Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 177/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 14/1965, 2. gr. 2. mgr.  

Launaskattsskyld hlunnindi — Hlunnindi — Fæðiskostnaður — Launaskattur — Launaskattsstofn — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði sérstöku framtali til launaskatts árið 1984, sem dagsett er þann 22. janúar þ.á. Með bréfi, dags. 20. júlí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að launaframtalinu hefði verið breytt þannig, að 75% af gjaldfærðum fæðis- og kaffistofukostnaði á rekstrarreikningi hefði verið fært í gjaldstiga 2,5% á launaframtali og skipting áætluð á greiðslutímabil. Nam viðbótarskattstofn samkvæmt þessu kr. 263.129. Með kæru, dags. 22. ágúst 1984, mótmælti umboðsmaður kæranda þessari breytingu með vísan til 8. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt, þar sem segði, að stofn til launaskatts væru allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefndist, sem skattskyld væru samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breyting skattstjóra ætti ekki við lög að styðjast, þar sem fæðis- og kaffistofukostnaður félli alveg undir 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með úrskurði, dags. 7. nóvember 1984, tók skattstjóri kæruna til úrlausnar. Í úrskurðinum segir svo:

„Miðað við þá forsendu, að tilgreindur gjaldaliður í rekstrarreikningi, þ.e. „Fæðis-kostnaður, kaffistofa“ kr. 350.838, uppfylli skilyrði 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga um tekju-og eignarskatt nr. 75/1981 til að teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður, er það mat skattstjóra, að þessi gjaldaliður skapi kæranda gjaldskyldu til hinna kærðu gjalda og þar með framtalsskyldu á launaframtali, hvort sem nefnd fjárhæð hafi verið greidd beint til starfsmanna í formi fæðispeninga eða greidda óbeint í formi máltíða og kaffis til handa starfsmönnum. Í síðari tilvikinu ber að telja óbeinu greiðsluna fram í formi hlunninda sundurliðaða á þá starfsmenn er hennar hafa notið samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Þykir nægja í þessu sambandi að vísa til reglugerðar um launaskatt nr. 145/1982, þ.e. 8. og 10. gr. Rökstuðningur í kæru þykir ófullnægjandi, þar sem ekki er fjallað um hina kærðu álagningu á grundvelli veittra hlunninda til starfsmanna. Með vísan til ofangreinds er kröfu synjað.

En þrátt fyrir synjun þykir kæra þó gefa tilefni til að breyta álagningu launskatts þannig, þrátt fyrir að hlunnindi teljist vanframtalin, að álagning launaskatts á hinn kærða stofn kr. 263.129, fari eftir ákvæðum b-liðs 20. gr. og eigi þá ákvæði 21. gr. um gjald- og eindaga við í stað ákvæða 14. og 15. gr. nefndrar reglugerðar um launaskatt. Jafnframt er vikufjöldi í stofni til atvinnuleysistryggingagjalds leiðréttur til lækkunar um 80 vikur.“ Meðfylgjandi ofannefnum úrskurði var sérstakur launaskattsúrskurður, dags. sama dag.

Úrskurðum skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. desember 1984. Er til þess vísað, að samkvæmt reglugerð nr. 145/1982, um launaskatt, skuli hlunnindi vera framtalsskyld á launamiðum þeirra aðila, sem notið hafi hlunnindanna. Þann hluta fæðis- og kaffistofukostnaðar, sem kærandi hafi greitt, hafi hann ekki talið til skattskyldra hlunninda á launamiðum, þar sem útgjöld þessi séu starfsmönnum ekki til hagsbóta heldur skili þau betri nýtingu á vélum og tækjum fyrirtækisins. Sá háttur hafi verið á hafður, að starfsmenn hafi greitt ca. 65% af keyptu fæði og það dregið frá launum. Það sem eftir standi ca. 35% sé kostnaður kæranda og hafi hann verið gjaldfærður undir liðnum „fæðis- og kaffistofukostnaður“. Þá er þess getið, að þau mistök hafi orðið við gerð launamiða, að fæðispeningar hafi ranglega verið færðir í reit 17 í stað reits 29. Þessi mistök hafi verið leiðrétt í bréfi til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 11. mars 1985, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt þykir að taka fram, að þá leiðréttingu, sem um getur í niðurlagi kærunnar til ríkisskattanefndar afgreiddi skattstjóri með endurákvörðun launaskatts, dags. 10. desember 1984, að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 21. nóvember 1984, og er eigi ágreiningur um þetta atriði. Telja verður, að hinn umdeildi liður sé launaskattsskyld hlunnindi skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 5/1982, og 8. og 10. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt. Eigi verður séð, að skattstjóri hafi við mat á nefndum hlunnindum til launaskatts farið eftir ákvæðum 10. gr. nefndrar reglugerðar. Með því að eigi er neinn ágreiningur út af fyrir sig um fjárhæð þess viðbótarskattstofns, sem um ræðir í málinu, þykir þó eftir atvikum eigi ástæða til þess að hagga mati skattstjóra í þessum efnum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja