Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 25/1990

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 21. gr. 1. mgr. 1. og 2. ml. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl.  

Land — Landbætur — Eignarnám — Eignarnámsbætur — Dreifing skattskylds söluhagnaðar — Söluhagnaður — Bújörð — Vegagerð ríkisins — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Búrekstrarlok — Starfslok — Starfslokafrádráttur — Frádráttarheimild — Sönnun

Málavextir eru þeir, að í framhaldi af bréfi sínu, dags. 7. desember 1987, endurákvarðaði skattstjóri með bréfi, dags. 8. janúar 1988, áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1986 vegna tekjufærslu hagnaðar af sölu jarðar 501.009 kr. og álagningar á landbætur 78.717 kr. frá Vegagerð ríkisins, er fallið hafði niður. Í kæru kærenda, dags. 1. febrúar 1988, var farið fram á dreifingu landbótanna á 5 ár samkvæmt heimild 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða 15.743 kr. hvert ár. Þá var farið fram á frádrátt skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breytingu á fyrrnefndu lögunum. Með kæruúrskurði, dags. 19. febrúar 1988, féllst skattstjóri á skattlagningu landbótanna á 5 árum svo sem krafist hafði verið. Kröfunni um starfslokafrádrátt vísaði skattstjóri hins vegar frá með því að engar upplýsingar lægju fyrir um það atriði. Skattstjóri benti á, að hin kærða breyting væri vegna gjaldársins 1986, en á framtali árið 1987 væri reiknað endurgjald hærra en á framtali árið 1986. Aðrar launatekjur væru ekki á framtölunum.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. mars 1988. Kæran er svohljóðandi:

„Kæra vegna álagningar tekjuskatts og útsvars hjá A, og B, í C-sýslu, á árinu 1987, vegna söluhagnaðar af bújörð, en jörðina seldum við syni okkar á árinu 1984 í árslok. Þegar salan var gerð var okkur ókunnugt um að reikna þyrfti söluhagnað af jörðinni þar sem hún nánast var afhent syni okkar D, sem tekið hefur við búi af okkur og hafði áður búið með okkur í fjölda ára.

Við hjónin erum bæði fædd 19.. og því orðin .. ára þegar sala fer fram. Áður hafði undirritaður verið kransæðasjúklingur til fjölda ára og fór í hjartaaðgerð á árinu 1983. Það skal tekið fram að undirritaður fékk engvar ívilnanir vegna þessa.

Hér fylgja með bréf skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra, en hann hefur ekki viljað fallast á þá ósk okkar að fá að nýta 9. mgr. (sic) 30. gr. laga nr. 75/1981, sem fjallar um frádrátt frá tekjum manna vegna starfsloka. Það er í þessu tilfelli að nýta þennan frádrátt vegna annarra tekna okkar hjóna en söluhagnaðarins á árinu 1987 (gjaldár 1986). Tekjur okkar fyrir þann tíma hafa oftast verið litlar af fyrrgreindum orsökum og tekjur 1987 af landbúnaði voru svipaðar fyrra ári enda bústofn þá sá sami eða um 80-90 kindur á fóðrum. Við seldum síðan syni okkar 50 kindur sl. haust og fækkuðum kindum okkar niður í 22. Það má því með fullum rétti tala um raunveruleg starfslok séu þegar við seljum fyrirtæki okkar, sem í þessu tilfelli er bújörð. Rétt er að miða við áramótin sem starfslokatíma, þar sem tekjur af sauðfjárbúum falla allar til í nóvember til desember ár hvert. Jörðin var líka seld í desember 1984.“

Með bréfi, dags. 2. ágúst 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Þar sem skilyrðum 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 um starfslok á árinu 1985 var ekki fullnægt, sbr. ábendingu skattstjóra í kæruúrskurði sínum sem varðaði endurupptöku opinberra gjalda gjaldárið 1986, er af þeirri ástæðu gerð krafa um að kröfu kærenda verði synjað.“

Skilja verður kröfugerð kærenda svo, að þau fari fram á frádrátt annarra tekna sinna gjaldárið 1986 en nefnds skattskylds söluhagnaðar vegna jarðarsölu, sem eigi virðist ágreiningur um, á grundvelli 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þ.e.a.s. sem tekjur, er aflað hafi verið á síðustu tólf mánuðunum, áður en látið var af störfum vegna aldurs. Þegar litið er til framtalsgagna gjaldárið 1987, er liggja fyrir í málinu, þ.á m. landbúnaðarskýrslu vegna rekstrarársins 1986, verður eigi séð, að starfslok hafi orðið á því ári þannig að réttur til umrædds frádráttar tekjuárið 1985 hafi að neinu leyti stofnast. Verður því að synja kröfum kærenda. Rétt þykir að vekja athygli á því varðandi skattlagningu landbóta frá Vegagerðinni, að skattstjóri hefur eigi gengið eftir skattalegu uppgjöri bótanna, eftir reglum um söluhagnað, sbr. 21. gr. laga nr. 75/1981, svo sem rétt hefði verið og hníga því líkur að því að kærendur séu ofskattaðir að því er þær varðar. Með því að enginn ágreiningur er um þennan þátt og hann óupplýstur verður eigi við þessu haggað í úrskurði þessum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja