Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 139/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 31. gr., 54. gr., 59. gr.  

Reiknað endurgjald — Iðnaður — Saumastofa — Hjón — Samrekstur — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að í skattframtali sínu árið 1984 færðu kærendur sér til tekna reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. 1. tl. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna starfa sinna við rekstur saumastofu. Fjárhæð endurgjaldsins nam kr. 425.000, hjá hvorum um sig vegna vinnu þessarar. Hreinar tekjur af atvinnurekstrinum námu kr. 8.122, sem eiginmaður færði sér til tekna. Við frumálagningu opinberra gjalda 1984 var við þetta miðað.

Með kæru, dags. 26. júlí 1984, tilkynntu kærendur skattstjóra, að þeir hefðu ákveðið að nýta sér heimild til frádráttar fjárfestingarsjóðstillags frá tekjum, sbr. 11. tl. 31. gr. og 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og ákvæðum þessum var breytt með e)-lið 5. gr. og 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á fyrrnefndu lögunum. Kváðust kærendur hafa lagt inn á bundinn reikning við Sparisjóð Hafnarfjarðar, fjárfestingarsjóðsreikning nr. x, upphæð kr. 85.000, þann 29. júní 1984, svo sem ljósrit yfirlits frá sparisjóðnum, sem kærunni fylgdi, bæri með sér. Skattframtali hefði verið skilað 7. apríl 1984 og var þess óskað, að skattstjóri leiðrétti framtalið í samræmi við gildandi heimildarákvæði í lögum. Þess var óskað, að lækkuninni yrði skipt jafnt á tekjur þeirra, þar sem tekjur af atvinnurekstrinum væru jafnháar hjá báðum kærendum í samræmi við vinnuframlag.

Þann 13. nóvember 1984 kvað skattstjóri upp kæruúrskurði um kæruefnið. Í úrskurði vegna eiginmanns segir svo:

„Til þess að fá kr. 170.000, í frádrátt vegna tillags í fjárfestingarsjóð þurfa hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri að nema kr. 425.000, en á skattframtali eru þær tekjur kr. 8.122. Reiknuð laun þurfa því að lækka um kr. 416.878. Í kæru er gerð sú krafa að þau lækki jafnt hjá hvoru hjóna enda hafi vinnuframlag þeirra verið jafnt.

Að gerðri þeirri breytingu verða reiknuð laun yðar kr. 246.561, en maka yðar kr. 216.561, þar sem jafnframt er leiðrétt sú skekkja í álagningunni að láta kr. 30.000, vegna vinnu yðar við byggingu eigin atvinnurekstrarhúsnæðis koma til skattlagningar með tekjum maka yðar.“

Eiginmanni voru færðar til tekna í reit 62 í skattframtali hreinar tekjur af atvinnurekstri að fjárhæð kr. 255.000, eða að öllu leyti miðað við þessa niðurstöðu skattstjóra. Reiknað endurgjald eiginkonu var lækkað úr kr. 425.000, og í kr. 216.561. Var áður álögðum opinberum gjöldum breytt til samræmis við það, sem að framan segir.

Kærendur hafa skotið úrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. desember 1984, og er þess krafist, að hreinum tekjum af atvinnurekstri verði skipt jafnt á þá, þar sem vinnuframlag í sameiginlegum atvinnurekstri hafi verið jafnt, en á jafna skiptingu hafi skattstjóri ekki fallist.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í skattframtali sínu árið 1984 færðu kærendur sér til tekna reiknað endurgjald fyrir starf sitt við rekstur saumastofu þ.m.t. endurgjald eiginmanns fyrir vinnuframlag við byggingu húsnæðis fyrir starfsemina, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en talið skal til tekna samkvæmt lagaákvæði þessu sambærilegt endurgjald og hefði starfið verið innt af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. f tilefni af kæru kærenda, sem varðaði frádrátt fjárfestingarsjóðstillags, lækkaði skattstjóri tilfært reiknað endurgjald beggja kærenda. Skattstjóri byggði þessa breytingu sína eigi á því, að hann teldi hið reiknaða endurgjald ranglega ákvarðað og í tilviki kærenda of hátt, sbr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur á framkvæmd umkrafins frádráttar vegna fjárfestingarsjóðstillags, en slíkt tillag kemur til frádráttar tekjum, þegar dregnar hafa verið frá þær fjárhæðir, sem um ræðir í 1.—10. tl. 31. gr. laganna, sbr. 11. tl. 31. gr. og 54. gr. eins og þessum ákvæðum hefur verið breytt með lögum nr. 8/1984. Breytingar skattstjóra eru því byggðar á röngum forsendum og þykir því bera að hnekkja hinum kærðu úrskurðum og færa skattframtalið til upphaflegs horfs með þeim breytingum, sem leiða af frádrætti fjárfestingarsjóðstillags frá þargreindum hreinum tekjum af atvinnurekstri.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja