Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 225/1989

Gjaldár 1988

Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Hagstofa Íslands — Þjóðskrá — Dvalartími — Flutningsvottorð — Samnorrænt flutningsvottorð — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda

Með aðilum máls þessa er ágreiningur um hvernig haga beri skattlagningu á kæranda gjaldárið 1988 vegna tekna er hann aflaði sér hér á landi tekjuárið 1987. Taldi skattstjóri í því sambandi að ákvarða bæri kæranda skatta svo sem hann bæri hér á landi takmarkaða skattskyldu. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt skráningu Hagstofu Íslands hafi kærandi komið til landsins 28. júlí 1987 og flutt burt 8. febrúar 1988 og hefði hann því dvalið skemur en 183 daga á árinu 1987 á landinu. Umboðsmaður kæranda fullyrðir hins vegar að kærandi hafi komið hingað til lands 28. júlí 1986 og leggur hann fram gögn því til stuðnings. Fer hann fram á að álögð opinber gjöld verði felld niður.

Ríkisskattanefnd hefur borist svofelld yfirlýsing Hagstofu Íslands, dags. 14. mars 1989: „Hér með er staðfest, að X., sænskur ríkisborgari, fluttist til Íslands 28. júlí 1986, samkvæmt samnorrænu flutningsvottorði, sem er í vörslu Þjóðskrárinnar. Þau mistök hafa hins vegar orðið við skráningu, að flutningstími er þar talinn 28/7 1987. Verður þetta atriði lagfært í Þjóðskránni nú þegar.“

Með vísan til yfirlýsingar Hagstofu Íslands, dags. 14. mars 1989, er fallist á kröfu kæranda í máli þessu og álögð gjöld felld niður, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja