Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 667/1985

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981, 106. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Álag — Vítaleysisástæður

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1985 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Við þá áætlun bætti skattstjóri 25% álagi við skattstofna, sbr. 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kærenda árið 1985, sem dagsett er 28. maí 1985, barst skattstjóra 22. ágúst 1985 samkvæmt áritun skattstjóra á framtalið um móttöku þess. Með úrskurðum, dags. 13. september 1985, lagði skattstjóri skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kærendur gjaldárið 1985 í stað hinna áætluðu skattstofna að viðbættu 25% álagi samkvæmt fyrrnefndu heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 vegna hinna síðbúnu framtalsskila. Skattstjóri gat þess, að ekki hefði verið sýnt fram á þau atvik, sem leiddu til þess að fella bæri álagið niður samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 106. gr. nefndra laga.

Með kæru, dags. 12. október 1985, hafa kærendur skotið úrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar og fara fram á, að ofangreint álag verði fellt niður. Segja kærendur aðalástæðuna fyrir seinkun á framtalsskilum vera þá, að galli hafi verið á tölvuforriti og síðan bilun í tölvu fyrirtækisins X, en „fyrr en bókhaldsuppgjör þess lá fyrir var ekki hægt að sjá nákvæmlega tekjur okkar þaðan, þurfti að vinna bókhaldið upp af þessum sökum“ eins og í kærunni greinir.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 1985, krefst ríkisskattstjóri þess aðallega, að kærunni verði vísað frá sem of seint framkominni. Hún sé póststimpluð 14. október 1985. Til vara krefst ríkisskattstjóri þess, að hinir kærðu úrskurðir skattstjóra verði staðfestir, enda geti þær ástæður, sem kærendur beri fyrir sig varðandi síðbúin framtalsskil á engan hátt talist fullnægjandi röksemd fyrir niðurfellingu álags skv. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Eigi þykja efni til þess að vísa kærunni frá sakir þess, að hún teljist of seint framkomin. Hins vegar þykja fram bornar ástæður fyrir seinkun framtalsskila þess eðlis, að eigi eru efni til þess að falla frá heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á grundvelli þeirra. Er kröfum kærenda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja