Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Stofnsjóðseign í samvinnufélagi

Úrskurður nr. 75/2016

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 1. og 2. mgr., 14. gr. 3. mgr.   Lög nr. 22/1991, 17. gr.  

Í máli þessu vegna erfðafjárskatts var deilt um það hvernig fara bæri með stofnsjóðseign dánarbúsins í samvinnufélagi. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að með því að ekki væri um framseljanlega eign að ræða að lögum yrði naumast séð að markaðsverðmæti gæti verið hærra en sem næmi útgreiddri fjárhæð stofnsjóðs við andlát arfleifanda. Þar sem ekkert hafði komið fram um aðra fjárhæð í því sambandi en kærendur (erfingjar) tiltóku var krafa þeirra tekin til greina.

Ár 2016, miðvikudaginn 27. apríl, er tekið fyrir mál nr. 133/2015; kæra A og B, dags. 12. maí 2015, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 12. maí 2015, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi M, sem lést 8. júlí 2013, og K, sem lést 4. maí 2014, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 12. mars 2015. Í kærunni kemur fram að í erfðafjárskýrslunni sé rangt farið með eignarhlut arfláta í KEA svf. Eignarhluturinn sé færður í lið 5.6 sem hlutabréf að nafnverði 1.000 kr., uppreiknaður með gengisstuðli 454,365, og því skráður sem eign að fjárhæð 454.365 kr. Hlutinn ætti hins vegar að skrá í lið 5.5 sem verðbréf að verðmæti 1.000 kr. Kærunni fylgir útprentun af vef KEA svf. sem staðfestir að mati kærenda að eignarhluturinn sé ekki nema 1.000 kr. virði. Fara kærendur fram á að hrein eign til skipta samkvæmt erfðafjárskýrslu verði lækkuð um 453.635 kr., þ.e. úr 31.698.479 kr. í 31.244.844 kr., og að erfðafjárskattur verði ákvarðaður samkvæmt því.

II.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2015, hefur sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra lagt fram svofellda umsögn vegna kærunnar:

„Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum voru umrædd bréf skráð af erfingjum og færð í lið 5.6 á erfðafjárskýrslunni. Nafnverð bréfanna var skráð 1.000 og gengið 454,63. Þar sem fyrirliggjandi gögn báru með sér að um rétta fjárhæð hafi verið að ræða, miðað við framlagða skattaskýrslu hinnar látnu, samþykkti sýslumaður þennan lið framtalsins án athugasemda, sbr. erindi sýslumanns, dags. 10. mars 2015. Undir rekstri málsins óskuðu erfingjarnir hvorki matsgerðar og/eða skrásetningar á umræddri eign búsins skv. 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, né mótmæltu þeir þessum lið framtalsins.

Sýslumaður gerir ekki athugasemd við framlögð fylgiskjöl með kærunni.

Að öðru leyti en að ofan greinir hefur sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra ekki frekari athugasemdir fram að færa og lætur nægja að vísa til 4. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, til skýringar á útreikningi á markaðsverðmæti bréfanna.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. ágúst 2015, var kærendum sent ljósrit af umsögn sýslumannsins og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi M og K. Meðal gagna málsins er erfðafjárskýrsla, dags. 12. mars 2015, sem er undirrituð af erfingjum, og árituð yfirfarin af sýslumanni þann 26. mars 2015, sbr. 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Samkvæmt skýrslunni er hrein eign til skipta 31.698.479 kr., en þar á meðal er færð í lið 5.6 í skýrslunni hlutabréfaeign með 454.635 kr. Er hlutafélagið tilgreint KEA svf., nafnverð 1.000 kr. og gengi 454,63, þannig að markaðsverð er tilfært 454.635 kr. Eins og fram er komið byggist krafa kærenda á því að ranglega hafi verið talið að um hlutabréfaeign væri að ræða. Eign þessi hafi verið verðbréf að raunvirði 1.000 kr. sem hefði átt að skrá í lið 5.5 í erfðafjárskýrslu.

Að virtum gögnum málsins, sem sýslumaður gerir ekki athugasemdir við, verður ekki annað séð en að hin tilfærða hlutabréfaeign sé í raun inneign arfleifenda beggja í stofnsjóði KEA svf. Félag þetta er samvinnufélag sem starfar í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991. Samkvæmt 4. gr. samþykkta félagsins, sem m.a. eru aðgengilegar á vef þess, greiðir hver einstaklingur 500 kr. í aðildargjald til félagsins til að gerast félagsmaður í því og varðveitist sú fjárhæð í stofnsjóði. Í 23. gr. samþykktanna er áréttað að inngangseyrir félagsmanna renni í stofnsjóð félagsins. Þá kemur fram að stofnsjóðseign félagsmanna skuli koma til útborgunar m.a. við andlát félagsmanns. Samkvæmt 25. gr. getur aðalfundur ákveðið að nýta heimild í lögum til að hækka séreignarhlut félagsmanns í stofnsjóði og greiða þá hækkun út að tillögu stjórnar, svo sem nánar er kveðið á um. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 22/1991 eru félagsréttindi í samvinnufélögum ekki framseljanleg og erfast ekki. Þá segir að hlutdeild félagsaðila í óskiptum stofnsjóði eða A-deild stofnsjóðs samvinnufélags sé ekki framseljanleg og að hún standi ekki til fullnustu fjárkröfum skuldheimtumanna hans. Í samræmi við þetta er tekið fram í samþykktum KEA svf., sbr. niðurlag 23. gr., að stofnsjóðseign í félaginu sé ekki framseljanleg og standi ekki til fullnustu fjárkröfum skuldheimtumanna.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Kemur fram í 2. mgr. að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Er m.a. tekið fram að séu verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli telja þau til eignar á kaupgengi, eins og það er skráð við síðustu lokun markaðar fyrir andlát arfleifanda. Þá kemur fram að ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags, að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni, en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar. Sama gildir um eignir í öðrum félögum. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 eru sérreglur um skattstofn erfðafjárskatts vegna tiltekinna eigna. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna skal erfðafjárskattur hvers erfingja reiknaður út miðað við verðmæti arfs á dánardegi arfleifanda, en miðað við þann dag sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu ef um fyrirframgreiddan arf er að ræða eða óskipt bú sem skipt er fyrir andlát eftirlifandi maka.

Ljóst er samkvæmt framansögðu að við ákvörðun erfðafjárskatts á kærendur byggði sýslumaður ranglega á því – þótt tilgreining kærenda sjálfra lægi þar til grundvallar – að hinn umdeildi eignaliður í erfðafjárskýrslu kærenda væri eign í hlutabréfum. Samkvæmt þessu gátu ekki átt við þær reglur um mat á eign þessari til erfðafjárskattsstofns sem sýslumaður virðist hafa stuðst við og vísar til í umsögn sinni til yfirskattanefndar, dags. 10. ágúst 2015. Með því að ekki er um framseljanlega eign að ræða að lögum verður naumast heldur séð að markaðsverðmæti geti verið hærra en sem nam útgreiddri fjárhæð stofnsjóðs við andlát arfleifenda. Hefur ekkert komið fram um aðra fjárhæð í því sambandi en 1.000 kr. sem kærendur tiltaka. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda. Stofn til erfðafjárskatts lækkar um 453.635 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja