Úrskurður yfirskattanefndar

  • Arðstekjur, skipting milli hluthafa
  • Gjöf
  • Auðlegðarskattur
  • Álag

Úrskurður nr. 345/2015

Gjaldár 2010, 2011 og 2012

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 4. tölul., 11. gr. 1. mgr., 108. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXIII.   Lög nr. 2/1995, 20. gr. 2. mgr.   Lög nr. 138/1994, 12. gr.  

Kærandi færði til tekna í skattframtali sínu árið 2010 arðgreiðslu frá X Ltd. sem skráð var á Jersey. Ríkisskattstjóri taldi að virða bæri arðgreiðsluna að hluta sem gjöf frá foreldrum kæranda þar sem arðgreiðslan hefði ekki verið í samræmi við eignarhlut kæranda í X Ltd., þ.e. verið umfram eignarhlut hennar. Yfirskattanefnd taldi vafalaust að gerðu samþykktir félags greinarmun á rétti hluthafa til arðs bæri almennt að byggja á því við skattlagningu arðs, enda lægi þá fyrir áður en til arðsúthlutunar kæmi að hluthafi ætti ekki kröfu á hendur félagi til frekari arðs en leiddi af samþykktum. Öðru máli gegndi hins vegar væri ójöfn skipting arðs eingöngu byggð á samkomulagi hluthafanna sjálfra sín á milli um aðra réttarstöðu en leiddi af lögum og samþykktum, enda væri félagið jafnan ekki aðili að slíkum samningum og ekki bundið af þeim. Við skattlagningu arðs í slíkum tilvikum yrði því að byggja á meginreglu laga um jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta. Þar sem kærandi þótti ekki hafa sýnt fram á að foreldrar hennar hefðu ekki átt rétt til arðs í samræmi við eignarhlut sinn í X Ltd. var fallist á með ríkisskattstjóra að virða bæri hinar umdeildu greiðslur sem beina gjöf til kæranda að því marki sem þær voru umfram hlutafjáreign hennar í X Ltd. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á vantalinn auðlegðarskattsstofn var sömuleiðis hafnað með vísan til þess að engin grein hefði verið gerð fyrir raunvirði hlutafjáreignar kæranda í X Ltd., sem numið hefði verulegum fjárhæðum, í skattskilum hennar árin 2011 og 2012.

I.

Með kæru, dags. 27. nóvember 2014, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkiskattstjóra, dags. 28. ágúst 2014, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2010, 2011 og 2012. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtali árið 2010 9.651.600 kr. sem skattskylda gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á þeim forsendum að arðgreiðslu að fjárhæð 18.000.000 kr. frá erlendu félagi, X Ltd., á árinu 2009 bæri að hluta að virða sem gjöf til kæranda frá foreldrum hennar. Lækkaði ríkisskattstjóri framtalda arðgreiðslu frá félaginu í skattframtali kæranda árið 2010 til samræmis. Þá hækkaði ríkisskattstjóri stofn kæranda til viðbótarauðlegðarskatts gjaldárin 2011 og 2012 um 101.466.231 kr. fyrra árið og um 102.437.191 kr. það síðara að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 á þeim forsendum að kærandi hefði vantalið raunvirði hlutafjár í X Ltd. í skattframtölum sínum umrædd ár.

Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingar ríkisskattstjóra á skattframtali árið 2010 verði felldar úr gildi. Einnig er gerð krafa um að 25% álag á hækkun auðlegðarskattsstofns gjaldárin 2011 og 2012 verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Í skattframtölum sínum árin 2010, 2011 og 2012 færði kærandi til eignar hlutabréf í X Ltd. að nafnverði 1 kr. og til tekna arðgreiðslu frá félaginu að fjárhæð 18.000.000 kr. í skattframtali árið 2010. Í skattskilum sínum árin 2011 og 2012 gerði kærandi ekki grein fyrir útreikningi á raunvirði hlutabréfa í hinu erlenda félagi, sbr. greinargerð um viðbót við auðlegðarskattsstofn (RSK 3.23).

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 4. maí og 18. september 2012 og 30. apríl og 2. september 2013, og svarbréf kæranda, dags. 22. júní 2012 og 29. janúar, 11. júní og 18. september 2013, sbr. og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 11. apríl 2014, og andmælabréf kæranda, dags. 21. maí 2014. Rétt þykir að gera fyrst grein fyrir forsendum ríkisskattstjóra fyrir tekjufærslu gjafar í skattskilum kæranda árið 2010. Að svo búnu verður vikið að því kæruatriði sem snýr að álagsbeitingu vegna auðlegðarskatts.

Um tekjufærslu gjafar:

Við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra kom fram að kærandi væri eigandi að 15,46% hlut í X Ltd., en hlutafé félagsins væri að öðru leyti í eigu foreldra kæranda og tveggja bræðra hennar. Á árinu 2009 hefði félagið úthlutað hluthöfum arði að fjárhæð alls 54.000.000 kr. Þar af hefðu 18.000.000 kr. komið í hlut kæranda, þ.e. 9.651.600 kr. umfram eignarhlut hennar í félaginu. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til þeirra skýringa kæranda að foreldrar hennar, sem verið hefðu eigendur meiri hluta hlutafjár í X Ltd., hefðu afsalað sér arðgreiðslum frá félaginu á árinu 2009 og kosið að arðurinn gengi óskiptur til annarra hluthafa, þ.e. barna sinna. Fram kom að ríkisskattstjóra þætti umrædd ráðstöfun óvenjuleg og að til hennar hefði ekki komið í félagi þar sem hluthafar væru ekki bundnir fjölskylduböndum. Vísaði ríkisskattstjóri til 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og A-liðar 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og tók fram að þar sem ekki hefði verið farið með hina umdeildu úthlutun verðmæta úr X Ltd. umfram eignarhlut sem fyrirframgreiddan arf til kæranda og bræðra hennar yrði að líta svo á að um skattskylda gjöf eða örlætisgerning væri að ræða sem skattleggja bæri eftir umræddum ákvæðum.

Vegna þeirra sjónarmiða kæranda að arðgreiðslur úr félögum af þeim toga sem um ræðir væru heimilar að lögum á Jersey þar sem X Ltd. hefði verið skráð, benti ríkisskattstjóri á að meginregla hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga, sbr. lög nr. 2/1995 og 138/1994, væri sú að allir hluthafar skyldu hafa jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta, sbr. 2. mgr. 20. gr. hinna fyrrnefndu laga og 1. mgr. 12. gr. þeirra síðarnefndu. Frávik frá þeirri meginreglu þekktust í lögunum, en að baki þeim byggju þó ávallt rekstrartengdar forsendur, t.d. ef ójöfn skipting arðs væri sérstaklega ákveðin í samþykktum félags. Ekki yrði fallist á að hluthafar, sem kysu að koma hluta- eða einkahlutafélögum á fót á Jersey eða í öðrum ríkjum þar sem reglur hlutafélagaréttar væru frábrugðnar íslenskum reglum, gætu notið ríkari réttar hér á landi en þeir hluthafar sem stofnuðu félög hér á landi. Sú ákvörðun hluthafa að afsala sér arði veitti ekki öðrum hluthöfum ríkari rétt til arðs þegar engum rekstrarlegum skýringum á slíkri ráðstöfun væri til að dreifa. Þá yrði ekki fallist á með kæranda að skýr lagaheimild væri ekki fyrir skattlagningu gjafar í tilviki hennar, sbr. fyrrgreind ákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og A-liðar 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að framangreindri ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Vegna forsendna ríkisskattstjóra er tekið fram í kærunni að hvergi hafi komið fram af hálfu kæranda að hlutdeild foreldra kæranda í arðsúthlutun frá X Ltd. hafi átt að ganga óskipt til annarra hluthafa félagsins. Sé ranglega gefið í skyn í hinum kærða úrskurði að um hafi verið að ræða arð sem annars hefði gengið til foreldra kæranda, en hið rétta sé að ef foreldrar kæranda hefðu fengið arð greiddan hefði úthlutun X Ltd., þ.e. heildararðgreiðsla, verið ákveðin hærri sem því næmi. Þá sé órökstudd sú staðhæfing ríkisskattstjóra að arðsúthlutun X Ltd. hafi brotið gegn skattalögum. Af hálfu kæranda sé jafnframt byggt á því að ákvörðun ríkisskattstjóra gangi þvert á skattframkvæmd. Er í því sambandi vísað til umfjöllunar um afsal arfs í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra, dags. 13. janúar 2006, og til sjónarmiða sem Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, hafi viðrað í viðtali við útvarpsstöðina Bylgjuna 9. október 2014 varðandi skattalegar afleiðingar af ráðstöfun happdrættisvinnings til nákomins aðila. Kærandi telji að umrædd tilvik séu alveg sambærileg máli kæranda. Ekki verði því litið svo á að afsal réttinda, svo sem arðs, feli í sér gjafagerning nema arði sé ráðstafað eftir að upprunalegur eigandi hafi móttekið arðinn. Til stuðnings sjónarmiðum kæranda sé jafnframt vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er í kærunni vikið nánar að eðli hinna umdeildu tekna kæranda. Er bent á að hvergi í skattalögum sé fjallað um „arð umfram eignarhlut“ eins og það sé nefnt í úrskurði ríkisskattstjóra. Því verði ekki haldið fram jöfnum höndum í málinu að kærandi hafi fengið lögmæta arðsúthlutun og að hluti þeirrar úthlutunar hafi verið gjöf til kæranda. Tilvísun ríkisskattstjóra til 57. gr. laga nr. 90/2003 sé óskiljanleg þar sem byggt sé á því að um lögmæta arðsúthlutun hafi verið að ræða. Sé ríkisskattstjóri þannig að leita leiða til að koma fram skattlagningu með sama hætti og væri um óheimila arðsúthlutun að ræða úr einkahlutafélagi, sbr. 11. gr. laga nr. 90/2003, en lagaheimild skorti. Þeir hluthafar í hinu erlenda félagi, sem ekki hafi fengið arð greiddan, hafi ekki átt nein verðmæti eða tilkall til verðmæta sem þeim hafi verið unnt að ráðstafa til annarra hluthafa, enda hafi þeir ekki fengið neinn arð greiddan úr félaginu. Samkvæmt bæði íslenskum lögum og lögum á Jersey, þar sem X Ltd. sé skráð, sé heimilt að mismuna hluthöfum við úthlutun arðs. Hljóti hluthafar í erlendum félögum að vera í alveg sömu stöðu og hluthafar í íslenskum félögum. Kærandi byggi á því að skýrlega sé tilgreint í 11. gr. laga nr. 90/2003 hvað felist í hugtakinu arður. Sú túlkun ríkisskattstjóra, að greiðsla til kæranda falli ekki að öllu leyti undir ákvæði 11. gr. laganna, sé úr lausu lofti gripin og án lagastoðar.

Um álag vegna auðlegðarskatts:

Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun hækkaði ríkisskattstjóri stofn kæranda til viðbótarauðlegðarskatts gjaldárin 2011 og 2012 um 101.466.231 kr. fyrra árið og um 102.437.191 kr. það síðara á þeim forsendum að kærandi hefði vantalið raunvirði hlutafjár í X Ltd. í skattframtölum sínum umrædd ár, þ.e. ekki gert neina grein fyrir raunvirði hlutafjárins í fylgiskjali (RSK 3.23) með skattframtölunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 90/2003. Kom fram að við ákvörðun á hlutdeild kæranda í raunvirði hlutafjár í X Ltd. væri byggt á upplýsingum um eigið fé í ársreikningum félagsins fyrir árin 2009 og 2010 sem kærandi hefði lagt fram. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við hækkun auðlegðarskattsstofns kæranda gjaldárin 2011 og 2012 sem af þessu leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram að kæranda hefði mátt vera ljóst að henni hefði borið að gera grein fyrir raunvirði hlutafjár í félaginu í skattskilum sínum vegna auðlegðarskatts og að um verulega fjárhæð væri að ræða. Yrði því að telja að um verulegan annmarka á skattskilum kæranda væri að ræða og því ekkert tilefni til annars en að beita álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álags 25.366.558 kr. gjaldárið 2011 og 25.609.297 kr. gjaldárið 2012.

Í kæru til yfirskattanefndar er álagsbeitingu ríkisskattstjóra mótmælt. Er bent á að lagareglur um framtalsskyldu vegna erlendrar hlutabréfaeignar séu langt því frá skýrar og auðskiljanlegar. Þá sé um nýmæli í lögum að ræða og auðlegðarskattur sé tímabundinn skattur. Handvömm við skattskil sé skiljanleg þegar um sé að ræða nýjar skattareglur. Sé byggt á því af hálfu kæranda að henni verði ekki kennt um þá annmarka á skattframtölum árin 2011 og 2012 sem um ræðir.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram að kostnaður kæranda af rekstri málsins nemi 1.035.375 kr. vegna 33 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er þess getið í umsögn ríkisskattstjóra að framlagning endurrits á útvarpsviðtali við Skúla Eggert Þórðarson þann 9. október 2014 þyki ekki gefa tilefni til breytinga á hinum kærða úrskurði.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. janúar 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2015, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekað kröfur og sjónarmið kæranda.

IV.

Eins og fram er komið er kæruefnið í máli þessu tvíþætt. Varðar kæran annars vegar ákvörðun ríkisskattstjóra að virða tilfærða arðgreiðslu frá X Ltd. að fjárhæð 18.000.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2010 að hluta sem skattskylda gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða 9.651.600 kr. Hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2010 sem síðastnefndri fjárhæð nam og lækkaði fjármagnstekjuskattsstofn kæranda til samræmis. Hins vegar lýtur ágreiningur málsins að ákvörðun ríkisskattstjóra að bæta 25% álagi við hækkun viðbótarauðlegðarskattsstofns kæranda gjaldárin 2011 og 2012, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álagsins 25.366.558 kr. fyrra árið og 25.609.297 kr. það síðara, en ekki er deilt um hækkun viðbótarauðlegðarskattsstofns sem var til komin vegna hlutafjáreignar í X Ltd., eins og hér að framan er rakið. Víkur fyrst að tekjufærslu gjafar.

Um tekjufærslu gjafar:

Kærandi færði til tekna í skattframtali sínu árið 2010 arðgreiðslu frá X Ltd. að fjárhæð 18.000.000 kr., en umrætt félag er skráð á Ermasundseyjunni Jersey. Ákvörðun sína um að skattleggja bæri hluta arðgreiðslunnar eða 9.651.600 kr. sem gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 en ekki sem arð í skilningi 4. tölul. C-liðar sömu lagagreinar byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslan hefði ekki verið í samræmi við eignarhlut kæranda í félaginu. Benti ríkisskattstjóri á að heildarfjárhæð úthlutaðs arðs frá X Ltd. hefði numið 54.000.000 kr. á árinu 2009 og miðað við 15,46% eignarhlutdeild kæranda í félaginu hefði arðgreiðsla til hennar átt að nema 8.348.400 kr. Kærandi hefði því fengið greiðslu að fjárhæð 9.651.600 kr. umfram eignarhlut. Rakti ríkisskattstjóri að hlutafé X Ltd. væri að öllu leyti í eigu fjölskyldu kæranda, þ.e. meiri hluti hlutafjárins eða 53,62% væri í eigu foreldra kæranda og 46,38% hlutafjárins í eigu kæranda og tveggja bræðra hennar í jöfnum hlutföllum. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þeirra skýringa, sem fram komu af hálfu kæranda við meðferð málsins, að foreldrar kæranda hefðu afsalað sér arðgreiðslu frá X Ltd. og arðurinn því að öllu leyti runnið til kæranda og bræðra hennar. Tók ríkisskattstjóri fram að skipting arðsins þætti óvenjuleg og hefði ekki komið til nema vegna fjölskyldutengsla hluthafa. Vegna þeirra athugasemda kæranda, að arðgreiðslur X Ltd. væru í samræmi við lög þar sem félagið væri skráð, þ.e. á Jersey, tók ríkisskattstjóri fram að hluthafar, sem kysu að stofna félög sín erlendis þar sem hlutafélagalöggjöf væri frábrugðin íslenskri löggjöf, gætu ekki notið ríkari réttar hér á landi en þeir sem stofnuðu félög hér. Ákvörðun hluthafa um að afsala sér arði veitti almennt ekki öðrum hluthöfum ríkari rétt til arðs, en í tilviki X Ltd. væru engar rekstrartengdar skýringar á tilhögun arðgreiðslunnar, t.d. ákvæði í samþykktum félagsins um ójafna skiptingu arðs.

Samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast m.a. til skattskyldra tekna beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Í A-lið 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að gjafir, sem ekki séu í peningum, skuli skattstjóri meta til peningaverðs. Er tekið fram í reglugerðarákvæðinu að það teljist einnig til gjafa, ef menn afhendi einhverjar eignir í hendur ættingja sinna, tengdamanna eða annarra, án þess að greiðsla komi í staðinn, eða ástæða sé til að ætla, að endurgreiðslan sé aðeins fyrir nokkrum hluta eignarinnar. Skuli þá færa til tekna mismuninn á því endurgjaldi og áætluðu matsverði hinnar seldu eignar. Sé um eignaskipti að ræða verði að meta hvora tveggja eignina.

Skattyfirvöldum er almennt heimilt að leggja á það sjálfstætt mat, hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra, og eru skattyfirvöld þá ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við mat þetta þurfa skattyfirvöld í vissum tilvikum að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmæltri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í öðrum tilvikum kann að reyna beint á greiningu á efni tiltekins gernings, þannig að grafist er fyrir um hvert efni hans sé í raun, en heiti það, sem gerningnum er gefið, ræður ekki úrslitum ef það er annað en efnið gefur til kynna.

Samkvæmt gögnum málsins var starfsemi X Ltd. þau ár sem um ræðir fólgin í fjárfestingum og eignarhaldi hlutabréfa og fyrir liggur að félagið var að öllu leyti í eigu fjölskyldu kæranda, en eins og hér að framan greinir var meiri hluti hlutafjár félagsins eða 53,62% í eigu foreldra kæranda og 46,38% hlutafjárins í eigu kæranda og bræðra hennar í jöfnum hlutföllum. Er komið fram í málinu að kærandi og bræður hennar hafi eignast hlut sinn í félaginu vegna fyrirframgreiðslu arfs frá foreldrum sínum árið 2002. Við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra voru þær skýringar gefnar á tilhögun arðgreiðslna X Ltd. á árinu 2009 að foreldrar kæranda hefðu afsalað sér arðgreiðslum frá félaginu þar sem þau hefðu ekki verið í sérstakri fjárþörf og kosið að eigið fé félagsins yrði ekki lækkað með frekari arðgreiðslum, sbr. bréf umboðsmanns kæranda og foreldra kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 15. október 2012.

Samkvæmt íslenskri löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög er meginreglan sú að allir hlutir skuli hafa jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta nema annað sé ákveðið í samþykktum félags, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 12. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Eftir því sem næst verður komist gilda sambærilegar reglur um félög með takmarkaðri ábyrgð á Jersey (e. limited companys) þar sem X Ltd. var skráð, þ.e. meginregla um jafnan rétt hluta sem síðan er heimilt að víkja frá með ákvæðum í samþykktum eða öðrum sérstökum ráðstöfunum. Vafalaust er að sé gerður greinarmunur í samþykktum félags á rétti hluthafa til arðs ber almennt að byggja á því við skattlagningu samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, enda liggur þá fyrir áður en til arðsúthlutunar kemur að hluthafi á ekki kröfu á hendur félaginu til frekari arðs en leiðir af samþykktum. Öðru máli gegnir hins vegar sé ójöfn skipting arðs eingöngu byggð á samkomulagi hluthafanna sjálfra sín á milli um aðra réttarstöðu að þessu leyti en leiðir af lögum og samþykktum, enda er félagið jafnan ekki aðili að slíkum samningum og ekki bundið af þeim. Við skattlagningu arðs í slíkum tilvikum verður því að byggja á meginreglu laga um jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta. Við arðsúthlutun sætir hluthafi því skattlagningu þess arðs sem hann á rétt á samkvæmt samþykktum félags. Af þessu þykir jafnframt leiða að skattleggja beri ávinning annarra hluthafa af slíkum samningi, sem hefur í för með sér greiðslur vegna arðsúthlutunar umfram hlutafjáreign, sem gjöf í skilningi 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Af hálfu kæranda hefur ekki verið sýnt fram á það í málinu að hluthafar í X Ltd., sem samkvæmt framansögðu voru eigendur 53,62% hlutafjár í félaginu þegar til arðsúthlutunar kom á árinu 2009, hafi ekki átt rétt til arðs í samræmi við eignarhlut sinn í félaginu í samræmi við framangreint. Að þessu virtu og eins og málið liggur fyrir verður að fallast á með ríkisskattstjóra að virða beri hinar umdeildu greiðslur til kæranda í tengslum við arðsúthlutun X Ltd. sem beina gjöf til hennar samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að því marki sem þær voru umfram hlutafjáreign kæranda í hinu erlenda félagi. Geta sjónarmið í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra frá 13. janúar 2006, sem lúta að höfnun arfs og meðferð erfðafjárskatts í því sambandi, sbr. lög nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, ekki leitt til annarrar niðurstöðu í málinu. Verður því að hafna kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði.

Um álag vegna auðlegðarskatts:

Skattframtölum kæranda árin 2011 og 2012 fylgdu greinargerðir um viðbót við auðlegðarskattsstofn (RSK 3.23). Í greinargerðunum var þó ekki gerð grein fyrir raunvirði eignarhlutar kæranda í X Ltd. Með hinum kærða úrskurði hækkaði ríkisskattstjóri stofn kæranda til auðlegðarskatts um 101.466.231 kr. gjaldárið 2011 og um 102.437.191 kr. gjaldárið 2012 að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 á þeim grundvelli að kærandi hefði vantalið raunvirði eignarhlutar síns í hinu erlenda félagi. Er deilt um álagsbeitingu ríkisskattstjóra í málinu, en ekki er ágreiningur um greinda hækkun á auðlegðarskattsstofni kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattframtölum kæranda umrædd ár, þar sem engin grein var gerð fyrir raunvirði hlutafjáreignar kæranda í X Ltd., sem nam verulegum fjárhæðum, þykir kærandi hvorki hafa sýnt fram á að tilvik hennar sé þess eðlis að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né þykja að öðru leyti komnar fram nægar ástæður til að falla frá beitingu álags samkvæmt heimildarákvæðum 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

Um málskostnað:

Kærandi hefur gert kröfu um að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja