Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 204/1989

Gjaldár 1988

Reglugerð nr. 24/1989   Lög nr. 49/1987 — 10. gr.   Lög nr. 46/1987   Lög nr. 49/1985   Lög nr. 75/1981 — 68. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1.ml.  

Skattafsláttur — Skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðar — Húsnæðissparnaður — Húsnæðissparnaðarreikningur — Innborgun á húsnæðissparnaðarreikning — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Niðurfellingarhlutfall — Leiðrétting skattframtals — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Frávísun vegna síðbúinnar kæru

Málavextir eru þeir, að kærendur skiluðu staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1988. Var skattframtalið lagt til grundvallar við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988.

Með kæru, dags. 27. ágúst 1988, til skattstjóra fóru kærendur fram á, að sú leiðrétting yrði gerð á skattframtali þeirra árið 1988, að innlegg þeirra á húsnæðissparnaðarreikninga 200.600 kr. hjá hvoru um sig yrðu færð í reiti 90 í framtalinu. Samtala þessara fjárhæða ásamt vöxtum og verðbótum á höfuðstól fyrra árs kæmi greinilega fram í eignahlið framtalsins.

Með kæruúrskurði, dags. 20. september 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing, dags. 29. júlí 1988, hefði birst í 88. tbl. Lögbirtingablaðs, dags. 29. júlí 1988. Kærufrestir hefði því runnið út þann 27. ágúst 1988. Kæran, sem dagsett væri 27. ágúst 1988, hefði borist skattstjóra þann 31. s.m. Hún væri því of seint fram komin og bæri að vísa henni frá af þeim sökum.

Af hálfu kærenda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. október 1988, og er krafist fyrrnefndrar leiðréttingar á skattframtalinu, þ.e. færslu fjárhæða innleggja á húsnæðissparnaðarreikninga á framtalið. Í kærunni segir svo:

„Málavextir eru þeir, að á liðnu sumri vöknuðu með mér grunsemdir um það, að mér kynni að hafa láðst að greina sérstaklega á þar til ætluðum reitum á bls. 2 og 3 í framtali, innlegg okkar hjóna á sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga, sem til var stofnað með lögum árið 1984. Þessi sömu innlegg koma að sönnu fram á eignahlið framtals, en þar innifalin í samtölu inneignar á umræddum reikningum við síðustu áramót.

Vegna þessa snéri ég mér símleiðis til skattstofunnar í Reykjavík og spurðist fyrir um það, hvernig standa bæri að leiðréttingu þessari, því þótt þessi feill í framtali geti einn Ut af fyrir sig ekki komið í veg fyrir sérstakan skattafslátt, myndi rétt útfylling a.m.k. firra mig óþarfa eftirrekstri vegna þessa máls. Því var svarað, að þetta fengist aðeins lagfært með kæru og ekki væri unnt að eiga við málið fyrr en kærufrestur hefði verið auglýstur.

Sæll í minni trú á að þetta væru eðlileg vinnubrögð fór ég í orlof og vaknaði upp á síðasta degi umrædds frests og sendi inn ósk um leiðréttingu.

Skattstjórinn í Reykjavík hefur síðan úrskurðað, að með því að þessi ósk hafi ekki borist honum í hendur fyrr en 31. ágúst en kærufrestur rann út 27. ágúst, komi kæra „vegna álagðra gjalda ársins 1988“ ekki til skoðunar og vísist frá.

Nú er það svo, að ég hefi ekki kært álagningu opinberra gjalda, heldur einungis óskað eftir því, að augljós villa, sem ugglaust hefur komið fram í tölvuvinnslu við samanburð framtals við framtal fyrra árs, verði leiðrétt. Alkunna er, að við þessir ríflega 100 einstaklingar, sem munum hafa glapist til að telja að treysta mætti lögum og jafnframt talið lagaskyldu á okkur að viðhalda sparnaði á umræddum reikningum, teljum að ríkissjóði sé skylt að standa við sitt. Það var hins vegar ekki efni kæru minnar enda hefur Skattstjórinn í Reykjavík úrskurðað annað mál þar sem hafnað er frádrætti í samræmi við lög og reglur. Sá þáttur málsins mun í meðferð á fleiri stigum stjórnsýslunnar. Erindið snéri einungis að því, að tiltekin atriði yrðu rétt færð til bókar á framtali, þótt eðli málsins samkvæmt sé áskilinn réttur til þess að fá endurgreiðslur í eða utan skattkerfis í samræmi við ákvæði laga um húsnæðissparnað.

Ég vil því með bréfi þessu óska eftir því við ríkisskattanefnd, að hún með vísan til framanritaðs fallist á erindi mitt og úrskurði að umræddar upplýsingar verði færðar á viðeigandi stað í framtali og úrvinnslugögnum skattstjórans í Reykjavík.“

Með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir atvikum er kæran tekin til efnisúrlausnar. Fallist er á kröfu kærenda. Tekið skal fram, að umkrafin leiðrétting leiðir eigi til breytinga á opinberum gjöldum kærenda gjaldárið 1988 vegna ákvæða laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, en niðurfellingarhlutfall tekjuskatts og útsvars kærenda er 100%.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja