Úrskurður yfirskattanefndar

  • Atvinnurekstur
  • Hrossarækt

Úrskurður nr. 405/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 31. gr. 1. tölul.  

Skattstjóri synjaði kæranda um gjaldfærslu kostnaðar vegna rekstrar veiðihúss þar sem kærandi hefði engar tekjur haft af veiðihúsinu á viðkomandi ári. Þá synjaði skattstjóri um gjaldfærslu kostnaðar samkvæmt landbúnaðarskýrslu með því að kærandi hefði hætt eiginlegum búrekstri á árinu 1992 og engar tekjur haft af þeim rekstri á árinu 1994. Yfirskattanefnd féllst á gjaldfærslu kostnaðar vegna veiðihúss að virtum þeim skýringum kæranda að tekjur hefðu ekki skilað sér af húsinu vegna afkomu leigutaka þess auk þess sem rekstur hússins tengdist óbeint öflun tekna af veiðileyfum þar sem veiðimenn hefðu heimild til að nýta húsið. Hins vegar var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði slíka hrossarækt með höndum að tækt væri að byggja á því að hann stundaði þá iðju sem atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Var því synjað um gjaldfærslu kostnaðar vegna búrekstrar.

I.

Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda 1995, fylgdi landbúnaðarframtal, rekstraryfirlit veiðileigutekna vegna X-ár og rekstraryfirlit veiðihúss. Samkvæmt samræmingarblaði (RSK 4.05) nam hagnaður ársins 852.663 kr. Til frádráttar kom yfirfæranlegt tap frá fyrri árum 890.668 kr. Yfirfæranlegt tap til næsta árs nam því 38.005 kr.

Skattstjóri krafði kæranda í bréfi, dags. 29. maí 1995, um skýringar á rekstrargjöldum vegna veiðihúss og landbúnaðarframtals. Vefengdi skattstjóri að kostnaðinum hefði verið varið til öflunar tekna á árinu, sbr. ákvæði 2. mgr. 29. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessu mótmælti umboðsmaður kæranda í bréfi, dags. 12. júní 1995, og kvað viðhald á eignum sem bæru arð teljast rekstrarkostnað. Það að búfénaði væri ekki slátrað eitt árið hefði ekki sjálfkrafa í för með sér að enginn kostnaður félli til við að fóðra bústofninn og halda við þeim útihúsum sem notuð væru til þess að hýsa dýrin. Sá kostnaður sem færður væri á landbúnaðarskýrslu væri til þess að viðhalda bústofni sem skila myndi tekjum í framtíðinni og væri það í fullu samræmi við nefnd lagaákvæði. Að því er rekstur veiðihússins varðaði, kvað umboðsmaðurinn dóttur kæranda hafa tekið að sér að sjá um veitingasölu og útleigu gistiherbergja í veiðihúsinu í eigin nafni. Hefði orðið samkomulag um að hún myndi ekki greiða húsaleigu ef reksturinn skilaði ekki hagnaði. Þar sem reksturinn skilaði ekki hagnaði, hefði engin húsaleiga verið innheimt. Jafnframt kvað umboðsmaðurinn rekstur veiðihússins tengjast sölu á veiðileyfum þar sem veiðimenn mættu nýta sér aðstöðu í veiðihúsinu án þess að kaupa veitingar eða gistingu. Gætu veiðimenn þannig komið með eigið nesti og borðað það í veiðihúsinu. Tilvist veiðihússins væri því í beinu sambandi við tekjuöflun vegna veiðileyfa og gerði þau dýrmætari en ella.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1995, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði fellt niður rekstrarkostnað á landbúnaðarskýrslu og á rekstraryfirliti vegna veiðihúss. Kvað skattstjóri kæranda engar tekjur hafa haft af búrekstri á árinu 1994, enda hefði hann hætt eiginlegum búrekstri árið 1992. Hrossaeign kæranda hefði ekki verið nýtt til tekjuöflunar á undanförnum árum og ekki þætti hafa verið gert líklegt að svo myndi verða. Kostnaði samkvæmt landbúnaðarskýrslu hefði því ekki verið varið til öflunar tekna í búrekstri. Þá hefði kærandi staðfest í svarbréfi að engar tekjur hefðu verið af veiðihúsinu á árinu. Leiddu breytingar skattstjóra til hækkunar tekna kæranda um 1.336.237 kr. sem færðar voru í reit 62 á skattframtalinu. Var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1995 hagað í samræmi við það.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingum skattstjóra í kæru, dags. 23. ágúst 1995. Kvað hann kæranda hafa ræktað hross til sölu á fæti en það gæti tekið nokkur ár. Kvaðst hann þó fallast á að hluti kostnaðar eða 11.217 kr. vegna eldri hrossa kæmi ekki til frádráttar og gerði nánari grein fyrir því með sundurliðun. Gerði umboðsmaðurinn kröfu um að landbúnaðarframtali yrði breytt í samræmi við það. Að því er varðaði rekstrarkostnað veiðihússins, kvað umboðsmaðurinn kæranda hafa ákveðið, með hliðsjón af taprekstri fyrri ára, að annar aðili yfirtæki rekstur þess. Til þess að hægt væri að leigja húsið hefði þurft að sinna reglubundnu viðhaldi á því og hefði það verið gert áður en húsið var leigt út en auk þess hefði fallið til kyndingarkostnaður utan leigutíma.

Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 24. nóvember 1995.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 19. desember 1995. Eru áréttuð mótmæli við því að ekki sé um rekstrarkostnað að ræða samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 29. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá er einnig vísað til ákvæðis 1. mgr. 38. gr. sömu laga og kveður umboðsmaðurinn stóran hluta gjaldanna vera til kominn vegna fyrninga. Er gerð krafa um að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og að álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1995 verði hagað í samræmi við innsent skattframtal. Til vara er gerð krafa um að þau gjöld sem ágreiningur er um verði færð sem fyrirfram greiddur kostnaður til gjaldfærslu síðar. Styður umboðsmaðurinn kröfur kæranda með sömu rökum og áður hafa komið fram.

Með bréfi, dags. 10. janúar 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að mati ríkisskattstjóra hefur kærandi ekki gert líklegt að umþrættur kostnaður sé tilkominn vegna öflunar tekna eða vegna væntanlegrar tekjuöflunar. Ríkisskattstjóri gerir því þá kröfu að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsenda hans."

III.

Samkvæmt skattskilum kæranda fyrir rekstrarárið 1994 var starfsemi hans þríþætt. Í fyrsta lagi hafði kærandi tekjur af sölu veiðileyfa, sbr. rekstraryfirlit yfir þann rekstrarþátt, þar sem hagnaður er tilgreindur 2.130.710 kr. Í öðru lagi var um að ræða rekstur veiðihúss við X-á, sbr. rekstraryfirlit, þar sem engar tekjur eru tilgreindar en hins vegar rekstrargjöld að fjárhæð 941.090 kr. Í þriðja lagi var um að ræða rekstur samkvæmt landbúnaðarskýrslu þar sem heildartekjur eru tilgreindar 96.195 kr., þ.e. silungur undir heimanotum 12.960 kr. og styrkur frá Y-hreppi 83.235 kr., en heildarútgjöld 433.152 kr. eða tap að fjárhæð 336.957 kr. Að teknu tilliti til rekstrarniðurstöðu þessara þriggja þátta námu hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri 852.663 kr., sbr. samræmingarblað (RSK 4.05) sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1995. Ónotaðar eftirstöðvar rekstrartaps frá fyrri árum námu framreiknaðar 890.668 kr. þannig að samkvæmt skattskilunum nam yfirfæranlegt tap til næsta árs 38.005 kr.

Skattstjóri taldi að tilfærður rekstrarkostnaður veiðihúss 941.090 kr. gæti ekki talist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem engar tekjur væru af veiðihúsinu. Þá taldi hann að gjaldfærður kostnaður samkvæmt landbúnaðarskýrslu 432.792 kr. væri ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981 þar sem kærandi hefði engar tekjur haft af búrekstri á árinu 1994, hann hefði hætt eiginlegum búrekstri á árinu 1992 og hrossaeign kæranda hefði ekki verið nýtt til tekjuöflunar á undanförnum árum og ekki gert líklegt að svo myndi verða.

Í samræmi við framanritað og að teknu tilliti til fyrrgreindra eftirstöðva rekstrartaps frá fyrri árum ákvarðaði skattstjóri kæranda hreinar tekjur af atvinnurekstri til færslu í reit 62 í skattframtali árið 1995 1.336.237 kr.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að rekstrarkostnaður samkvæmt rekstraryfirliti vegna veiðihúss sé frádráttarbær samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er það rökstutt einkum með tvennu. Annars vegar hafi tilgangurinn verið sá að afla tekna, enda þótt tekjur hafi ekki skilað sér vegna afkomu leigutaka, sbr. samningsákvæði þar um. Hins vegar tengist rekstur veiðihússins óbeint öflun tekna af veiðileyfum vegna heimildar veiðimanna til að nýta sér veiðihúsið. Þegar þessar skýringar og röksemdir kæranda eru virtar og málavextir að öðru leyti þykir mega fallast á kröfu hans að því er snertir þetta kæruatriði, en út af fyrir sig hefur skattstjóri ekki vefengt einstaka gjaldaliði samkvæmt rekstraryfirliti veiðihúss.

Af hálfu kæranda er tilfærður kostnaður samkvæmt landbúnaðarskýrslu rökstuddur með því að hann tengist hrossarækt kæranda til sölu á fæti. Óumdeilt er að hefðbundnum búskap kæranda lauk á árinu 1992. Samkvæmt landbúnaðarskýrslu kæranda fyrir árið 1993, er fylgdi skattframtali hans árið 1994, nam hrossaeign hans í ársbyrjun 1993 sex gripum og sama fjölda í lok þess árs. Engar tekjur hafði kærandi af hrossaeign sinni á árinu 1993. Samkvæmt landbúnaðarskýrslu fyrir árið 1994, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1995, varð sú breyting ein á hrossaeign kæranda á árinu 1994 að fækkun varð um einn grip. Hefur komið fram að fella varð eitt hrossanna vegna sjúkleika. Samkvæmt þessu átti kærandi fimm hross í árslok 1994 og þar af voru tvö 14 vetra eða eldri. Engar tekjur hafði kærandi af hrossaeigninni á árinu 1994. Þegar það er virt, sem hér hefur verið rakið, verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að hann hafi slíka hrossarækt með höndum að tækt sé að byggja á því að hann stundi þá iðju sem atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Er kröfu kæranda því hafnað um þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja