Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 785/1988

Gjaldár 1988

Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.   Lög nr. 75/1981 — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Kærufrestur — Kæra síðbúin — Álagningarlok — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Póstlagningardagur kæru — Vaxtaafsláttur — Vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði — íbúðarlán — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Verðbætur — Uppgjör lána — Gjaldfallnar verðbætur gagnvart seljanda — Yfirtaka lána — Íbúðarsala — Verðbætur, greiddar — Veðskuldabréf

Í skattframtali sínu árið 1988 færðu kærendur vaxtagjöld 86.962 kr. til frádráttar í reit 87, sbr. greinargerð um vaxtagjöld R3.09, er fylgdi framtalinu. Ekki var kærendum ákvarðaður neinn vaxtaafsláttur til greiðslu við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 49 frá 30. mars 1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eins og bráðabirgðaákvæði þessu var breytt með lögum nr. 92, frá 28. desember 1987.

Með kæru, dags. 25. ágúst 1988, mótmæltu kærendur ákvörðun skattstjóra varðandi vaxtaafslátt. Kærendur gátu þess, að þau mistök hefðu verið gerð við frágang skattframtalsins, að fram hefði verið talin skuld við Byggingarsjóð ríkisins að fjárhæð 528.672 kr. sem í raun hefði ekki verið til staðar eins og fram kæmi í skjali um kaup og sölu eigna, sem fylgt hefði skattframtalinu. Lán þetta hefði verið yfirtekið af kaupanda íbúðar, sem kærendur hefðu selt á árinu 1987. Sama ætti reyndar við um handhafaskuldabréf að fjárhæð 62.500 kr. Vegna þessara mistaka hefðu vaxtagjöld vegna Byggingarsjóðs ríkisins verið vantalin um verðbætur til söludags að fjárhæð 279.626 kr. Lögðu kærendur fram með kærunni endurgert skattframtal árið 1988, þar sem tillit var tekið til þessa, og nam fjárhæð vaxtagjalda til frádráttar í reit 87 366.588 kr. Fóru kærendur fram á, að útreikningur vaxtaafsláttar yrði byggður á þessu. Gögn þessi bárust skattstjóra þann 30. ágúst 1988 skv. móttökuáritun hans.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 20. september 1988, og vísaði henni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 98. gr. laganna væri lokið. Í auglýsingu, dags. 29. júlí 1988, er birst hefði í 88. tbl. Lögbirtingablaðs, dags. 29. júlí 1988, hefði verið tilkynnt um lok álagningar gjaldárið 1988. Kærufrestur hefði því runnið út 27. ágúst 1988. Kæran, sem dagsett væri 25. ágúst 1988 og móttekin 30. s.m., væri skv. þessu of seint fram komin. Því bæri að vísa henni frá.

Með kæru, dags. 12. október 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í kærunni segir svo:

„Við viljum í þessu sambandi benda á að kæra okkar var póstlögð þann 26. ágúst, þótt hiín hafi ekki borist í hendur skattstjóra fyrr en þann 30. ágúst. Samkvæmt bréfi Skattstofunnar í Reykjavík rann kærufrestur út 27. ágúst, sem var laugardagur. Samkvæmt framansögðu hefði kæran átt að berast embættinu í hendur mánudaginn 29. ágúst enda töldum við að kærufrestur framlengdist sjálfkrafa bæri síðasta skiladag upp á frídag.

Þar sem meðfylgjandi kæra getur varðað skjólstæðing okkar töluverðri fjárhæð, förum við fram á að hún verði tekin til greina þrátt fyrir þá seinkun sem varð á afhendingu hennar.“

Með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með vísan til skýringa kærenda er hinum kærða frávísunarúrskurði skattstjóra hrundið og kæran tekin til efnismeðferðar. Eftir atvikum og að virtum málsgögnum er fallist á kröfu kærenda um ákvörðun vaxtaafsláttar á grundvelli þeirrar fjárhæðar vaxtagjalda til frádráttar, sem tilgreind er í hinu endurgerða skattframtali. Með vísan til þessa og bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 49/1987, eins og því var breytt með lögum nr. 92/1987 ákveðst vaxtaafsláttur gjaldárið 1988 105.950 kr. er skiptist að jöfnu milli kærenda eða 52.975 kr. í hlut hvors um sig.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja