Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 38/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 32/1978 — 126. gr. — 130. gr. 3. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 56. gr. — 91. gr. 1. og 3. mgr. — 95. gr. 2. mgr.  

Hlutafélag — Samruni — Samruni hlutafélaga — Samrunadagur — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu hlutafélags — Félagsslit — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Yfirfærsla skattaréttarlegra skyldna og réttinda — Lögaðili — Framtalsskylda — Skattskylda — Skattskylda hlutafélags — Áætlun — Áætlun skattstofna — Ársreikningur — Upphafsefnahagsreikningur — Afskráning úr hlutafélagaskrá

Skattstjóri áætlaði kæranda, sem er hlutafélag, gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1988 með því að skattframtali hefði eigi verið skilað af hans hálfu. Með hinum kærða úrskurði synjaði skattstjóri þeirri kröfu, að gjöldin yrðu felld niður, þar eð kærandi hefði verið sameinaður öðru hlutafélagi 28. desember 1987. Byggði skattstjóri á því, að ekkert hefði komið fram af hálfu kæranda um það „á hvern hátt samruni félaganna átti sér stað, hvernig verðlagningu hlutabréfa skyldi háttað o.s.frv...“.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. nóvember 1988. Er þess krafist, að hin álögðu gjöld á kæranda verði felld niður. Er sú krafa studd svohljóðandi rökstuðningi:

„X hf. var algjörlega sameinaður Y hf. í lok ársins 1987. Uppgjörin fyrir Y hf. og X hf. var skilað á réttum tíma. Þau voru heftuð saman, fyrst kom Y hf. síðan X hf. Greinargerð um sameininguna fylgdi ásamt sameinuðum efnahagsreikningi. Eyðublöð no. RSK 1.03 og 1.04 voru útfyllt sameiginlega, þar sem nöfn og kennitölur og skattstofnar beggja fyrirtækjana komu greinilega fram.

X hf. er afskráður af hlutafélagsskrá og við sameiningu og slit X hf. fengu hluthafar í X hf. eingöngu hlutabréf í Y hf. sem greiðslu fyrir hlutafé sitt.“

Með bréfi, dags. 8. desember 1989, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi bar sjálfstæða skattskyldu fram til þess, að hlutafélagið var sameinað Y hf. 28. desember 1987. Ársreikningur kæranda fyrir árið 1987 liggur fyrir. Með tilliti til þess svo og skattlagningu á grundvelli skattskila Y hf. þykja eigi hafa verið efni til hinnar kærðu áætlunar. Er því krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja