Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 366/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 106. gr. 1. og 3. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Ítrekuð síðbúin framtalsskil

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi á hina áætluðu stofna skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 24. ágúst 1988, og boðað, að greinargerð yrði send síðar. Þess gat umboðsmaðurinn, að annríki á skrifstofu hans hefði valdið því, að ekki hefði reynst unnt að skila skattframtali í framtalsfresti svo sem nánar var lýst. Hann fór fram á, að álagi yrði ekki beitt vegna síðbúinna skila framtalsins, en lagt yrði kapp á að skila því sem fyrst. Með kæruúrskurði, dags. 1. nóvember 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var frávísunarúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. nóvember 1988, og fylgdi henni skattframtal kæranda árið 1988. Gerð var grein fyrir þeim drætti, sem varð á skilum framtalsins. Það hefðu einkum verið miklar annir á skrifstofu umboðsmannsins, enda eini aðilinn, sem veitti slíka þjónustu á A. og nágrenni. Farið var fram á, að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Með úrskurði dags. 12. desember 1988 vísaði ríkisskattanefnd kærunni ásamt skattframtali vegna álagningar gjaldárið 1988 til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981.

Skattstjóri kvað upp nýjan kæruúrskurð þann 6. janúar 1989 og féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1988 í stað áætlunar áður. Gerði hann nokkrar breytingar á framtalinu í hinum kærða úrskurði og er ekki ágreiningur um þær. Þá beitti skattstjóri heimild 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og bætti 25% álagi á skattstofna skv. framtalinu vegna hinna síðbúnu framtalsskila, enda þættu framkomnar skýringar á þeim drætti, sem varð á skilum framtalsins, ekki viðunandi. Skattframtal árið 1987 hefði t.d. ekki borist fyrr en 28. október 1987.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. janúar 1989. Segir svo í kærunni:

„Ástæður þess, að framtal er svo síðbúið eru í meginatriðum eftirfarandi. X. h/f, sem séð hefur um bókhald og gerð ársreiknings fyrir Y. s/f, er eini aðilinn, sem veitir þessa þjónustu á A. og í nágrenni.

Viðskiptamenn X. h/f eru milli 40 og 50 fyrirtæki og einstaklingar með rekstur. Það er því augljóst að ekkert má útaf bera til þess að halda framtalsskilum innan tímamarka. Þetta hefur þó tekist að mestu á undanförnum árum, að frátöldum árunum 1986 og 1987.

Áður hefur í kæru verið gerð grein fyrir alvarlegri bilun í tölvubúnaði á árinu 1985, sem olli miklum töfum á vinnslu, sem þó var að mestu búið að vinna upp á árinu 1987.

Með tilkomu laga um staðgreiðslu skatta í ársbyrjun 1988 komu inn mjög aukin verkefni, sem ekki var hægt að fresta. Á ég þar við uppsetningu launakerfa, ráðgjöf og leiðbeiningar til fastra viðskiptamanna okkar og fjölmargra annarra varðandi staðgreiðsluna. Við töldum svo mikilvægt, að vel væri staðið að hinu nýja skattkerfi hjá launagreiðendum, að það réttlætti að vinnu við framtöl seinkaði.

Af þessum ástæðum m.a. hafa skattaskil dregist meir en góðu hófi gegnir. Hins vegar teljum við, að vinna v/ársins 1988 sé það vel á veg komin, að ekki þurfi að koma til þess að skattaskil á árinu 1989 dragist.“

Með bréfi, dags. 31. maí 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við er ítrekuð krafa um að hið kærða álag standi óhaggað.“

Fram komnar skýringar á síðbúnum framtalsskilum þykja eigi gefa tilefni til þess að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í tilviki kæranda. M.a. liggur fyrir, að skattframtal hans árið 1987 barst eigi fyrr en 28. október 1987, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 121, 12. apríl 1988. Þá var skattframtal árið 1986 einnig síðbúið.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja