Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 72/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun skattstofna — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Ítrekuð síðbúin framtalsskil

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi áætlun skattstofna af hendi skattstjóra að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Hinn 3. ágúst 1988 barst skattstjóra skattframtal kæranda árið 1988.

Með kæruúrskurði, dags. 28. október 1988, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1988 að viðbættu 25% álagi vegna síðbúinna framtalsskila skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda engar skýringar gefnar á þeim drætti, sem varð á framtalsskilunum af hálfu kæranda.

Með kæru, dags. 25. nóvember 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna kæranda vegna síðbúinna framtalsskila, verði fellt niður. Gerð er grein fyrir umfangi bókhaldsvinnu og ársreikningsgerðar umboðsmannsins, er sé eini aðilinn, sem annist þessa þjónustu á A og nágrenni. Jafnframt er lýst erfiðleikum við að ljúka framtalsgerð innan framtalsfrests.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru svofelldar kröfur gerðar í málinu f.h. gjaldkrefjenda með bréfi, dags. 4. janúar 1989:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við er ítrekuð krafan um að hið kærða álag standi óhaggað.“

Fram komnar skýringar á síðbúnum framtalsskilum þykja eigi gefa tilefni til þess að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í tilviki kæranda. M.a. liggur fyrir, að skattframtal kæranda árið 1987 barst eigi fyrr en 28. október 1987, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja