Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 698/1988

Gjaldár 1987

Reglugerð nr. 171/1984 — 1. gr. 1. mgr. b-liður 6. tl.   Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 38. gr. 5. tl. — 53. gr.   Lög nr. 73/1980 — 37. gr. l. og 2. mgr.  

Viðhaldskostnaður — Endurbætur — Lóðarframkvæmdir — Mannvirki — Fyrning — Fyrnanleg fasteign — Fyrningarhlutfall — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstofn — Rekstrarkostnaður — Undirverktaki — Húsasmíði — Tekjufærsla vegna verðbreytingar

1. Malbikunarkostnaður. A rekstraryfirliti vegna útleigu iðnaðarhúsnæðis að A, fyrir rekstrarárið 1986 var gjaldfærður kostnaður vegna malbikunar að fjárhæð 402.460 kr. Kærandi hafði umræddan útleigurekstur með höndum í félagi við B að jöfnu. Með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrrnefndur gjaldfærður kostnaðarliður hefði verið felldur niður, þar sem litið væri á hann sem myndun á fyrnanlegri eign, er félli undir ákvæði 6. tl. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga. Með vísan til þess væri færð 4% fyrning 16.098 kr. Að gerðum breytingum yrði hækkun eigna og tekna að hlut kæranda (50%) 193.181 kr. Í kæru, dags. 25. ágúst 1987, mótmælti umboðsmaður kærandi þessum breytingum skattstjóra. Færði hann þau rök fyrir kröfu sinni, að með framkvæmd þessari hefði kærandi verið að uppfylla kröfur leigutaka fasteignarinnar um aðkomu að henni, þannig að í raun hefði verið um viðhald plansins að ræða. Einnig mætti ljóst vera, að malbik gæti skemmst á einum vetri, en gæti líka enst í mörg ár, þótt líftími þess væri varla 25 ár hvað þá eins langur og líftími steinsteyptrar fasteignar. Ef malbikun plansins yrði eignfærð, sem umboðsmaðurinn kvaðst ósáttur við, kvaðst hann telja að beita bæri 20% fyrningu eða a.m.k. ekki lægri en 10% eins og notað væri við fyrningu vinnubúða, enda væri malbik ekki varanlegt. Vart fengi staðist hjá skattstjóra að telja malbik varanlega eign og eignfæra það sérstaklega sem slíkt til viðbótar fasteignamatsverði fasteignarinnar. Með kæruúrskurði, dags. 16. nóvember 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Ekki þætti unnt að taka kröfu kæranda til greina á þeim grundvelli að um viðhaldskostnað væri að ræða. Benti skattstjóri á það í þessu sambandi, að umrædd fasteign væri nýbygging. Þá væri ekki heimild til hærra fyrningarhlutfalls en þess, sem tilkynnt væri í bréfi skattstjóra, dags. 28. júlí 1987, sbr. tilvitnað reglugerðarákvæði.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags 14. desember 1987, krefst umboðsmaður kæranda þess aðallega, að gjaldfærsla malbikunarkostnaðarins verði heimiluð. Til vara er þess krafist, að notað verði mun hærra fyrningarhlutfall en skattstjóri ákvað, enda síður en svo sjálfgefið, að framkvæmd við bílastæði eða lóðir, sem unnið sé að eftir að húsbyggingu sé lokið skuli talin hluti fasteignar eða eign sama eðlis og hún.

2. Aðstöðugjaldsstofn. Í greinargerð um aðstöðugjaldsstofn, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1987 voru greiðslur til undirverktaka að fjárhæð 1.403.404 kr. dregnar frá stofninum. Greiðslur þessar voru gjaldfærðar á rekstrarreikningi vegna húsasmíði. Með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um það, að þessi lækkun aðstöðugjaldsstofnsins væri felld niður, þar sem hún ætti ekki rétt á sér án frekari skýringa. Hins vegar lækkaði skattstjóri stofninn um fjárhæð tekjufærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 um 102.975 kr. Jafnframt hefur skattstjóri gert þær breytingar á gjaldstofni þessum, er leiddu af breytingum þeim, sem um getur í 1. tl. hér að framan. í kæru, dags. 25. ágúst 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda því, að greiðslur til undirverktaka væru felldar niður til frádráttar stofninum. Undirverktakagreiðslumar væru til eins undirverktaka, sem hefði tekið að sér ýmsa verkþætti í verkum kæranda. Þessi undirverktaki greiddi að sjálfsögðu aðstöðugjald af sinni starfsemi. Því væri aðstöðugjaldsálagning á greiðslur kæranda til undirverktakans tvísköttun aðstöðugjalds á sömu verkþættina. Með kæruúrskurði, dags. 16. nóvember 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til ákvæða 1. og 2. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 14. desember 1987, ítrekar umboðsmaður kæranda kröfu sína um lækkun aðstöðugjaldsstofnsins. Umboðsmaðurinn telur, að ekki verði ráðið af tilvitnuðum ákvæðum tekjustofnalaga, að þær fjalli um tvísköttun aðstöðugjalds eða um aðferðir til þess að koma í veg fyrir hana. Um það snúist ágreiningur málsins.

Með bréfi, dags. 25. október 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur um framangreind kæruefni bæði, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem geti gefið tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Um 1. tl. Með vísan til 6. tl. b-liðs 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 171, 30. mars 1984, um flokkun bygginga og annarra mannvirkja til fyrninga, sbr. 5. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um þetta kæruatriði, enda þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á heimild til gjaldfærslu umræddrar framkvæmdar né hærra fyrningarhlutfalls en skattstjóri ákvarðaði.

Um 2. tl. Eigi verður annað ráðið af málsgögnum en að umræddar greiðslur til undirverktaka hafi verið rekstrarkostnaður kæranda sjálfs og þykja skýringar hans eigi hafa leitt annað í ljós. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra um kæruefni þetta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja