Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 68/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. l.ml. — 100. gr. 8. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Áætlun skattstofna — Síðbúin framtalsskil — Álag á áætlaða skattstofna — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Frávísun vegna vanreifunar — Vítaleysisástæður — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Kæruúrskurður — Endurákvörðunarheimild skattstjóra

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 24. ágúst 1988, og boðað, að greinargerð yrði send síðar. Þess var getið, að framtalsskil hefðu tafist vegna annríkis á skrifstofu umboðsmannsins svo sem nánar var lýst. Þess var farið á leit, að álagi vegna síðbúinna framtalsskila yrði ekki beitt. Með kæruúrskurði, dags. 1. nóvember 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá vegna vanreifunar með því að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist. Samkvæmt málsgögnum hefur skattframtal kæranda árið 1988, sem er meðal þeirra, borist skattstjóra þann 28. nóvember 1988.

Með kæru, dags. 28. nóvember 1988, til ríkisskattanefndar hefur umboðsmaður kæranda skotið frávísunarúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Fer umboðsmaðurinn fram á, að skattframtal kæranda árið 1988 verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda hans gjaldárið 1988 án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Vegna síðastnefndrar beiðni gerir umboðsmaðurinn grein fyrir umfangi bókhaldsvinnu og ársreikningsgerðar fyrir umbjóðendur sína, en hann sé sá eini, er annist slíka þjónustu á A og nágrenni. Jafnframt er lýst erfiðleikum við að ljúka framtalsgerð innan framtalsfrests.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru svofelldar kröfur gerðar í málinu f.h. gjaldkrefjenda með bréfi, dags. 4. janúar 1989:

„Að ríkisskattanefnd neyti heimildar samkvæmt 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 og sendi kæruna til skattstjóra til uppkvaðningar kæruúrskurðar að nýju.“

Af hálfu kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra, dags. 1. nóvember 1988, verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. nóvember 1988, og er kæran rökstudd með skattframtali, sem ekki hefur sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra. Í málinu liggur fyrir afrit af bréfi skattstjóra, dags. 6. desember 1988, til kæranda, þar sem krafist er skýringa á tilgreindum atriðum í skattframtölum árin 1986—1988. Þá segir, að skattframtal árið 1988 bíði afgreiðslu sem skatterindi og verði afgreitt, þegar svör hafi borist. Ekki hefur skattstjóri fellt úr gildi fyrrnefndan kæruúrskurð sinn. Þá athugasemd verður að gera við þessa málsmeðferð skattstjóra, að endurupptaka gjaldárið 1988 varð eigi framkvæmd svo sem á stóð. Með vísan til 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kæru og skattframtali kæranda árið 1988 vísað til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja