 813.415 kr., en hjá kæranda, E, 651.431 kr.

Með bréfi, dags. 4. mars 1988, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hefði með vísan til 1. og 4. málsgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lækkað gjaldstofna á skattframtali þeirra árið 1987 vegna breytinga ríkisskattstjóra á yfirfæranlegu tapi. Þá hefðu reiknuð laun vegna búrekstrar 41.591 kr. verið færð í reit 24 á framtali hvors kæranda.

Kærendur fóru fram á það við skattstjóra með bréfi, dags. 30. mars 1988, að álag, sem kynni að hafa verið beitt við endurálagningu skattstjóra skv. bréfi hans, dags. 4. þess sama mánaðar, yrði fellt niður. Ástæður fyrir beiðninni töldu kærendur vera slæman fjárhag og eignamissi vegna stórfelldra tapa á búrekstrinum.

Skattstjóri hafnaði, með úrskurði, dags. 2. maí 1988, kröfu kærenda um niðurfellingu reiknaðs álags á gjaldstofna, sem hann ákvarðaði kærendum í breytingabréfi, dagsettu 4. mars 1988. í úrskurðinum rekur skattstjóri málsatvik, en segir síðan:

„Hvað varðar kröfu kærenda þá þykir ástæðulaust að verða við henni. Skattstjóri beitti almennt 25% álagi á þau framtöl sem komu inn á kærufresti og liggja ekki fyrir í máli kærenda neinar þær ástæður sem undanþiggja þau álagsbeitingu svo sem sjúkleiki eða önnur óviðráðanleg atvik er hindruðu framtalsskil.

Þá má benda á að telja verður að sérstaklega hafi gengið til móts við óskir kærenda til þess að milda áhrif þeirrar umtalsverðu gjaldahækkunar sem varð við meðferð skattstjóra í upphafi á máli kærenda.

Kröfu þeirra er því hafnað.“

Úrskurði skattstjóra frá 2. maí 1988 hafa kærendur skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. júní 1988. Fara kærendur fram á, að erindi í áðurnefndu bréfi til skattstjóra, dags. 30. mars 1988, um niðurfellingu álags, verði tekið til greina.

III

Ríkisskattstjóri hefur í tilefni af kæru til ríkisskattanefndar, gert svofelldar kröfur í málinu fyrir gjaldkrefjenda hönd með bréfi, dags. 25. ágúst 1988:

„Um 1. kröfu:

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við er ítrekuð krafan um að hið kærða álag standi óhaggað.

Um 2. kröfu:

Að úrskurður skattstjóra um fjárhæð söluhagnaðar verði staðfestur. Ekki liggur annað fyrir en að hann sé rétt ákvarðaður og hafa kærendur ekki sýnt fram á annað, auk þess verður ekki séð hvaða lagastoð krafan hefur.“

IV

Kröfur kærenda í máli þessu lúta annars vegar að niðurfellingu álags á gjaldstofna og hins vegar, að söluhagnaður sá, er í málinu greinir, verði endurskoðaður og felldur niður að einhverju eða öllu leyti.

Um álag.

Hin kærða álagsbeiting skattstjóra þykir eigi nægilega rökstudd af hans hendi m.a. eru fyrri framtalsskil kærenda í engu reifuð þar. Að þessu virtu og skýringum kærenda er hið kærða álag niður fellt.

Um söluhagnað.

Með samningi, dags. 18. febrúar 1986, seldu kærendur jarðirnar A og B, ásamt öllum mannvirkjum, svo sem húsum, ræktun, girðingu og öllum öðrum gæðum sem jörðinni fylgir og fylgja ber að engu undanskildu, eins og þetta er orðað í samningnum. Söluverð jarða ásamt föstu fylgifé var 4.000.000 kr. Þá seldu kærendur samkvæmt sama samningi vélar fyrir 700.000 kr. og bústofn fyrir 800.000 kr. Söluverð hinna seldu eigna nam því alls 5.500.000 kr. Skyldi söluverðið greiðast með peningum þann 15. apríl og 15. ágúst 1986 að fjárhæð 263.013,81 kr. og með yfirtöku áhvílandi skulda á samningsdegi alls að fjárhæð 5.236.986,19 kr.

Kærendur töldu söluverð bústofns að frádregnum sölulaunum til tekna á landbúnaðarskýrslu með skattframtali þeirra árið 1987. Þar töldu þeir einnig til tekna söluhagnað að fjárhæð 157.514 kr. af seldum vélum og er enginn ágreiningur milli málsaðila varðandi þá fjárhæð. Eins og fram er komið í máli þessu, breytti skattstjóri útreikningi kærenda á söluhagnaði af íbúðarhúsi annars vegar og söluhagnaði af nefndum jörðum, útihúsum og ræktun hins vegar. Við þann útreikning fór skattstjóri eftir ákvæðum 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi skiptingu söluverðs, að sölukostnaði frádregnum, vegna nefndra jarða að meðtöldu föstu fylgifé, milli íbúðarhúss, útihúsa, ræktunar og lands eftir fasteignamati þessara eigna 1. desember 1985, svo og kaupverðs kærenda á sömu eignum á árinu 1982, eftir fasteignamati þeirra 1. desember 1981. Kaupverðið var síðan framreiknað með verðbreytingastuðli 3.5951, er gilti við framtalsgerð árið 1987 varðandi eignir sem skattaðilar eignuðust á árinu 1982, sbr. ákvæði 26. gr. sömu laga. Frá þannig framreiknuðu stofnverði útihúsa og ræktunar dró skattstjóri fengnar fyrningar þeirra eigna miðað við eignarhaldstíma kærenda á þeim, sbr. 2. mgr. 11. gr. téðra laga. Eigi verður á annað fallist en að skattstjóri hafi farið eftir réttum lagaákvæðum varðandi útreikningsaðferð hins umdeilda söluhagnaðar. Við athugun á útreikningi skattstjóra hefur hins vegar komið í ljós, að hann taldi fasteignamat útihúsa jarðarinnar B. þann 1. desember 1985 vera 170.000 kr. í stað 39.000 kr. Að gerðri leiðréttingu á útreikningi söluhagnaðarins vegna þess atriðis er að framan greinir verður hann sem hér segir:

Söluhagnaður af landi A og B.................................................................... Kr. 8.242
" " ræktun á A og B............................................................ " 634.695
" " útihúsum á A og B........................................................ " 1.183.216

Söluhagnaður til tekjufærslu á landbúnaðarframtali kærenda............... " 1.826.153

Söluhagnaður af íbúðarhúsi á A (skattlagn. frestað skv.
tilmælum kærenda) " 556.912

Söluhagnaður alls Kr. 2.383.065

Tekjufærður söluhagnaður á landbúnaðarskýrslu kærenda með skattframtali þeirra árið 1987, að fjárhæð 1.872.735 kr. samkvæmt útreikningi skattstjóra, lækkar því um 46.582 kr. og verður 1.826.153 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja