Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 103/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I   Lög nr. 75/1981 — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Vaxtaafsláttur — Vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Kæra síðbúin — Kærufrestur — Frávísun vegna síðbúinnar kæru

Málavextir eru þeir, að kærendur nutu ekki vaxtaafsláttar gjaldárið 1988. Vaxtagjöld til frádráttar í skattframtali þeirra árið 1988 voru 100.987 kr. en samanlagður tekjuskattsstofn þeirra 1.637.567 kr. Með kæru til skattstjóra, dags. 31. ágúst 1988, óskuðu kærendur eftir því, að réttur þeirra til vaxtaafsláttar yrði endurmetinn. Í kærunni til skattstjóra segir m.a.:

„Á framtali okkar 1988 var einungis getið vaxtagjalda af langtímaskuldum sem eftir stóðu um áramót. Okkur hefur nú skilist að vaxtagjöld af skammtímalánum vegna húsnæðisbyggingar gefi einnig rétt til vaxtaafsláttar.“

Þá var í kærubréfinu gefin sundurliðun á vaxtagjöldum alls að fjárhæð 69.712 kr. en síðan segir m.a. í því:

„Að meðtöldum kostnaði á framtali, 100.987, voru vextir, verðbætur og lántökukostnaður okkar vegna húsnæðisöflunar 170.699 kr. árið 1987.

Við óskum þess að réttur okkar til vaxtaafsláttar verði endurmetinn í ljósi þessa.“

Skattstjóri kvað upp úrskurð í máli kærenda þann 20. september 1988 og vísaði kærunni frá sem of seint fram kominni. Kærufrestur hefði runnið út þann 27. ágúst 1988, en kæran hefði verið dags. og móttekin 31. sama mánaðar.

Kærendur hafa skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kærubréfi, dags. 18. október 1988. Vísað er til kæru til skattstjóra og ítrekuð ósk um, að réttur kærenda til vaxtaafsláttar verði endurmetinn í ljósi þar til greindra upplýsinga. Segja kærendur, að ókunnugleiki þeirra hafi valdið því að ekki var kært til skattstjóra fyrir lok kærufrests.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir atvikum þykir mega hnekkja frávísunarúrskurði skattstjóra og er staðfestingarkröfu ríkisskattstjóra á þeim úrskurði hrundið. Byggja þykir mega á upplýsingum kærenda um vaxtagjöld til frádráttar hjá þeim alls 170.699 kr. á árinu 1987 vegna byggingar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Að teknu tilliti til þess og með vísun til ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 49/1987 um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, ákvarðast vaxtaafsláttur hjá kærendum gjaldárið 1988 alls 22.542 kr. og skiptist sú fjárhæð til helminga milli kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja