Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 633/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 55. gr. 1. mgr. 2. tl. — 55. gr. A —100. gr. 1. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fyrirframfyrning — Sérstök fyrirframfyrning — Fyrirframfyrning, sérstök — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Fjárfestingarsjóðstillag — Fyrningargrunnur — Stofnverð — Byggingarkostnaður — Bifreiðakostnaður — Bifreiðahlunnindi — Einkanot — Afskrift föst — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæranleg skattákvörðun

I

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að m.a. eftirfarandi breytingar hefðu verið gerðar á skattframtali hans árið 1987 með vísun til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt:

„Sérstök fyrning fjárfestingarsjóðs takmarkast við „kostnað alls á árinu“ kr. 2.383.530, skv. húsbyggingarskýrslu. Mismunurinn kr. 186.914, ásamt 10% álagi kr. 18.691, hefur verið færður til tekna í reit 62 á framtali sbr. 55. gr. A laga nr. 75/1981. Bifreiðahlunnindi í reit 29 á framtali felld niður en bifreiðakostnaður á rekstrarreikningi lækkaður um sömu fjárhæð. Hagnaður í reit 62 hækkar samsvarandi.“

Breyting skattstjóra var til hans kærð með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 7. ágúst 1987. Í kærunni segir m.a.:

„Í bréfi skattstofunnar kemur fram að sérstök fyrning fjárfestingarsjóðs takmarkist við kostnað alls á árinu. í tilviki umbjóðanda míns er þetta ekki rétt fullyrðing, þar sem um er að ræða sérstaka fyrirframfyrningu skv. 2. tl. 55. gr. og fyrningarstofn í árslok 1986 er kr. 9.469.655 en sérstaka fyrningin er einungis kr. 2.570.444. Það er hvergi í lögum nr. 75/1981 ákvæði um að sérstök fyrning fjárfestingarsjóðs einstakt ár takmarkist við kostnað alls á árinu. Þegar um er að ræða fjárfestingu í eign sem tekur yfir lengri tíma en eitt reikningsár og hin sérstaka fyrning fjárfestingarsjóðs er notuð sem fyrirframfyrning, þá hlýtur fyrningargrunnur til sérstakrar fyrningar að vera heildarverð eignarinnar. Breytingu samkvæmt fyrri hluta 2. mgr. í bréfi skattstofunnar frá 28.07. s.l. er því mótmælt.“

Þá var í kærubréfinu til skattstjóra á það bent, að við gjaldfærslu bifreiðakostnaðar hefði ekki verið reiknað með árlegri afskrift, 50.003 kr. og var beðið um athugun og leiðréttingu á þessu atriði.

Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu, dags. 20. nóvember 1987, og synjaði kröfum kæranda með svofelldum rökum:

„1. 2. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981 hefur verið túlkaður þannig að sérstakar fyrirframfyrningar takmarkist við þann kostnað sem lagt er í á því ári sem úttekt af fjárfestingarsjóðsreikningi fer fram á.

Kröfu kæranda er því synjað.

2. Gjaldfærður bifreiðakostnaður þegar tekið hefur verið tillit til einkaafnota er kr. 347.645 eða sem samsvarar 28.589 km akstri í þágu rekstrar þegar miðað er við hámarkskostnað á km kr. 12.16 skv. matsreglum ríkisskattstjóra. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarakstur og skiptingu hans milli rekstrar og eigin nota, en ótrúlegt þykir að akstur í þágu rekstrar hafi verið meiri en að ofan greinir. í þessu sambandi er einnig bent á gjaldfærða ökutækjastyrki kr. 495.000. Kröfu kæranda er því synjað.“

II

Úrskurði skattstjóra hefur af kæranda hálfu verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi umboðsmanns hans, dags. 9. desember 1987. Í A-lið kærubréfsins er gerð sú krafa, að takmörkun fyrirframfyrningar samkvæmt bréfi skattstjóra, dags. 28. júlí 1987, verði felld niður. Um þennan kröfulið segir umboðsmaðurinn m.a.:

„Við skattframtalsgerð 1987 var framreiknað tillag í fjárfestingarsjóð fært til tekna þar sem um úttekt af bundnum reikningi var að ræða. Í samræmi við ákvæði í 2. tl. 55. gr. laga nr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum, þá var hin skattskylda fjárhæð nýtt til fyrirframfyrningar af eign sem í árslok 1986 hafði ekki verið tekin í notkun.“

Síðan rekur umboðsmaðurinn í kærubréfi sínu til ríkisskattanefndar málavöxtu og vitnar í bréf skattstjóra frá 28. júlí 1987, kæru til hans, dags. 7. ágúst 1987 og kæruúrskurð skattstjóra frá 20. nóvember 1987, þar sem skattstjóri hafi lagt áherslu á, að 2. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981 hafi verið túlkaður þannig, að sérstakar fyrirframfyrningar takmarkist við þann kostnað sem lagt hafi verið í á því ári sem úttekt af fjárfestingarsjóðsreikningi hafi farið fram á. Síðan segir umboðsmaðurinn í kæru sinni:

„Túlkaður þannig segir í úrskurðinum en af hverjum ? og hver er rökstuðningurinn? An þeirra upplýsinga sér undirritaður sig knúinn til að senda þessa kæru til ríkisskattanefndar til að fá úr því skorið hvort þessi túlkun er sá skilningur sem eigi að lesa úr 2. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt túlkun undirritaðs þá er engin önnur takmörkun á fyrirframfyrningu skv. þessari grein en sú, að það verði að vera fyrir hendi fyrningarstofn. Um það hvenær á liðnum árum lagt hefur verið í þann kostnað sem eignin stendur í er ekki að finna orð í lögum nr. 75/1981.“

Í B-lið kærunnar til ríkisskattanefndar er gerð sú krafa, að fyrning bifreiðar samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra verði heimiluð og henni skipt í samræmi við skiptingu bifreiðakostnaðar skv. framtali þannig að 37.047 kr. komi til gjaldfærslu í rekstri en 12.956 kr. flokkist sem einkanot. Um þennan kröfulið segir umboðsmaðurinn m.a.:

„Í gjaldfærðum rekstrarkostnaði bifreiðar í ársreikningi 1986 er engin afskrift færð af bifreið. Bifreiðin samkvæmt efnahagsreikningi hafði verið afskrifuð að fullu. Ekki var við framtalsgerðina tekið tillit til þeirra breytinga sem skattstofan vann að enda gekk endanlegur úrskurður ekki fyrr en 2. okt. 1987. Með tilliti til alls þessa þótti rétt í kærubréfi að benda á, að ef skattstofan vildi hafa samræmi í vinnubrögðum sínum, sbr. úrskurð dags. 22.05.1987, þá væri eðlilegt að færa til gjalda afskrift af bifreið skv. matsreglum ríkisskattstjóra. Þessu svarar skattstofan í úrskurði með meðaltalsreikningi miðað við kílómetrakostnað skv. matsreglum. Þessi útreikningur hefur það m.a. innbyggt í sér að ef bifreið er nógu oft og nógu lengi á verkstæði og viðgerðarreikningar verða háir, þá fjölgar kílómetrunum sem eknir eru — og ef keypt er mikil og góð trygging á bifreiðina (bónuslaus) þá eru eknir fleiri kílómetrar! Svona útreikningsaðferð getur ekki verið rökstuðningur fyrir því hvort réttmætt sé að gjaldfæra fyrningu skv. matsreglum eða ekki og óumdeilanlegt er að fyrning bifreiðar skv. matsreglum ríkisskattstjóra er heimiluð öllum skattþegnum sem eru með einkabifreið í rekstri.“

III

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 21. september 1988, gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Um A lið kæru: Fallist er á kröfu kæranda.

Um B lið kæru: Krafist er frávísunar á þessum lið kærunnar enda hefur ekki verið kveðinn upp sá úrskurður skattstjóra sem kæranlegur er til nefndarinnar skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981.“

IV

Um kröfulið A.

Með vísun til 2. tl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er krafa kæranda undir þessum lið tekin til greina.

Um kröfulið B.

Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 20. nóvember 1987, er synjað kröfu kæranda um hækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar vegna fastrar afskriftar skv. matsreglum ríkisskattstjóra. Krafa ríkisskattstjóra um frávísun á þessum lið kærunnar á þeirri forsendu, að ekki hafi verið kveðinn upp sá úrskurður sem kæranlegur sé til ríkisskattanefndar, fær ekki staðist. Er þeirri frávísunarkröfu því hrundið.

Skattstjóri hefur með úrskurði, dags. 22. maí 1987, varðandi álagningu opinberra gjalda á kæranda, gjaldárið 1986, heimilað honum gjaldfærslu fastrar árlegrar fyrningar skv. matsreglum ríkisskattstjóra í hlutfalli við notkun bifreiðar kæranda í þágu rekstrar á árinu 1985. Með hliðsjón af því, þykir mega fallast á hliðstæða kröfu varðandi gjaldárið 1987. Krafa kæranda undir þessum kærulið er því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja