Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 778/1988

Gjaldár 1986

Reglugerð nr. 245/1963 — 93. gr.   Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 2. tl. — 62. gr. 1. tl. — 66. gr. — 69. gr. — 71. gr. 2. tl. 1. mgr.  

Takmörkuð skattskylda — Lögheimili — Heimilisfesti — Örorkulífeyrir — Hagstofa Íslands — Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Barnabætur — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Lífeyrir — Álagningarmeðferð skattstjóra — Frádráttarheimild

Málavextir eru þeir, að kærendur fóru fram á það við skattstjóra, að álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986 yrði endurskoðuð, sbr. bréf þeirra, dags. 30. nóvember 1986. Kærendur gátu þess, að þau væru bæði 75% öryrkjar og nytu því ekki annarra tekna en örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Viku kærendur að því, að þeim væru ekki ákvarðaðar barnabætur. Skattstjóri hafði boðað kærendum álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 með bréfi, dags. 7. nóvember 1986, með því að álagning hefði fallið niður þá er frumálagning fór fram. Með bréfi og skattbreytingaseðlum, dags. 24. nóvember 1986, hafði skattstjóri síðan tilkynnt kærendum um álagninguna. Þá álagningu kærðu kærendur með bréfi sínu, dags. 30. nóvember 1986, svo sem fyrr segir.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 23. mars 1987. Ákvarðaði skattstjóri opinber gjöld kærenda gjaldárið 1986 að nýju, sbr. kæruúrskurðinn og skattbreytingaseðla, dags. sama dag. Skattstjóri tekur fram í úrskurðinum, að skv. skráningu Hagstofu Íslands hafi kærendur átt lögheimili í Noregi allt árið 1985. Við álagningu hafi kærendur ranglega verið skattlagðir skv. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærendur væru skattskyld skv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 og hefðu átt að skattleggjast skv. 1. mgr. 2. tl. 71. gr. sömu laga. Álagningin hefði verið endurskoðuð í samræmi við þetta. Þessi breyting hefði hækkun gjalda í för með sér. Þá ættu kærendur ekki rétt á barnabótum. Þá liggur fyrir leiðrétting skattstjóra, dags. 7. desember 1987, á fyrrnefndri álagningu til lækkunar og er þessi leiðrétting gerð með vísan til 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi leiðrétting stafaði af því, að skattstjóri felldi barnalífeyri, sem greiddur var v/örorku foreldra, undan skattlagningu.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. apríl 1987. Segir svo í kærunni:

„Samkvæmt skattskrá Reykjavíkur þessa árs er dóttur minni og tengdasyni, er voru í

Noregi, gert að greiða samkvæmt meðfylgjandi skattbreytingarseðli:

A. kr. 86.418,-
B. - 91.953,-
Kr. 178.371,-

Þessa skattaálagningu leyfi ég mér að kæra til hinnar háttvirtu ríkisskattanefndar.

Rökin fyrir þessari kröfu eru þau, að þau eru bæði 75% öryrkjar og hafa því aðeins þessar tryggingabætur til að lifa af og ekki eigi við álagningarreglur 2. tl. 71. gr. 1. 75/1981.

Með skírskotun til framanritaðs vænti ég þess, að háttvirt ríkisskattanefnd sjái sér fært að fella niður eða lækka framangreinda álagningu.“

Með bréfi, dags. 9. desember 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem kæruefnið, er virðist ágreiningslaust, lýtur að ívilnun skv. ákvæðum 66. gr. laga nr. 75/1981, og á það ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar, heldur sætir úrlausn ríkisskattstjóra.“

Kærendur mótmæla álagningarmeðferð þeirri, er skattstjóri viðhafði, og telja, að 2. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981 eigi ekki við í þeirra tilviki. Því er ómótmælt, að kærendur hafi átt lögheimili í Noregi allt árið 1985 og raunar kemur fram í kæru til ríkisskattanefndar, að þau hafi dvalist þar. Kærendur báru því takmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 1986 skv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 vegna lífeyrisgreiðslna sinna frá Tryggingastofnun ríkisins. Með skattlagningu bar því að fara skv. 1. mgr. 2. tl. 71. gr. nefndra laga svo sem skattstjóri hefur gert. Hins vegar ber við ákvörðun tekjuskattsstofns að taka tillit til lögmælts frádráttar, sbr. 1. tl. 62. gr. laga nr. 75/1981. Að öðru leyti en að framan segir er kærunni vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem ívilnunarbeiðni sú, sem fram kemur í kæru, á eigi undir ríkisskattanefnd, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra. Ber að snúa sér til skattstjóra, ríkisskattstjóra eða eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnar með slíkar beiðnir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja