Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 745/1989

Gjaldár 1988

Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr. 2. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II.   Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður  

Húsnæðisbætur — Byggingarsamningur — Byggingarsamvinnufélag — Fyrsta íbúðarhúsnæði — íbúðarhúsnæði — Byggingarstig — Lögskýring

Málavextir eru þeir, að kærandi sótti um húsnæðisbætur til skattstjóra með umsókn, dags. 8. mars 1988, vegna íbúðar að X., Reykjavík, sem afhent hefði verið haustið 1985. Fram kom, að kærandi hefði gert byggingarsamning við byggingarsamvinnufélagið Y. vegna íbúðar þessarar. Skilja varð umsóknina svo, að kærandi teldi sig uppfylla skilyrði fyrir húsnæðisbótum vegna íbúðar þessarar, þar sem um væri að ræða byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota í fyrsta sinn á árunum 1984—1987.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umsókn um húsnæðisbætur hefði verið synjað. Það væri skilyrði fyrir bótum þessum, að um væri að ræða kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin nota í fyrsta sinn á árunum 1984—1987, sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, og bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987 svo og reglugerð nr. 76/1988, sbr. reglugerð nr. 118/1988. Skattstjóri vísaði til þess, að af skattframtölum kæranda sæist, að hann uppfyllti ekki greind skilyrði, þar sem skv. skattframtali 1984 hefðu innborganir vegna íbúðarkaupa verið hafnar á árinu 1983 eða fyrr.

Kærandi mótmælti synjun skattstjóra í kæru, dags. 28. ágúst 1988. Kvaðst kærandi hafa verið sett á biðlista hjá Y. og orðið að staðfesta með innborgun. Síðan hefðu liðið tvö ár, áður en bygging umrædds fjölbýlishúss hefði hafist. Vottorð Byggingafulltrúans í Reykjavík staðfestu þetta. Ljósrit vottorðs þess embættis fylgdi kærunni, dags. 27. júlí 1988, þar sem fram kom, að sökklar umrædds fjölbýlishúss voru teknir út 17. maí 1984 og það hefði verið gert fokhelt 30. nóv. 1984. Kærandi kvaðst hafa greitt innborgun til þess að halda sinni röð á biðlistanum.

Með úrskurði, dags. 25. janúar 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um húsnæðisbætur með skírskotun til bréfs síns, dags. 25. júlí 1988. Þá kom fram í úrskurðinum, að skv. upplýsingum frá Y. hefði samningur verið gerður á árinu 1982 en fyrsta greiðsla farið fram í febrúar 1982. Þegar um væri að ræða íbúðarhúsnæði, sem byggt væri á vegum Y. væru tímamörk miðuð við fyrstu innborgun.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. febrúar 1989. Kæran er svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir að A. gerir samning um byggingu íbúðar að X., 1982 og greiðir fyrstu innborgun. A þessum tíma var talið mjög eftirsóknarvert að gera slíka samninga vegna hins lága verðs, sem íbúðir Y. höfðu verið afhentar á, jafnvel þó svo að raunveruleg bygging hæfist ekki fyrr en löngu seinna. Í þessu dæmi liggur fyrir sbr. meðfylgjandi fokheldisvottorð að undirstöður byggingarinnar er ekki lokið fyrr en 17. maí 1984 og húsið fokhelt 30. nóvember 1984. Við teljum að undir eðlilegum kringumstæðum hefði samningur sem þessi ekki verið gerður fyrr en á árinu 1984. Með samningnum við Y. var umbjóðandi okkar að tryggja sér íbúðarhúsnæði í framtíðinni á hagkvæmu verði og því tilbúinn að fara í „biðröðina" með þessum hætti.

Við förum því fram á, að litið verði svo á, að kaup umrædds húsnæðis hafi farið fram 1984 þ.e. á því ári sem bygging hófst. Sú túlkun virðist einnig vera í anda Skattstjórans í Reykjavík en umbjóðandi okkar segir að aðrir húsbyggjendur á þessum stað hafi fengið umræddar húsnæðisbætur.“

Með bréfi, dags. 2. ágúst 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Mál þetta snýst um það, hvort líta beri svo á, að kærandi hafi eignast íbúð í fyrsta sinn á árunum 1984—1987 í skilningi bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987. Fjármálaráðherra hefur sett reglugerð skv. C-lið 69. gr. laga nr. 49/1987, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987 m.a. um það hvað teljist fyrsta íbúðarhúsnæði í eigu manns skv. lagaákvæði þessu. Er það reglugerð nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, sbr. br. á þeirri reglug. nr. 118/1988. Engin hliðstæð reglugerð hefur verið sett varðandi túlkun á nefndu bráðabirgðaákvæði II í fyrrnefndum lögum. Að virtum gögnum málsins og með hliðsjón af 2. mgr. 2. gr. nefndrar reglugerðar þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja