Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Sönnun

Úrskurður nr. 61/2016

Lög nr. 90/2003, 109. gr. 1. og 2. mgr.   Lög nr. 4/1995, 22. gr. 2. mgr.  

Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að A yrði gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2009 og 2010 tekjur sem hann hafði af sjómennsku erlendis árin 2008 og 2009. A, sem tilkynnt hafði þjóðskrá um flutning lögheimilis til Afríku á árinu 2008, kvaðst hafa verið í góðri trú um að sér hefði hvoru tveggja verið rétt að færa lögheimili sitt úr landi vegna vinnu sinnar við sjómennsku á erlendum fiskimiðum og að miða skattskilin við að hann bæri ekki fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Yfirskattanefnd taldi verða að byggja á því að A hefði borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi umrædd ár, svo sem nánar var rökstutt. Hins vegar þótti varhugavert að telja sannað að A hefði uppfyllt auknar gáleysiskröfur skattalaga vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Var A því ekki gerð sekt í málinu.

Ár 2016, miðvikudaginn 30. mars, er tekið fyrir mál nr. 161/2015; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 9. júlí 2015, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2008 og 2009.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngu skattframtali. Vanræksla á skilum skattframtals. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, jafnvel af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2009, vegna tekjuársins 2008, og vanrækt að standa skil á skattframtali gjaldárið 2010, vegna tekjuársins 2009. Með framangreindri háttsemi vanframtaldi A tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 25.161.523, sem til eru komnar vegna starfa hans við sjómennsku hjá erlendu félagi, X Ltd.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárin 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2008 og 2009, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Vanframtaldar tekjur, tekjuskattur og útsvar af vanframtöldum tekjum:

Tekjuár

Vanframtaldar tekjur, kr.

Tekjuskattur af vanframtöldum tekjum, kr.[1]

Útsvar af vanframtöldum tekjum, kr.[2]

2008

12.758.814

2.538.348[3]

1.662.474[4]

2009

12.402.709

2.482.586[5]

1.647.080[6]

Samtals kr.

25.161.523

5.020.934

3.309.554

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því er gjaldárið 2009 varðar og samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að því er gjaldárið 2010 varðar, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum.

Með framangetinni endurákvörðun ríkisskattstjóra á stofni A til tekjuskatts og útsvars gjaldárin 2009 og 2010, dags. 6. febrúar 2014, hefur A verið gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vangoldinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, samtals kr. 1.836.696, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 9. júlí 2015, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. júlí 2015, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 10. september 2015, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í málinu. Í bréfinu er þess krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt. Ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem styðji niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi skilað efnislega röngum skattframtölum fyrir tekjuárin 2008 og 2009 með því að vantelja tekjur sínar, en gjaldandi hafi lagt fram gögn sem sýni skil á skattgreiðslum til opinberra aðila í heimaríki hans. Þá verði gjaldanda ekki gerð sekt tvisvar vegna sömu brota, sbr. m.a. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og lög nr. 62/1994, en gjaldanda hafi þegar verið refsað fyrir skattalagabrot með ákvörðun ríkisskattstjóra um að gera honum álag á endurákvarðaða skatta. Vísar umboðsmaður gjaldanda til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 5925/2010, 5926/2010 og 5927/2010 í þessu sambandi. Þá áréttar umboðsmaður gjaldanda að saknæmisskilyrði um ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi séu ekki uppfyllt í tilviki gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. júlí 2015, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2009 og 2010 með því að vanrækja að telja fram í skattframtölunum tekjur frá X Ltd. tekjuárin 2008 og 2009. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2008, 2009 og 2010, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 11. apríl 2013. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 4. maí 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 16. nóvember 2012. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökuna, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá fjármálastofnunum, upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda, gögnum frá Þjóðskrá Íslands, gögnum frá Y ehf., gögnum frá B hf., gögnum frá F ehf. og gögnum frá Z ehf. Með bréfi, dags. 3. desember 2012, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Að beiðni umboðsmanns gjaldanda var andmælafrestur framlengdur fimm sinnum og var lokafrestur veittur til 15. febrúar 2013. Hinn 15. febrúar 2013 lagði umboðsmaður gjaldanda fram bréflegar athugasemdir við skýrsluna. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 11. apríl 2013, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum skattaðila vegna tekjuáranna 2008, 2009 og 2010 eru:

Að mati skattrannsóknarstjóra var skattalegt heimilisfesti skattaðila á Íslandi á rannsóknartímanum.

Erlendar tekjur skattaðila 2008 voru samtals kr. 12.758.814.

Erlendar tekjur skattaðila 2009 voru samtals kr. 12.402.709.

Mögulegur tryggingakostnaður skattaðila var kr. 403.500.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 12.758.814 kr. árið 2008 og 12.402.709 kr. árið 2009.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 15. apríl 2013. Með bréfi, dags. 22. apríl 2013, tilkynnti ríkisskattstjóri gjaldanda að hann hygðist úrskurða um skattalega heimilisfesti gjaldanda á þann veg að gjaldandi hefði ekki fellt niður skattalega heimilisfesti hér á landi á tímabilinu 1. ágúst 2008 til 16. febrúar 2010, en gjaldandi hafði á umræddu tímabili verið með skráð lögheimili „Afríka ótilgreint“ í þjóðskrá. Að fengnum andmælum umboðsmanns gjaldanda með bréfi, dags. 31. maí 2013, kvað ríkisskattstjóri upp úrskurð um skattalega heimilisfesti og skattskyldu samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 hinn 3. desember 2013. Í úrskurðinum kom fram að gjaldandi teldist hafa verið heimilisfastur á Íslandi og borið hér fulla og ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, vegna tekna sinna og eigna, frá 1. ágúst 2008 til og með 16. febrúar 2010. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 3. janúar 2014, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2009 og 2011 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. febrúar 2014. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda úr 328.425 kr. í 13.087.239 kr. eða um 12.758.814 kr. gjaldárið 2009 og úr 0 kr. í 12.402.709 kr. gjaldárið 2010. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda frá erlendu félagi, X Ltd. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á hækkun skattstofna gjaldanda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 11. apríl 2013, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2009 og 2011, þ.e. vegna tekjuáranna 2008 og 2010, en gjaldandi skilaði ekki skattframtali árið 2010 hér á landi. Gjaldandi gerði ekki grein fyrir neinum erlendum tekjum í skattframtali árið 2009. Í skattframtali árið 2011 vegna tekjuársins 2010 gerði gjaldandi grein fyrir erlendum tekjum að fjárhæð 668.546 kr. (EUR 4.328) með þeim skýringum að um væri að ræða laun vegna sjómennsku. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra er rakið að gjaldandi hafi við rannsókn málsins afhent afrit af skjali á frönsku þess efnis að skattur hafi verið lagður á gjaldanda í Máritaníu og að gjaldandi hafi staðið við skuldbindingar sínar og sé skuldlaus við skattyfirvöld í Máritaníu. Engar tölulegar upplýsingar séu í vottorðinu og ekki komi fram heimilisfang gjaldanda eða að hann sé með heimilisfesti í Máritaníu.

Við skýrslutöku af gjaldanda 16. nóvember 2012 kvaðst gjaldandi hafa starfað hjá fyrirtækinu X Ltd. á rannsóknartímabilinu, nánar tiltekið sem skipstjórnarmaður á skipinu V. Sagði gjaldandi að G hjá Y ehf. hefði ráðið sig til starfa og að samskipti sín hefðu verið við aðila tengda Y ehf., G og K, og svo menn í Máritaníu sem störfuðu hjá félaginu C. Við skýrslutökuna var lagður fyrir gjaldanda verktakasamningur milli gjaldanda og Y ehf. og staðfesti gjaldandi undirritun sína á samningnum (fskj. 6.1). Sagði gjaldandi að samningurinn hefði verið gerður til bráðabirgða þar sem hann hefði viljað fá skriflegan samning þegar hann hóf störf, en ekki hefði verið gerður skriflegur samningur við X Ltd. Samkvæmt samningnum fékk gjaldandi greidda 900 USD á dag og kom sama fjárhæð fram á reikningum í nafni gjaldanda vegna vinnu fyrir Y ehf. á árinu 2008 (fskj. 7.1-7.9). Við skýrslutökuna kannaðist gjaldandi við að daglaun hans hefðu verið 900 USD á árinu 2008 og 1.000 USD á árinu 2009, en gjaldandi kannaðist ekki við að hafa gefið út reikninga vegna vinnu sinnar. Sagði gjaldandi að verkkaupi hefði séð um að greiða fyrir ferðir og gistingu, en hann hefði sjálfur greitt fyrir tryggingar. Við skýrslutökuna var borin undir gjaldanda flutningstilkynning til Þjóðskrár, dags. 4. september 2008, þar sem gjaldandi tilkynnti um flutning sinn til Afríku frá 1. janúar 2008 (fskj. 4.2). Staðfesti gjaldandi undirritun sína á flutningstilkynninguna. Sagðist gjaldandi ekki muna betur en að ástæða þess að hann hefði flutt lögheimili sitt á þessum tíma hafi verið sú að það hefði verið krafa vegna reglna í Afríku. Sagðist gjaldandi hafa verið búsettur í Máritaníu, en kvaðst ekkert vita um skráningu á lögheimili hans þar. Þá sagðist gjaldandi ekki eiga nein gögn varðandi heimsóknir til Máritaníu og gat gjaldandi ekki nefnt heimilisfang sitt í Máritaníu. Gjaldandi kvaðst ekki hafa átt fasteign eða aðrar eignir í Máritaníu. Við skýrslutökuna sagði gjaldandi að greiðslur vegna vinnu hans hefðu verið lagðar inn á bankareikninga hans á Íslandi og að hann hefði ekki verið með bankareikning erlendis. Við skýrslutökuna voru lögð fyrir gjaldanda yfirlit yfir bankareikninga hans, en samkvæmt yfirlitunum fékk gjaldandi greiddar samtals 8.845.777 kr. árið 2008 og 12.134.393 kr. árið 2009 frá X Ltd., T, L og K. Staðfesti gjaldandi að framangreindar innborganir væru vegna vinnu hans fyrir X Ltd. og sagði að um nettógreiðslur væri að ræða, þ.e. að búið væri að draga frá kostnað og skatta.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstakur kafli um rannsókn á skattalegri heimilisfesti gjaldanda. Rekur skattrannsóknarstjóri ákvæði 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, sem og 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, og þá niðurstöðu rannsóknarinnar að gjaldandi hafi haft fasta búsetu á Íslandi allan rannsóknartímann, sbr. 1. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990, og beri því ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi á tímabilinu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003.

Í skýrslunni er rakið að samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi gjaldandi verið 135 daga erlendis vegna vinnu sinnar á árinu 2008 og 104 daga á árinu 2009. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi gjaldandi fengið 900 USD á dag á árinu 2008 og 1000 USD á dag á árinu 2009 og séu útreiknaðar fjárhæðir í flestum tilvikum mjög sambærilegar við innborganir á bankareikning gjaldanda. Mismun á útreikningi skattrannsóknarstjóra og innborgunum árið 2008 megi að mestu rekja til september, október og nóvember 2008, en engin skýring liggi fyrir á þeim mismun. Mismun á útreikningi skattrannsóknarstjóra og innborgunum árið 2009 megi að mestu rekja til þess að miðað sé við útreikninga skattrannsóknarstjóra vegna greiðslu í janúar 2010, vegna vinnu í desember 2009, en ekki innborgunar frá T sem mögulega geti verið vegna sama tímabils.

Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var sú að gjaldandi hefði vantalið tekjur frá X Ltd. í skattframtölum árin 2009 og 2010 að fjárhæð 12.758.814 kr. tekjuárið 2008 og 12.402.709 kr. tekjuárið 2009. Þá næmi mögulegur kostnaður gjaldanda 403.500 kr. árið 2008.

Til stuðnings kröfu sinni um að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði hafnað vísar umboðsmaður gjaldanda m.a. til þess að vegna ákvæða 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu verði gjaldanda, sem gert hafi verið að sæta álagi á vantalda skattstofna samkvæmt þargreindum ákvæðum skattalaga, ekki gerð refsing samkvæmt refsiákvæðum sömu laga vegna sömu háttsemi. Hvað þessa viðbáru varðar skal tekið fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að manni, sem sætt hefur álagsbeitingu vegna vantalins skattstofns, sé síðan í öðru máli gerð refsing vegna brots á viðkomandi skattalögum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 5. júní 2014 í máli nr. 538/2013, sbr. einnig dóma réttarins frá 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013, 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013 og 22. maí 2014 í máli nr. 416/2013. Verður málinu því ekki vísað frá yfirskattanefnd á þessum grundvelli.

Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins staðfesti gjaldandi að greiðslur, sem hann hefði fengið inn á bankareikninga sína á Íslandi frá X Ltd., T, L og K á árunum 2008 og 2009, væru launagreiðslur vegna vinnu hans fyrir X Ltd. Var þar um að ræða greiðslur inn á bankareikning gjaldanda að fjárhæð 8.845.777 kr. á árinu 2008 og 9.093.823 kr. á árinu 2009, auk 3.040.570 kr. sem greiddar voru inn á bankareikning á árinu 2009. Þessu til viðbótar lagði skattrannsóknarstjóri ríkisins til grundvallar í niðurstöðu sinni að tekjur gjaldanda hefðu numið 2.676.177 kr. í september 2008 og 3.784.440 kr. í október 2008, en innborganir á bankareikninga hans námu 1.143.693 kr. fyrri mánuðinn og 1.403.886 kr. seinni mánuðinn. Byggði áætlun skattrannsóknarstjóra um tekjufjárhæðir á upplýsingum um þóknun gjaldanda samkvæmt verksamningi hans og Y ehf. annars vegar og upplýsingum um ferðir gjaldanda erlendis hins vegar. Við endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum gjaldanda gjaldárin 2010 og 2011 var lagt til grundvallar að skattleggja bæri sem laun hjá gjaldanda umræddar erlendar greiðslur inn á bankareikninga hans auk tekjuviðbótar september og október 2008 er byggði á fyrrnefndum útreikningi skattrannsóknarstjóra ríkisins, samtals að fjárhæð 12.758.814 kr. gjaldárið 2009 og 12.402.709 kr. gjaldárið 2010. Lauk endurákvörðunarþætti málsins hinn 6. febrúar 2014 með úrskurði ríkisskattstjóra, en gjaldandi nýtti sér ekki heimilar málskotsleiðir vegna úrskurðarins.

Af hálfu gjaldanda er því borið við að ekki hafi verið um vantaldar tekjur að ræða, enda hafi gjaldandi staðið skil á sköttum vegna erlendra launagreiðslna í Máritaníu. Jafnframt hefur það viðhorf gjaldanda komið fram að hann hafi ekki verið heimilisfastur á Íslandi á því tímabili sem málið tekur til, sbr. m.a. bréf lögmanns gjaldanda til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. febrúar 2013, og gögn sem því fylgdu. Hvað þessa viðbáru varðar skal tekið fram að sýnt þykir að gjaldandi hafi ekki tekið upp búsetu í Máritaníu á umræddu tímabili, svo sem hann hefur haldið fram, enda kom fram við rannsókn málsins að gjaldandi hefði aðeins dvalið þar í landi stöku daga á milli sjóferða eða ferða til/frá landinu, ekki haft til ráðstöfunar í Máritaníu fast húsnæði eða átt þar húsbúnað eða aðrar eignir, en hins vegar átti gjaldandi bæði fasteign og lausafé hér á landi, auk þess sem greiðslukortanotkun þykir bera með sér að gjaldandi hafi að mestu dvalið hér á landi utan vinnutímabila. Verður samkvæmt þessu að byggja á því að gjaldandi hafi borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi umrædd ár, svo sem og varð niðurstaða ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 3. desember 2013. Í samræmi við það bar gjaldanda að gera grein fyrir tekjum frá X Ltd. í skattframtölum árin 2009 og 2010. Til þess er að líta að gjaldandi tilkynnti Þjóðskrá 5. september 2008 að hann hefði flutt lögheimili sitt til Afríku frá og með 1. janúar 2008. Samkvæmt skráningu Þjóðskrár var flutningur gjaldanda þó talinn hafa komið til framkvæmda 1. ágúst 2008. Hefur öðru ekki verið haldið fram en að gjaldandi hafi hagað skattskilum sínum gjaldárin 2009 og 2010 í samræmi við þetta. Kveðst gjaldandi hafa verið í góðri trú um að sér hafi hvoru tveggja verið rétt að færa lögheimili sitt úr landi vegna vinnu sinnar við sjómennsku á erlendum fiskimiðum og að miða skattskilin við að hann bæri ekki fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Um þetta vísar gjaldandi til úrskurðar skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá árinu 2005 þar sem málsatvik hafi verið hliðstæð og í sínu tilviki. Þótt gjaldandi kunni að hafa sýnt af sér nokkurt gáleysi með ályktun sinni um sambærileika tilvika og skattframkvæmd sem leidd verði af umræddum úrskurði frá 2005, þykir varhugavert að telja sannað að hann hafi uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem skattalög gera vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Af þessum ástæðum þykir ekki rétt að gera gjaldanda sekt í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu.

[1] Fjárhæðir samkvæmt niðurstöðum endurákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 6. febrúar 2014, að frádregnum tekjuskatti af álagi.

[2] Fjárhæðir samkvæmt niðurstöðum endurákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 6. febrúar 2014, að frádregnu útsvari af álagi.

[3] Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 3.264.006 kr. – 3.189.704 kr. * 0,2275 = 2.538.348 kr.

[4] Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 2.078.092 kr. – 3.189.704 kr. * 0,1303 = 1.662.474 kr.

[5] Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 2.930.944 kr. – 1.860.406 kr. * 0,241 = 2.482.586 kr.

[6] Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 1.894.142 kr. – 1.860.406 kr. * 0,1328 = 1.647.080 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja