Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 684/1989

Úrskurður rskn. nr. 684/1989

Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II.   Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður  

Húsnæðisbætur — Fyrri íbúðareign — Félagsleg íbúð — Fyrsta íbúðarhúsnæði — íbúðarhúsnæði

Málavextir eru þeir, að kærendur sóttu um húsnæðisbætur með umsóknum, dags. 16. mars 1988. Kom þar fram, að þau höfðu byrjað byggingarframkvæmdir að X., Reykjavík, þann 10. júlí 1987. Í umsóknunum kom og fram, að þau hefðu átt íbúð tímabilið 12. október 1975 til 2. júní 1981. Sú íbúð hefði verið í Vestmannaeyjum og verið seld á lágu verði. Hefði verið keypt íbúð að Y., Reykjavík, þann 21. október 1985 af Verkamannabústöðum í Reykjavík.

Ekki voru kærendum ákvarðaðar húsnæðisbætur við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Með kæru, dags. 31. ágúst 1988, krafðist umboðsmaður kærenda þess, að þeim yrðu ákvarðaðar húsnæðisbætur, þar sem fyrri íbúðir kærenda hefðu verið félagslegar íbúðir og teldust því ekki til íbúðakaupa í þessu sambandi. Með bréfum, dags. 28. desember 1988, tilkynnti skattstjóri kærendum, að umsóknum þeirra um húsnæðisbætur hefði verið synjað, vegna fyrri íbúðareignar, enda skipti ekki máli í þessu sambandi, þótt um félagslegar íbúðir hefði verið að ræða.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. febrúar 1989. Krefst hann húsnæðisbóta til handa kærendum með skírskotun til rökstuðnings í kæru, dags. 31. ágúst 1988, til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 2. ágúst 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Eftir atvikum er fallist á að kæran fái efnismeðferð. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Staðfesta ber synjun skattstjóra um húsnæðisbætur kærendum til handa, enda liggur fyrir að umrædd nýbygging við X., Reykjavík er eigi fyrsta íbúðarhúsnæði kærenda sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, eins og staflið þessum var breytt með 9. gr. laga. nr. 92/1987.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja