Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 702/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 4. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. 5. tl. — 38. gr. 7. tl.  

Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Reiknað endurgjald — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Rekstrartap — Rekstrartap myndað með reiknuðu endurgjaldi — Stofnkostnaður — Rekstrarkostnaður — Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrningarhlutföll — Rekstrartap yfirfæranlegt

Málavextir eru þeir, að með bréfum, dags. 27. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kærendum, að reiknað endurgjald þeirra 240.000 kr. hjá kæranda, A., og 360.000 kr. hjá kæranda, B., hefði verið fellt niður, þar sem óheimilt væri að mynda tap með gjaldfærslu reiknaðs endurgjalds gjaldárið 1988, sbr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Lækkaði skattstjóri yfirfæranlegt tap kærenda í 161.911 kr. hjá kæranda, A., og um 232.817 kr. hjá kæranda, B.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 26. ágúst 1988, og því haldið fram, að um mismunun væri að ræða á „skattlausu ári“. Þá kom fram, að reiknað endurgjald kærenda hefði átt að undanskiljast rekstrargjöldum. Hér væri ekki um að ræða endurgjald í eigin atvinnurekstri heldur sundurliðuð laun vegna vinnu við stofn- og standsetningu fyrirtækja kærenda. Ættu upphæðir þessar að færast sem stofnkostnaður, enda væri ekki um að ræða frádrátt vegna vinnu annarra en trésmiðs 35.000 kr. í öllum stofnkostnaði. Hér væri um vinnu að ræða, sem öll hefði verið innt af hendi fyrir upphaf atvinnustarfsemi þeirrar, sem rekstrarkostnaður tæki síðan tillit til. Umboðsmaðurinn benti og á, að skattstjóri hefði ekki tekið tillit til fjármagnsgjalda við ákvörðun yfirfæranlegs taps. Hann krafðist þess, að niðurstöður ættu að vera þær, sem fram kæmu í framtali, þ.e. yfirfæranlegt tap 512.663 kr. hjá kæranda, A., og 758.945 kr. hjá kæranda, B.

Með kæruúrskurði, dags. 4. október 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda með þeirri undantekningu, að hann leiðrétti yfirfæranlegt tap kærenda til hækkunar vegna fjármagnsgjalda í 272.663 kr. hjá kæranda, A., og í 398.945 kr. hjá kæranda, B. Skattstjóri skírskotaði til þess, að skv. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 væri manni, er bæri að telja sér til tekna reiknað endurgjald í framtali ársins 1988 vegna tekjuársins 1987 skv. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, óheimilt að mynda tap vegna þessa í rekstri sínum. Vegna vinnu við stofn- og standsetningu fyrirtækis bæri manni að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 með sama hætti og vegna annarrar vinnu sinnar í þágu atvinnurekstrarins. Reiknað endurgjald væri frádráttarbært frá tekjum skv. 1. tl. 31. gr. s.l. Sá kostnaður, sem kærendur gætu um í kæru, væri ekki stofnkostnaður skv. 5. tl. 32. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. október 1988. Kæran er svohljóðandi:

„Ég kæri hér með til yðar þá ákvörðun skattstofunnar í Reykjavík að lækka millifæranlegt tap á milli áranna 1987—1988 hjá ofanrituðum umbjóðendum mínum sem svarar reiknuðum launum þeirra á árinu 1987. Ákvörðun skattstofu er byggð á ákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 þar sem segir að óheimilt sé að mynda tap með því að reikna sér endurgjald af sjálfstæðri starfsemi.

Rekstrarreikningar umbjóðenda minna sýna hvað til gjalda er fært á árinu 1987. Allir þessir gjaldaliðir til samans mynda gjöld ársins sem eru mun hærri en tekjurnar. Umbjóðendur mínir telja reiknuð laun þeirra alls ekki mynda þetta tap frekar en aðrir gjaldaliðir.

Það sem myndar þetta mikla tap þeirra er hlutfallslega mjög háir gjaldaliðir miðað við tekjur ársins.

Til gjalda er færður stofnkostnaður kr. 109.021,00 hjá A. og kr. 163.532,00 hjá B. sem er 29.7% og 30.9%. Þó svo þau megi gjaldfæra þennan útgjaldalið þá fara þau hér með fram á leyfi til að breyta því og eignfæra hann og afskrifa á fimm árum.

Húsaleiga er 46.34% af heildarveltu hjá A. og 48.17% hjá B.

Fjármögnunarleigan er 19.14% af heildarveltu hjá A. en 19.9% hjá B.

Afskriftir eru 16.79% af heildarveltu hjá A. og 17.45% hjá B.

Ef eyrnamerkja á einhverja gjaldaliði öðrum fremur sem mynda tap ársins þá eru það þessir framanrituðu liðir mun frekar en reiknuðu launin.

Ég geri mér grein fyrir því að hér geti verið um „hártogun“ að ræða. Ef það er álit nefndarinnar að svo gæti verið þá er spurning umbjóðenda minna hver er að toga. Umbjóðendur mínir líta svo á að reiknuðu laun þeirra myndi ekki það tap sem fram kemur á rekstri þeirra á árinu 1987. Tap þetta myndast fyrst og fremst af því að þau hefja rekstur 19. júlí 1987 og eins og alkunna er þá er alltaf kostnaðarsamt að hefja rekstur því venjulega sýna gjöldin sig mun fyrr en tekjurnar.

Einnig vil ég vekja afhygli á því að það getur ekki hafa verið tilgangur löggjafans að mismuna svo þegnum þessa lands eins og fram kemur með þessari ákvörðun skattstofunnar.

Umbjóðendur mínir hljóta og verða að eiga rétt á því að vera meðhöndluð á sambærilegan hátt og launþegar. Þar sem það er augljóst að þau telja sér til tekna hóflega áætluð laun við atvinnurekstur sinn þá beri skattyfirvöldum skylda til að samþykkja framtalið eins og það liggur fyrir og heimila þeim millifærslu á öllu því tapi sem þar kemur fram yfir á næsta ár.

Umbjóðendur mínir telja að líta beri svo á ákvæði 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 að það sé til að fyrirbyggja að þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur geti notfært sér aðstöðu sína, en ekki að ákvæði þetta megi túlka á þann hátt að skattþegnum sé mismunað.

Í lokin vil ég ítreka þann skilning umbjóðenda minna að það séu ekki reiknuðu laun þeirra sem mynda tap ársins 1987 heldur séu það áður nefndir gjaldaliðir á rekstrarreikningi sem myndi það. Og einnig sú staðreynd að þau hófu reksturinn þann 19. júlí 1987.“

Með bréfi, dags. 18. október 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra um lækkun reiknaðs endurgjalds kærenda verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Fallist er á að kærendum sé heimilt að eignfæra stofnkostnað þann, sem færður er til gjalda í ársreikningum þeirra og afskrifa hann í samræmi við gildandi löggjöf um afskriftir á hverjum tíma.“

Með skírskotun til 7. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og kröfugerðar ríkisskattstjóra í máli þessu, er fallist á kröfu kærenda um eignfærslu og fyrningu stofnkostnaðar. Hins vegar þykir bera að staðfesta niðurfellingu gjaldfærðs reiknaðs endurgjalds með skírskotun til 4. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Yfirfæranlegt tap kæranda, A., verður 185.446 kr. og kæranda, B., 268.119 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja