Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyld velta
  • Rekstrarkostnaður
  • Innskattur
  • Tapaðar viðskiptakröfur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda

Úrskurður nr. 557/1999

Gjaldár 1994

Virðisaukaskattur 1993

Lög nr. 50/1988, 11. gr., 16. gr. 1. mgr., 20. gr. 7. mgr.   Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 31. gr. 3. tölul. (brl. nr. 122/1993, 4. gr. C- liður)   Lög nr. 113/1990, 7. gr. 3. tölul.   Lög nr. 37/1993, 9. gr. 1. mgr.   Lög nr. 145/1994, 8. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 29. gr. 1. mgr. C-liður, 93. gr.   Reglugerð nr. 591/1987, 3. gr.   Reglugerð nr. 50/1993, 15. gr. 1. mgr.  

Yfirskattanefnd féllst á það með ríkisskattstjóra að kæranda hefði borið að standa skil á virðisaukaskatti af sölu seglbáts sem kærandi hafði keypt á nauðungarsölu. Í úrskurði yfirskattanefndar var jafnframt fjallað um margþættar breytingar ríkisskattstjóra á gjaldfærðum rekstrarkostnaði og innskatti kæranda. Voru kröfur kæranda teknar að hluta til greina varðandi þessa liði. Einnig féllst yfirskattanefnd að hluta á kröfur kæranda í tilefni af lækkun ríkisskattstjóra á gjaldfærslu vegna tapaðra útistandandi viðskiptakrafna. Í tengslum við þetta kæruatriði var fundið að því að ríkisskattstjóri hefði ekki sinnt beiðni kæranda um leiðréttingu síðara skattframtals vegna tapaðra viðskiptakrafna eftir því sem við ætti. Ákvörðun ríkisskattstjóra um álag vegna hækkunar á skilaskyldri staðgreiðslu, sem byggð var á því að bifreiðastyrkjum hefði ranglega verið haldið utan staðgreiðslu, var felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð.

I.

Með kæru, dags. 3. nóvember 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 28. ágúst 1998, til yfirskattanefndar. Með kæruúrskurðinum staðfesti ríkisskattstjóri í öllum meginatriðum endurákvörðun sína, dags. 20. maí 1998, á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1994 og virðisaukaskatti hans árið 1993. Var endurákvörðunin gerð í kjölfar athugunar ríkisskattstjóra á bókhaldi og skattskilum kæranda rekstrarárið 1993, sbr. skýrslu um athugun þessa, dags. 18. október 1995.

Af hálfu kæranda er þess krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt að öllu leyti eða að hluta. Jafnframt er krafist málskostnaðar að fjárhæð 286.000 kr.

II.

Helstu málavextir eru þeir að eftirlitsskrifstofa ríkisskattstjóra tók til athugunar bókhald kæranda og skattskil vegna rekstrar á árinu 1993. Lauk athuguninni með skýrslu eftirlitsskrifstofunnar, dags. 18. október 1995. Í skýrslunni kom fram að svo virtist sem skattskyld velta kæranda hefði verið vantalin um 361.447 kr. og útskattur um 88.553 kr. Innskattur virtist oftalinn um 272.434 kr. á árinu 1993 og frádráttarbær rekstrarkostnaður oftalinn um 5.173.452 kr. sama ár. Þá virtust fyrningar vera vantaldar um 7.053 kr. Eignarskattsstofn virtist vera vantalinn um 227.678 kr. Stofn til útreiknings staðgreiðslu og tryggingagjalds virtist vera vantalinn um 1.286.501 kr. Kæranda var send skýrsla þessi með bréfi, dags. 13. nóvember 1995, og honum boðuð breyting á virðisaukaskattsskyldri veltu og hækkun virðisaukaskatts auk beitingar álags, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá var kæranda boðuð áætlun opinberra gjalda gjaldárið 1994 auk álags, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og að ríkisskattstjóri hefði í hyggju að ákvarða kæranda viðbótartryggingagjald, sbr. 13. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, og álag á skilaskylda staðgreiðslu, sbr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

Af hálfu umboðsmanns kæranda voru gerðar athugasemdir við skýrslu eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 22. desember 1995, fyrirhuguðum breytingum mótmælt í öllum verulegum atriðum og lögð fram nokkur gögn. Með bréfi, dags. 11. febrúar 1998, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að taka málið til afgreiðslu á næstu mánuðum. Verulegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu þess og væri beðist velvirðingar á því. Umboðsmaður kæranda ítrekaði mótmæli kæranda með bréfi, dags. 12. mars 1998, og krafðist þess jafnframt að málið yrði lagt upp í ljósi þess að ítarlegar og fullnægjandi skýringar hefðu legið fyrir í meira en tvö ár, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981.

Með endurákvörðun, dags. 20. maí 1998, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um lækkun á yfirfæranlegu rekstrartapi í skattframtali 1994 um 4.841.468 kr. vegna hækkunar rekstrartekna um 361.447 kr. og lækkunar rekstrarkostnaðar og gjaldfærslu tapaðra viðskiptakrafna um 4.480.021 kr. Virðisaukaskattur kæranda árið 1993 var hækkaður um 360.989 kr. (hækkun útskatts um 88.555 kr. og lækkun innskatts um 272.434 kr.) að viðbættu álagi 72.198 kr. Þá var tryggingagjald kæranda gjaldárið 1994 hækkað um 43.153 kr. vegna hækkunar stofns til tryggingagjalds um 1.598.251 kr. Jafnframt var kæranda ákvarðað álag að fjárhæð 339.959 kr. vegna hækkunar á skilaskyldri staðgreiðslu, en þar var um að ræða bifreiðastyrki að fjárhæð 806.022 kr. sem ranglega hafði verið haldið utan staðgreiðslu.

Umboðsmaður kæranda mótmælti endurákvörðun ríkisskattstjóra með kæru, dags. 16. júní 1998, og gerði grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi með bréfi, dags. 14. ágúst 1998. Ríkisskattstjóri tók kæruna til meðferðar með kæruúrskurði, dags. 28. ágúst 1998. Samkvæmt úrskurðinum var lækkun rekstrarkostnaðar ákveðin 492.539 kr. lægri en verið hafði í endurákvörðun. Þá var fjárhæð álags á skilaskylda staðgreiðslu leiðrétt í 295.394 kr. Þar af var álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 ákveðið 33.312 kr. Að öðru leyti stóð endurákvörðun ríkisskattstjóra óhögguð.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar mótmælir umboðsmaður kæranda breytingum ríkisskattstjóra og krefst þess að þær verði felldar niður að öllu eða verulegu leyti. Að því er varðar lækkun ríkisskattstjóra á rekstrarkostnaði kæranda, tekur umboðsmaðurinn fram að allur kostnaður, sem deilt sé um, sé sannanlega greiddur af kæranda og tilheyri rekstri félagsins. Viðurkennt skuli að hluti bókhaldsgagna standist ekki ýtrustu formkröfur samkvæmt lögum. Hins vegar hafi það verið yfirlýst stefna ríkisskattstjóra að fara rólega í formkröfur fyrstu árin eftir að virðisaukaskattur var tekinn upp. Sé fyrirtækjum nokkur vandi á höndum þegar þeim séu sendir reikningar, sem ekki uppfylli formkröfur, því ekki muni heimilt að neita að greiða þá.

Í kærunni er gerð grein fyrir kröfum og rökstuðningi kæranda vegna einstakra þátta málsins. Að öðru leyti er vísað til svarbréfs kæranda, dags. 22. desember 1995, og gagna sem því fylgdu, svo og bréfs til ríkisskattstjóra, dags. 14. ágúst 1998.

Breytingar ríkisskattstjóra og sjónarmið kæranda eru sem hér segir:

Hækkun á skattskyldri veltu:

Sem áður segir hækkaði ríkisskattstjóra skattskylda veltu til virðisaukaskatts og rekstrartekjur um 361.447 kr. Umboðsmaður kæranda tekur fram að um sé að ræða sölu á skútu sem kærandi hafi neyðst til að kaupa á uppboði vegna innheimtu viðskiptaskuldar. Kærandi sé iðnfyrirtæki og viðskipti með skútuna tengist á engan hátt tilgangi eða starfsemi félagsins. Vísar kærandi til þess að ríkisskattstjóri hafi tjáð sig um virðisaukaskattsskyldu vegna sölu notaðra muna, sbr. m.a. álitsgerð nr. 22/1990, og látið uppi það álit að einstaklingur sem ekki stundi rekstur greiði ekki virðisaukaskatt. Telur kærandi að hið sama hljóti að gilda um lögaðila ef rekstur þeirra felist ekki í sölu notaðra muna.

Ferðakostnaður:

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan ferðakostnað úr 884.420 kr. í 243.238 kr. eða um 641.182 kr. Þar var annars vegar um að ræða kostnað vegna utanlandsferða, samtals 575.939 kr., sem að verulegu leyti hafði verið gjaldfærður á grundvelli gjaldeyriskaupanótna og samkvæmt greiðslukortayfirlitum, og hins vegar kostnaður vegna enskunámskeiðs framkvæmdastjóra kæranda, samtals 65.243 kr., er var samkvæmt reikningum frá Enskuskólanum og vegna kaupa á Linguaphone-námskeiði. Að því er varðar fyrrnefnda liðinn taldi ríkisskattstjóri ekki unnt að fallast á gjaldfærslu kostnaðar sem ekki væri studdur áreiðanlegum og fullnægjandi skjölum, sbr. 12. gr. laga nr. 51/1968, um bókhald, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 417/1982, um bókhald. Þrátt fyrir framkomnar skýringar yrði að gera þær kröfur til fylgiskjala, sem gjaldfærsla byggðist á, að þau bæru með sér áreiðanlegar og fullnægjandi upplýsingar um t.d. tilurð ferðar, hvert væri farið, hver fari o.s.frv. Ríkisskattstjóri taldi útgjöld vegna tungumálanámskeiðs ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað kæranda og tók m.a. fram í því sambandi að um almennt námskeið virtist vera að ræða. Þá væru fylgiskjöl ekki á nafni kæranda.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að sá háttur hafi verið hafður á varðandi kostnað við utanlandsferðir á vegum kæranda að framkvæmdastjóri félagsins hafi keypt gjaldeyri sem nægt hafi fyrir útgjöldum í ferðinni. Ef afgangur hafi verið af ferðafé, hafi það verið notað í næstu ferð. Með þessu hafi kærandi sparað veruleg útgjöld þar sem þessi lausn hafi verið mun hagstæðari félaginu en að greiða dagpeninga. Gerð hafi verið ítarleg grein fyrir öllum ferðum í nafni kæranda og tilgangi þeirra. Af hálfu kæranda er mótmælt útstrikun kostnaðar vegna enskunámskeiðs framkvæmdastjóra félagsins og tekið fram að það liggi í augum uppi að um sé að ræða sérhæft nám, sem komi að gagni í rekstri félagsins, en ekki byrjandanámskeið í ensku. Fyrir vangá hafi láðst að skrá nafn félagsins á nótur þegar lagt hafi verið í kostnaðinn.

Ýmis kostnaður starfsmanna:

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan ýmsan kostnað vegna starfsmanna, sem var 116.779 kr., um 67.951 kr. Var það aðallega vegna kaupa á veitingum eða annarri matvöru samkvæmt staðgreiðslureikningum. Taldi ríkisskattstjóri að þrátt fyrir þær skýringar kæranda að um væri að ræða greiddan ferðakostnað starfsmanna í stað dagpeninga, gætu nótur þar sem vantaði upplýsingar um kaupanda og skýringar á tengslum kostnaðarins við rekstur kæranda, t.d. með því að gera grein fyrir tilefni hverrar ferðar fyrir sig, ekki talist fullnægjandi til grundvallar gjaldfærslu, sbr. ákvæði laga og reglugerðar um bókhald.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að kostnaður þessi sé vegna útlagðs kostnaðar starfsmanna kæranda vegna ferða þeirra innanlands á vegum félagsins. Hafi þessi aðferð verið höfð í stað þess að greiða starfsmönnum dagpeninga vegna ferðalaga.

Fundakostnaður:

Gjaldfærður fundakostnaður í ársreikningi kæranda nam 235.265 kr. Gjaldalið þennan lækkaði ríkisskattstjóri um 79.936 kr., sem var samkvæmt níu tilteknum fylgiskjölum, með því að engar upplýsingar kæmu fram á þeim um það hverjir væru þiggjendur veitinga eða af hvaða tilefni veitingar hefðu verið keyptar. Í einu tilviki byggði ríkisskattstjóri jafnframt á því að útgjöldin væri gjaldfærð samkvæmt greiðslukortayfirliti.

Af hálfu kæranda hafa útgjöld þessi að hluta verið skýrð á sama hátt og greinir að framan varðandi liðinn ýmsan kostnað starfsmanna. Að öðru leyti sé um að ræða kostnað sem fallið hafi til vegna funda stjórnar, aðalfundar Félags …, tiltekins erlends sölufulltrúa og nafngreinds atvinnuráðgjafa.

Menntun starfsfólks:

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan kostnað um 71.910 kr. á þeim grundvelli að skýringar kæranda vegna þessara útgjalda væru ekki skýrar. Reikningur væri vegna tölvunámskeiðs, sem framkvæmdastjóri kæranda hefði sótt, án þess þó að nánar kæmi fram um það hvers konar tölvunámskeið hefði verið um að ræða. Samkvæmt skýringum kæranda hefði framleiðslustjóri fyrirtækisins hins vegar sótt námskeið þetta.

Af hálfu kæranda er breytingu ríkisskattstjóra mótmælt á þeim forsendum að námskeið þetta hafi beinlínis verið haldið fyrir starfsfólk vegna tölvuvæðingar í framleiðslu kæranda.

Starfsmannakostnaður:

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan starfsmannakostnað, sem nam 169.480 kr., um 30.000 kr. er var samkvæmt greiðslukvittun þar sem fram kom að verið væri að greiða hlutafé í kæranda og skrifað neðanmáls „v/X 100.000 og v/klefa 30.000“. Samkvæmt skýringum kæranda væri um að ræða kaup á sturtuklefa. Engin frekari sönnun þess lægi fyrir í gögnum málsins. Gæti kvittun þessi ekki talist áreiðanleg og fullnægjandi til grundvallar gjaldfærslu í bókhaldi kæranda, sbr. 4. gr. reglugerðar um bókhald.

Af hálfu kæranda hefur verið greint frá því að A hafi selt félaginu notaðan sturtuklefa sem settur hafi verið upp í húsnæði þess.

Skrifstofukostnaður:

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan skrifstofukostnað um 25.247 kr. og innskatt um 9.336 kr. Lúta breytingarnar að kostnaði vegna heimasíma framkvæmdastjóra kæranda, áskrift að Morgunblaðinu, framköllun filmu og bókakaupum.

Að því er varðar símkostnað er breytingu ríkisskattstjóra mótmælt af hálfu kæranda með þeim rökum að úr því ríkisskattstjóri viðurkenni að framkvæmdastjóri noti heimasíma í þágu félagins, fái ekki staðist að kostnaðurinn sé strikaður út af því að símreikningur sé ekki stílaður á það eða ráðningarsamningur framkvæmdastjórans hengdur við reikninginn. Að sjálfsögðu sé samkomulag milli aðila um endurgreiðslu á kostnaði við heimasíma að hluta. Áskrift að Morgunblaðinu sé nauðsynleg til að hafa daglegar upplýsingar um gengisskráningu og til að fylgjast með auglýsingum um útboð og nauðungaruppboð. Kostnaður vegna framköllunar sé studdur staðgreiðslunótu með kassastrimli og innan þeirra marka sem sett séu um kröfu til nafns og kennitölu. Keyptar hafi verið handbækur og ferðakort vegna Portúgalsferðar framkvæmdastjóra kæranda, en hann hafi ferðast um á eigin vegum.

Smáverkfæri og rekstrarvörur:

Gjaldalið þennan að fjárhæð 586.503 kr. lækkaði ríkisskattstjóri um 33.860 kr. svo og lækkaði hann innskatt um 8.296 kr. vegna þriggja fylgiskjala í bókhaldi. Í einu tilviki væri reikningur stílaður á annan aðila (fskj. 734) og tengsl kostnaðar við rekstur kæranda óljós. Vegna tveggja fylgiskjala væri um að ræða matarkaup án þess að skýringar kæmu fram um tilefni þeirra.

Kærandi hefur greint frá því að síðastnefnd tvö fylgiskjöl séu vegna hliðstæðs kostnaðar og að framan greinir undir liðnum ýmis kostnaður starfsmanna. Fylgiskjal 734 sé vegna … sem kærandi hafi lagt til í tiltekið listaverk og sé nú eign félagsins. Prýði það húsakynni félagsins.

Lögfræðikostnaður:

Ríkisskattstjóri lækkaði innskatt og hækkaði rekstrarkostnað (lögfræðiaðstoð) um 4.900 kr. vegna fylgiskjals nr. 434. Kvað ríkisskattstjóri vera um að ræða færslu innskatts af innheimtukostnaði lögmanns þar sem kærandi væri tilgreindur sem skuldari. Yrði ekki talið að kærandi ætti rétt til frádráttar virðisaukaskatts (innskatts) í þessu tilviki

Kærandi telur að þessi breyting ríkisskattstjóra standist ekki þar sem nefndur lögmaður hafi sjálfur verið eigandi viðkomandi kröfu á hendur kæranda. Hafi hann gert kæranda reikning fyrir innheimtukostnaði þar sem m.a. komi fram fjárhæð virðisaukaskatts.

Aðrar breytingar ríkisskattstjóra á rekstrarkostnaði og innskatti:

Ríkisskattstjóri lækkaði innskatt kæranda um 57.487 kr. og hækkaði frádráttarbæran rekstrarkostnað um sömu fjárhæð sökum þess að ekki væri fyrirliggjandi í bókhaldsgögnum kæranda fullnægjandi gögn til sönnunar á innskatti, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, svo sem ríkisskattstjóri gerði nánari grein fyrir. Ekki væri þó dregið í efa að um frádráttarbæran rekstrarkostnað væri að ræða. Meðal annars lækkaði ríkisskattstjóri innskatt um 6.248 kr. á þeim forsendum að á reikningi (fskj. nr. 6) kæmi aðeins fram að greitt væri fyrir „vinnu við ýmis verkefni“, en nánari tilgreiningu hins keypta vantaði. Þá lækkaði ríkisskattstjóri innskatt um 192.415 kr. af þeim ástæðum að fullnægjandi gögn lægju ekki fyrir til stuðnings innskattsfrádrætti. Um er að ræða virðisaukaskatt af aðföngum vegna vöruþróunar (fskj. nr. 323, 7.565 kr.) og vegna aðfanga til reksturs húseignarinnar Y í Reykjavík (fskj. nr. 190 og 1607, 184.850 kr.). Ríkisskattstjóri hækkaði eignfærðan kostnað um sömu fjárhæðir.

Kærandi hefur greint frá því að um sé að ræða gjöld vegna húsfélagsins Y í Reykjavík, en kærandi eigi hluta í fasteigninni. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 22. desember 1995, lagði umboðsmaður kæranda fram ársyfirlit húsfélagsins 1993, sem löggiltur endurskoðandi þess hefði samið. Frumgögn útgjalda lægju í bókhaldsgögnum húsfélagsins. Væri innskattsfrádráttur í samræmi við verklagsreglur ríkisskattstjóra.

Þá mótmælir kærandi því að innskattur sé felldur niður vegna þeirra annmarka á bókhaldsskjölum, m.a. þeirra mannlegu mistaka að rita ekki kennitölu á nótur. Þá sé fráleitt að túlka ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993 jafn þröngt og ríkisskattstjóri geri vegna fskj. nr. 6. Um sé að ræða kaup á vinnu við tollskýrslugerð.

Tapaðar viðskiptakröfur:

Ríkisskattstjóri taldi að kæranda hefði ekki verið heimilt að færa til frádráttar rekstrartekjum sem tapaðar viðskiptakröfur, sbr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þrjár viðskiptakröfur samtals að fjárhæð 3.095.983 kr., enda kæmi ekki fram í yfirlýsingum frá lögmönnum, sem haft hefðu kröfurnar til innheimtu, að skilyrði C-liðar 29. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, hefðu verið uppfyllt á árinu 1993.

Af hálfu kæranda er komið fram að annars vegar sé um að ræða húsaleigutekjur að fjárhæð 2.015.534 kr. frá Z hf. Hafi leigan árum saman verið færð til tekna hjá kæranda án þess að hún fengist greidd. Þegar eina eign félags þessa hafi verið seld í árslok 1993 og það hætt starfsemi hafi ekki verið um annað að ræða en að afskrifa skuldina. Um aðrar afskrifaðar viðskiptakröfur tekur umboðsmaður kæranda fram að fyrir liggi staðfestingar og sannanir þess að skuldirnar hafi verið tapaðar í árslok 1993. Venjulegast séu teknar ákvarðanir um afskrift skulda við lokafrágang og endurskoðun ársreiknings. Sé þá haft samband við lögmenn og innheimtuaðila til að fá mat á kröfum. Það stríði gegn góðri reikningsskilavenju að halda inni útistandandi kröfum sem séu sannanlega tapaðar. Þá bendir umboðsmaðurinn á hátt yfirfæranlegt rekstrartap kæranda og kveður félagið ekki hafa verið í þeirri stöðu að hafa þurft að „búa til kostnað“.

Álag á skilaskylda staðgreiðslu:

Ríkisskattstjóri ákvarðaði kæranda álag að fjárhæð 295.394 kr. vegna hækkunar á skilaskyldri staðgreiðslu, sbr. 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að bifreiðastyrk að fjárhæð 806.022 kr. hefði ranglega verið haldið utan staðgreiðslu.

Af hálfu kæranda er krafist niðurfellingar álags á skilaskylda staðgreiðslu, sbr. heimild í 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, með vísan til þess hve lengi hafi dregist að afgreiða mál þetta og þess að ekki hafi verið um ásetning að ræða heldur misskilning starfsmanna.

IV.

Með bréfi, dags. 22. janúar 1999, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V.

1. Um málsmeðferð ríkisskattstjóra.

Í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 12. mars 1998, lýsti umboðsmaður kæranda þeirri skoðun að sá dráttur sem orðið hefði á máli kæranda af hálfu ríkisskattstjóra væri slíkur að hann ætti einn sér að leiða til niðurfellingar málsins. Þrátt fyrir að umboðsmaðurinn byggi kröfur sínar í kæru til yfirskattanefndar ekki sérstaklega á þessari málsástæðu, þykir rétt að víkja að þessu atriði.

Eins og fyrr greinir boðaði ríkisskattstjóri kæranda skattbreytingar með bréfi, dags. 13. nóvember 1995. Að fengnum athugasemdum umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 22. desember 1995, lá málið í láginni uns ríkisskattstjóri boðaði breytingar að nýju hinn 11. febrúar 1998. Fram kemur í þessu bréfi ríkisskattstjóra að verulegur dráttur hafi orðið á málinu.

Samkvæmt þessu liðu rúmlega tvö ár frá því að mótmæli umboðsmanns kæranda, dags. 22. desember 1995, með athugasemdum hans við skýrslu eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra bárust ríkisskattstjóra þar til ríkisskattstjóri tilkynnti kæranda um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda. Samkvæmt þessu dróst óhæfilega lengi að ríkisskattstjóri héldi málinu fram. Engar skýringar hafa komið fram á þessum töfum af hálfu ríkisskattstjóra. Að svo vöxnu verður að telja að ónauðsynlegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins er brotið hafi í bága við almenna málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um að málið myndi tefjast og um ástæður þess, sbr. 3. mgr. 9. gr. síðastnefndra laga.

Til þess er að líta að almennt valda tafir á afgreiðslu mála ekki ógildi ákvörðunar þótt frá þeirri meginreglu geti verið undantekningar. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. mars 1948 (H 1948:179) reyndi á það álitaefni hvort það ylli ónýti úrskurðar ríkisskattanefndar að nefndin kvað ekki upp úrskurð fyrr en að liðnum lögmæltum fresti til að úrskurða kærur samkvæmt þágildandi útsvarslögum. Taldi Hæstiréttur að umrætt ákvæði útsvarslaganna væri verklagsregla sem sett væri ríkisskattanefnd, en brot á reglunni ylli ekki ónýti úrskurðar þess sem nefndin kvæði upp. Sama sjónarmið kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. mars 1998 í málinu nr. E-5852/1996: Íslenska útvarpsfélagið hf. gegn íslenska ríkinu þar sem ekki var talið að það leiddi til niðurfellingar skattákvörðunar að yfirskattanefnd kvað upp úrskurð að liðnum lögmæltum fresti. Í dómum Hæstaréttar frá 8. júní 1949 (H 1949:228) og 30. janúar 1997 (H 1997:385, Vífilfell hf. gegn Gjaldheimtunni í Reykjavík), sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember 1996, koma og fram sjónarmið um áhrif dráttar á afgreiðslu skattamála. Með vísan til fyrrgreindrar meginreglu um áhrif tafa á afgreiðslu mála á gildi ákvörðunar og þess sem fram kemur í nefndum dómum verður ekki talið að ómerkja beri hina umdeildu ákvörðun ríkisskattstjóra vegna umræddra tafa, enda var álagning vegna rekstarársins 1993 með úrskurðum ríkisskattstjóra, dags. 20. maí og 28. ágúst 1998, innan þeirra tímamarka sem sett eru í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

2. Um efniskröfur kæranda.

a) Hækkun skattskyldrar veltu til virðisaukaskatts og hækkun rekstrartekna.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi uppboðskaupandi við nauðungarsölu á seglbát …, sbr. uppboðsafsal, dags. í ágúst 1993. Bátinn seldi kærandi 21. september 1993 og var söluverð 450.000 kr. Söluþóknun og ýmis kostnaður nam 55.272 kr. Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að kæranda, sem er skráður aðili samkvæmt laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, bar að standa skil á virðisaukaskatti af sölunni, sbr. 11. gr. laga nr. 50/1988, enda var um að ræða sölu á vöru sem fellur innan skattskyldusviðs laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra, og ekki verður séð að neitt undanþáguákvæði þeirra geti átt við í þessu tilviki. Ríkisskattstjóri ákvað skattskylda veltu vegna sölunnar 361.447 kr. Er þessi þáttur endurákvörðunar ríkisskattstjóra staðfestur.

Jafnframt hækkun skattskyldrar veltu um 361.447 kr. hækkaði ríkisskattstjóri rekstrartekjur kæranda um sömu fjárhæð. Hvorki var vikið að því í skýrslu eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra, dags. 18. október 1995, að rekstrartekjur væru vantaldar né var þessi breyting boðuð kæranda með bréfum ríkisskattstjóra, dags. 13. nóvember 1995 og 11. febrúar 1998. Þá verður ekkert tilefni séð til hennar. Er hún því felld niður.

b) Ferðakostnaður.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá tekjum lögaðila, „það eru þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við…“. Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og ber skattaðila því að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, þ.m.t. að fyrir liggi gögn sem beri tilefni útgjalda með sér á fullnægjandi hátt.

Ríkisskattstjóri lækkaði gjaldfærðan ferðakostnað um 74.460 kr. þar sem ekki kæmi fram á reikningi fyrir flugfargjaldi (fskj. nr. 1555) hver hefði tekist á hendur ferð til Kaupmannahafnar í desember 1993. Kvað ríkisskattstjóri koma fram á skjalinu að ferðin væri vegna fundar hjá B. Ekki verður séð að ríkisskattstjóri hafi dregið í efa að ferð þessi hafi verið á vegum kæranda. Af hálfu kæranda hefur komið fram að D hafi sótt fund þennan og liggja fyrir gögn þar um. Er því fallist á hækkun ferðakostnaðar um nefnda fjárhæð.

Að því er varðar ferðakostnað sem gjaldfærður var samkvæmt kaupnótum gjaldeyris og greiðslukortayfirlitum, samtals 501.479 kr., verður að taka undir það með ríkisskattstjóra að ekki er um fullnægjandi skjöl að ræða til sönnunar ferðakostnaði, enda bera þau ekki með sér ráðstöfun þeirra fjármuna sem um ræðir. Ekki er um að ræða greiðslu dagpeninga til starfsmanna vegna ferðakostnaðar. Allt að einu verður ekki talið rétt að synja kæranda alfarið um gjaldfærslu þessa, enda þykir ljóst að frekari útgjöld hafa fallið til vegna utanlandsferða en gjaldfærð hafa verið samkvæmt fyrirliggjandi frumgögnum um ferðakostnað. Tekið skal fram að ekki hefur ríkisskattstjóri í neinu tilviki dregið í efa að utanlandsferðir hafi haft rekstrarlegan tilgang. Er þessi liður áætlaður með 300.000 kr. til viðbótar kostnaði sem ríkisskattstjóri hefur fallist á. Ferðakostnaður hækkar því samtals um 374.460 kr.

c) Enskunám framkvæmdastjóra.

Almennt verður að telja að tungumálanám sé hluti af almennri menntun og þekkingu einstaklinga og útgjöld því samfara geti því ekki talist til rekstrarkostnaðar, þó ekki þyki alveg loku fyrir það skotið að í einstökum tilvikum kunni tungumálanámskeið að vera það nátengd tekjuöflun að útgjöld vegna þeirra geti talist vera rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ljóst er að með enskunámi sínu var framkvæmdastjóri kæranda að afla sér slíkrar almennrar menntunar og enskunám getur ekki talist svo nátengt tekjuöflun kæranda að fært sé að fella útgjöld þau sem hér um ræðir undir 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ber því að staðfesta niðurstöðu ríkisskattstjóra um að synja um frádrátt vegna þess kostnaðar sem hér um ræðir.

d) Ýmis kostnaður starfsmanna.

Vefenging ríkisskattstjóra á hinum gjaldfærða kostnaði vegna starfsmanna þykir tæpast nægilega skýr. Rétt er að taka fram að samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 147/1994, er skattstjóra nú heimilað, að gættum ákvæðum 96. gr. laganna, að synja um frádrátt vegna greiðslna og hlunninda ef eigi hefur verið fullnægt skyldu til að afhenda honum upplýsingar um viðkomandi greiðslur eða hlunnindi, sbr. 92. gr. laganna. Vegna rekstrarársins 1993 var ekki samsvarandi heimild í lögum til að hafna gjaldfærslu slíks kostnaðar á framangreindum forsendum og stóðu önnur úrræði til boða til þess að knýja fram upplýsingar um launauppgjöf. Því verður synjun gjaldfærslu vegna fæðis starfsmanna kæranda ekki á því byggð að um vanuppgefin hlunnindi sé að ræða. Að svo vöxnu þykir ríkisskattstjóri ekki hafa skotið nægum stoðum undir niðurstöðu sína varðandi þennan kostnað og er hún því felld úr gildi. Gjaldfærsla nemur 67.951 kr.

e) Fundakostnaður.

Þótt á það megi fallast með ríkisskattstjóra að bókhaldsgögn skuli almennt bera með sér útgjaldatilefni, sbr. til hliðsjónar núgildandi 8. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994, verður allt að einu að telja að ríkisskattstjóra hafi borið að líta til skýringa kæranda sem fram komu um þetta undir rekstri málsins. Með því að ríkisskattstjóri hefur ekki í neinu atriði vefengt skýringar kæranda á tilefni útgjalda verður breyting ríkisskattstjóra felld úr gildi að því er þetta kæruatriði varðar.

f) Menntun starfsfólks.

Að virtum skýringum kæranda er fallist á kröfu hans að því er þennan lið varðar.

g) Starfsmannakostnaður.

Að virtum skýringum kæranda er fallist á kröfu hans að því er þennan lið varðar.

h) Skrifstofukostnaður.

Að því er varðar gjaldfærðan kostnað vegna heimasíma framkvæmdastjóra kæranda og færslu innskatts í því sambandi skal tekið fram að kærandi er hlutafélag. Verður ekki talið að reikningur á nafn starfsmanns kæranda geti talist fullnægjandi til sönnunar innskatti kæranda, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Er í þessu sambandi litið til þess að samkvæmt skilgreiningum í 3. og 4. mgr. 15. gr. laganna er hugtakið innskattur bundið við virðisaukaskatt sem fellur á kaup skattaðila sjálfs á vörum og skattskyldri þjónustu til nota í rekstri hans. Þannig er ekki hægt að fallast á að innskattur verði færður af símkostnaði sem hér um ræðir. Varðandi gjaldfærslu skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er til þess að líta að kærandi hefur ekki, þrátt fyrir tilefni, gert grein fyrir hvernig kostnaður skiptist milli einkanota framkvæmdastjórans af heimilissíma sínum og notkunar í tengslum við starfsemi kæranda. Þrátt fyrir þetta verður þó ekki hafnað með öllu staðhæfingum umboðsmanns kæranda um að framkvæmdastjóri hans hafi notað heimasíma sinn í þágu rekstrar fyrirtækisins. Svo sem málið liggur fyrir verður frádráttarbær hluti þessara útgjalda ekki ákveðinn nema að álitum. Þykir rétt að fallast á gjaldfærslu 10.000 kr. vegna þessa liðar.

Fallist er á gjaldfærslu og innskatt vegna framköllunar, þ.e. rekstrarkostnað 3.090 kr. og innskatt 757 kr. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á frádráttarbærni útgjalda til bókakaupa og vegna áskriftar að dagblaði.

i) Smáverkfæri og rekstrarvörur.

Þær breytingar skattstjóra sem um er deilt samkvæmt þessum kærulið eru í fyrsta lagi vegna fylgiskjals nr. 734. Upplýst er að um er að ræða kostnað vegna listaverks til skreytingar á húsnæði kæranda. Kröfugerð umboðsmanns verður að skilja svo að hann telji að um fyrnanlega eign skv. 32. gr. laga nr. 75/1981 sé að ræða sem heimilt hafi verið að gjaldfæra á kaupári, sbr. 41. gr. sömu laga. Um listaverk þetta þykir gegna sama máli og myndverk sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 (H 1997:385). Með vísan til þessa dóms er úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur um þetta atriði.

Að öðru leyti er breyting ríkisskattstjóra felld úr gildi með vísan til þess sem segir í lið d að framan vegna gjaldfærslu 16.982 kr. sem hækkar um 4.161 kr. vegna niðurfellds innskatts.

j) Lögfræðikostnaður.

Greiðsla kæranda til lögmanns á kostnaði, sem hann krafði kæranda um vegna innheimtu vanskilaskuldar, getur ekki talist vera endurgjald af hálfu kæranda fyrir lögfræðiþjónustu. Vísast um þetta til þeirra sjónarmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar 11. febrúar 1993 (H 1993:259). Úrskurður ríkisskattstjóra er því staðfestur um þetta kæruatriði.

k) Aðrar breytingar ríkisskattstjóra á rekstrarkostnaði og innskatti.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarvörum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laganna ber það undir kæranda að leggja fram reikninga eða önnur gögn, sem uppfylla skilyrði þau sem fram koma í 1. mgr. greinarinnar, til sönnunar á innskatti. Nánar er kveðið á um gögn til sönnunar á innskatti í 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og 15. gr., sbr. 3.-6. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt nefndum ákvæðum er áskilnaður um að til grundvallar færslu virðisaukaskatts (innskatts) af innkaupum þurfi að vera til staðar frumrit sölureikninga, afreikninga eða móttekinna kreditreikninga sem uppfylli nánar tilgreind skilyrði, þar á meðal að reikningurinn sé tölusettur, virðisaukaskattur sé tilgreindur og að fram komi bæði nafn og kennitala kaupanda og seljanda, sbr. og reglur í 5. mgr. 8. gr. að því er varðar reikningsútgáfu smásöluverslana og þjónustuhafa sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda.

Samkvæmt þeim ákvæðum, sem hér hafa verið rakin, telst reikningur ekki vera þannig úr garði gerður að hann nægi til sönnunar á innskatti nema fram komi nafn og kennitala kaupanda. Sama gildir ef frumrit reiknings liggur ekki fyrir. Því er úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur að því leyti sem hann byggir á því að fullnægjandi gögn hafi ekki legið til grundvallar innskatti. Þó er rétt að taka kröfu kæranda til greina að því er varðar innskatt að fjárhæð 184.850 kr. vegna sameiginlegs kostnaðar við rekstur húseignarinnar Y, enda verður ekki annað séð en að í grundvallaratriðum sé fullnægt þeirri sérreglu sem fram kemur í 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993 að því er þennan lið varðar. Þá þykir kærandi hafa gert nægilega grein fyrir vinnu þeirri sem keypt var vegna tollskýrslugerðar (fskj. nr. 6). Því hækkar innskattur um 6.248 kr. og rekstrarkostnaður lækkar um sömu fjárhæð.

l) Tapaðar útistandandi viðskiptakröfur.

Í endurákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 1998, kemur fram að hann telur gjaldfærslu vegna tapaðra útistandandi viðskiptakrafna offærða um 3.095.983 kr. Er vísað til þess að samkvæmt upplýsingum lögfræðinga, er fylgdi svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 22. desember 1995, yrði ekki ráðið að skilyrði 1. tölul. C-liðar 29. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, hafi verið fyrir hendi á rekstrarárinu 1993.

Samkvæmt 3. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem það lagaákvæði hljóðaði á þeim tíma sem mál þetta varðar, var heimilt að gjaldfæra töp á útistandandi viðskiptaskuldum á því tekjuári sem skuld var sannanlega töpuð. Samkvæmt 1. tölul. C-liðar 1. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sem gilti við álagningu opinberra gjalda á þeim tíma sem mál þetta varðar, sbr. nú 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, taldist skuld vitanlega töpuð ef hún var fyrnd eða það sannaðist á fullnægjandi hátt að eignir væru eigi til fyrir henni eða hún yrði eigi greidd, svo sem við gjaldþrot, nauðasamninga, árangurslaust fjárnám o.þ.h. Samkvæmt 2. tölul. sama ákvæðis taldist skuld sömuleiðis vitanlega töpuð ef telja mátti fullvíst að hún fengist eigi greidd, enda þótt atvik þau sem um ræddi í 1. tölul. væru eigi fyrir hendi. Líkur einar væru þó eigi nægar, heldur yrðu öll rök að liggja til þess að skuldin væri að fullu töpuð. Að það hefði sýnt sig við ítrekaðar innheimtutilraunir að skuldari væri ófær til greiðslu, að hvorki fengist af skuldinni afborganir og vextir né veð fyrir henni, og efnahagur skuldara og afkoma væri þannig að greiðslu yrði ekki að vænta, enda væri eigi um gagnkröfu að ræða af hans hendi.

Það ber undir skattaðila að sanna eða gera líklegt með gögnum að umræddar kröfur hafi verið tapaðar. Leiðir af framangreindum reglum, sbr. einnig þá meginreglu sem fram kemur um uppgjör skattskyldrar veltu í 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem telja verður að hafi efnislega hliðstæðu með þeim reglum er gilda í almennum skattskilum, að slík gögn verða að liggja fyrir á því tekjuári og eftir atvikum uppgjörstímabili þegar krafa er gjaldfærð og eftir atvikum færð til frádráttar skattskyldri veltu. Tekið skal fram að úrskurður um gjaldþrotaskipti skuldara hefur í úrskurðaframkvæmd ekki án annarra gagna verið talinn fullnægjandi sönnun um að krafa sé töpuð, sbr. m.a. niðurstöðu í úrskurði ríkisskattanefndar nr. 527/1990 (bls. 363 í úrskurðasafni nefndarinnar fyrir árin 1990, 1991 og 1992).

Af hálfu kæranda hafa verið lagðar fram upplýsingar um árangurslaust fjárnám hjá C 14. janúar 1994, sbr. bréf E hdl., dags. 5. september 1995. Í bréfinu kemur jafnframt fram að bú F hf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta í júní 1992 og sé það mat lögmannsins að ekkert myndi koma upp í almennar kröfur. Þá hafi G verið úrskurðaður gjaldþrota í mars 1994 og hafi ekkert komið upp í almennar kröfur. Um kröfu á hendur Z hf. vegna ógreiddrar húsaleigu liggur fyrir staðfesting lögmanns þess efnis að félagið hafi hætt starfsemi í lok árs 1993 og hafi það þá verið eignalaust. Séu innheimtuaðgerðir á hendur félaginu því þýðingarlausar. Af hálfu kæranda kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að tekjufærð hafi verið húsaleiga á hendur Z hf. fram á árið 1993 þótt þá hafi löngu verið orðið ljóst að hún fengist ekki greidd.

Þegar það er virt sem fyrir liggur um viðskipti kæranda við Z hf. og stöðu þess félags í árslok 1993 þykir bera að fallast á kröfu kæranda um gjaldfærslu tapaðrar viðskiptakröfu á hendur þeim aðila, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Ekki þykir hins vegar hafa verið sýnt fram á að aðrar umræddar kröfur kæranda hafi verið sannanlega tapaðar á rekstrarárinu 1993. Er kröfu kæranda því hafnað að því er þær varðar.

Rétt er að fram komi að í kæru til ríkisskattstjóra, sbr. bréf, dags. 14. ágúst 1998, gerði kærandi þá varakröfu varðandi gjaldfærslu tapaðra viðskiptakrafna, yrði ekki fallist á gjaldfærslu þeirra í skattframtali 1994, að ríkisskattstjóri tæki álagningu á kæranda gjaldárið 1995 til nýrrar meðferðar og hækkaði yfirfæranleg töp um fjárhæð tapaðra viðskiptakrafna. Þessu hafnaði ríkisskattstjóri í kæruúrskurði sínum, dags. 28. ágúst 1998, á þeim forsendum að „það yrði ekki gert hér þar sem mál kæranda vegna gjaldársins 1994 er hér til afgreiðslu. Til þess að leiðrétta framtal 1995 verður ríkisskattstjóri að afgreiða það sem sjálfstætt mál. Því verður kærandi að senda ríkisskattstjóra erindi, þar sem farið er fram á leiðréttingu opinberra gjalda vegna gjaldársins 1995 …“

Þessar forsendur ríkisskattstjóra fá með engu móti staðist. Hafi ríkisskattstjóri talið að kærandi ætti rétt á gjaldfærslu tapaðra viðskiptakrafna, sem í málinu greinir, síðar en á árinu 1993, eftir því sem framlögð gögn kæranda stóðu til, bar ríkisskattstjóra að hafa frumkvæði að því samkvæmt leiðréttingarskyldu sinni að álagning viðkomandi ára yrði leiðrétt, sbr. m.a. þau sjónarmið sem fram koma í 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

m) Staðgreiðsla og tryggingagjald.

Þessi þáttur málsins varðar skilaskyldu í staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna ökutækjastyrks starfsmanna kæranda og beitingu álags á vanskilafé í staðgreiðslu samkvæmt 2. mgr. 28. gr. nefndra laga, svo og hækkun tryggingagjaldsstofns um fjárhæð ökutækjastyrks.

Eins og fram hefur komið hefur ríkisskattstjóri talið að miða bæri við það í staðgreiðsluskilum kæranda umrætt ár að hinir tilgreindu starfsmenn hefðu fengið greidda staðgreiðsluskylda ökutækjastyrki, en að kærandi hefði ranglega haldið téðum greiðslum utan staðgreiðsluskila. Á þessum grundvelli hækkaði ríkisskattstjóri staðgreiðsluskylda ökutækjastyrki vegna starfsmanna kæranda staðgreiðsluárið 1993. Vegna vanskila í staðgreiðslu, sem þetta þýddi, beitti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt fyrrgreindri lagaheimild.

Samkvæmt 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, teljast ökutækjastyrkir til staðgreiðsluskyldra launa, enda er þeim ekki skipað utan staðgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laganna. Ber launagreiðanda að sjá um staðgreiðslu fyrir hönd launamanns, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1987. Í 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, eru greind skilyrði þess að halda megi ökutækjastyrk til launamanns utan staðgreiðslu. Er þar um að ræða undantekningarákvæði frá meginreglu 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um að ökutækjastyrkir teljist til launa, sem því verður að skýra þröngt. Í 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, segir að heimild til að halda greiðslu ökutækjastyrks til launamanns utan staðgreiðslu, ef um er að ræða akstur í þágu launagreiðanda, sé háð þeim skilyrðum „að færð sé akstursdagbók eða akstursskýrsla þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald greitt launamanni, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis. Gögn þessi skulu færð reglulega og vera aðgengileg skattayfirvöldum þegar þau óska þess, hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá launamanni.“

Samkvæmt skýrslu eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra var talið að ökutækjastyrkir, sem ranglega hefði verið haldið utan staðgreiðslu, væru að fjárhæð 1.286.501 kr. Með bréfi, dags. 22. desember 1995, lagði umboðsmaður kæranda fram ljósrit úr akstursdagbókum starfsmanna. Í endurákvörðun, dags. 20. maí 1998, tók ríkisskattstjóri fram að framlögð gögn væru „misjafnlega úr garði gerð t.d. varðandi skráningu aksturserindis og kílómetragjald greitt launamanni, og uppfylla sum þeirra því ekki skilyrði til þess að halda megi greiddum bifreiðastyrk utan staðgreiðslu“. Með vísan til þessa féllst ríkisskattstjóri á að greiðslur kæranda fyrir bifreiðaafnot að fjárhæð 792.229 kr. væru undanþegnar staðgreiðslu. Ekkert kom hins vegar fram í endurákvörðuninni um það hvaða einstakar greiðslur væru ekki taldar vera studdar gögnum í samræmi við þau ákvæði sem að framan er gerð grein fyrir. Að virtum þessum annmörkum á endurákvörðun ríkisskattstjóra verður ekki hjá því komist að ómerkja þennan þátt hennar.

Ökutækjastyrkir teljast til gjaldstofns tryggingagjalds, sbr. 3. tölul. 7. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Af hálfu kæranda hefur því ekki verið mótmælt að hann hafi ekki staðið skil á tryggingagjaldi af greiðslum sem hér um ræðir. Stendur úrskurður ríkisskattstjóra því óhaggaður að því er það atriði varðar.

...

Málskostnaður.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 18. nóvember 1998. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til þess ákvarðast málskostnaður kæranda úr ríkissjóði 40.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ómerkt er ákvörðun ríkisskattstjóra um ákvörðun álags vegna skilaskyldrar staðgreiðslu og um hækkun rekstrartekna, svo og um lækkun gjaldfærslu 89.094 kr. vegna fæðiskostnaðar starfsmanna, smáverkfæra og rekstrarvara og 79.936 kr. vegna fundakostnaðar. Fallist er á gjaldfærslu 374.460 kr. vegna ferðakostnaðar, 71.910 kr. vegna menntunar starfsfólks, 30.000 kr. vegna starfsmannakostnaðar, 13.090 kr. vegna skrifstofukostnaðar og 2.015.534 kr. vegna tapaðra viðskiptakrafna. Fallist er á innskatt 757 kr. vegna skrifstofukostnaðar, 184.850 kr. vegna reksturs fasteignar og 6.248 kr. vegna aðkeyptrar þjónustu. Rekstrarkostnaður lækkar um síðastnefnda fjárhæð. Málskostnaður úr ríkissjóði ákvarðast 40.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja