Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 105/1989

Gjaldár 1987

Reglugerð nr. 151/1986 —11. gr.   Lög nr. 75/1981 - 96. gr.   Lög nr. 14/1965 - 2. gr. 3. mgr.  

Launaskattur — Launaskattsskylda — Iðnaður — Offsetprentun — Silkiprentun — Ljósritun — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan

Kærð er álagning launaskatts gjaldárið 1987 vegna launa 1986 og er gerð sú krafa í kæru til ríkisskattanefndar „að álagður launaskattur verði felldur niður frá 1. mars 1986“. Til stuðnings þeirri kröfu er á það bent að kærandi og eiginkona hans reki einkafirma undir nafninu

„A. s.f.“. Starfseminni megi skipta í þrjá eftirtalda flokka. Offsetprentun, sem sé um 50% af veltu, silkiprentun um 40% af veltu og ljósritun um 10% af veltu. Við álagningu iðnlánasjóðsgjalds hafi skattstjóri litið á starfsemina sem iðngrein. Þá hafi allar vélar verið keyptar án sölugjalds og tolla, þar sem nefnt félag hafi fullnægt þeim skilyrðum sem sett séu vegna samkeppnisiðnaðar. Loks er þess getið að kærandi sé í Félagi íslenskra prentsmiðjueigenda og launaskattur hafi ekki verið lagður á aðila þess félags í þessari starfsgrein.

Með hinum kærða úrskurði hafði skattstjóri vísað frá kröfum kæranda með því að hann hefði enga grein gert fyrir skiptingu vinnulauna milli iðnaðar og þjónustu, en líta yrði svo á að einungis silkiprentun falli undir iðnað samkvæmt 2. og 3. kafla í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Ljósritun teljist hins vegar til 8. kafla hennar.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1988 fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda að því leyti sem um iðnað er að ræða.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar á launaframtali hans 1987 án þess að hafa áður krafið hann um skýringar á einstökum liðum þess, en eigi bar framtalið nokkuð það sjálft með sér sem gæfi tilefni til breytingarinnar. Verður því eigi hjá öðru komist en ómerkja hina kærðu breytingu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja