Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Skattstofn vegna fasteignar, leigulóð

Úrskurður nr. 145/2016

Fram kom að lög um erfðafjárskatt væru skýr og ótvíræð um að ákvarða bæri skattstofn vegna leigulóðarréttinda miðað við fasteignamatsverð réttindanna eins og það væri skráð á dánardegi arfleifanda. Var kröfu kæranda um að afgjaldskvaðarverðmæti leigulóðar yrði dregið frá fasteignamatsverði lóðarinnar við ákvörðun erfðafjárskatts hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 6. júlí, er tekið fyrir mál nr. 1/2016; kæra A, dags. 21. desember 2015, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 21. desember 2015, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kæranda vegna arfs úr dánarbúi H, sem lést 5. júlí 2015, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 16. nóvember 2015. Í kærunni kemur fram að kæruefni málsins lúti að þeirri ákvörðun sýslumanns, sbr. tilkynningu hans um álagningu erfðafjárskatts, dags. 30. nóvember 2015, að hafna því að færa afgjaldskvaðarverðmæti lóðar við R í Hafnarfirði til frádráttar tilfærðu fasteignamati lóðarinnar í erfðafjárskýrslu. Af hálfu kæranda er þess krafist að stofn til erfðafjárskatts verði lækkaður um 231.000 kr. eða sem nemur fimmtánfaldri lóðarleigu vegna R á árinu 2015. Í kærunni er bent á að skilgreiningu á leigulóðarréttindum sé ekki að finna í lögum um erfðafjárskatt nr. 14/2004. Hugtakið sé aftur á móti nákvæmlega skilgreint í 73. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar komi fram að leigjandi leigulóðar skuli telja sér til eignar mismun á fasteignamatsverði og afgjaldskvaðarverðmæti, þ.e. fimmtánfaldri lóðarleigu, og sé mismunurinn verðmæti í hendi leigjanda og þannig eignfærð hjá honum. Eðli máls samkvæmt geti leigulóð því aldrei talist 100% eign hjá leigutaka. Því sé skilningur sýslumanns á hugtakinu leigulóðarréttindi rangur og matsverð leigulóðar ranglega ákveðið við álagningu erfðafjárskatts kæranda. Í leiðbeiningum sýslumanns með beiðni um leyfi til einkaskipta komi fram undir liðnum „eignir“ að greina þurfi frá fasteignum með sama hætti og gert sé í skattframtali og geta um fasteignamatsverð. Jafnframt þurfi að taka með matsverð á leigulóðarréttindum. Þá komi fram í leiðbeiningum sýslumanns um útfyllingu erfðafjárskýrslu að fasteignir skuli taldar fram á fasteignamatsverði auk þess sem greiða skuli erfðafjárskatt af leigulóðarréttindum með sama hætti. Kærunni fylgja ýmis gögn, m.a. álagningarseðill fasteignagjalda 2015 frá Hafnarfjarðarbæ.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 7. febrúar 2016, hefur kærandi farið fram á að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Bréfi þessu fylgdi reikningur að fjárhæð 55.800 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

II.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2016, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í máli þessu. Í umsögninni er bent á að mál kæranda hafi ekki verið rekið sem ágreiningsmál hjá sýslumanni. Málið hafi því ekki hlotið meðferð samkvæmt 4. og 5. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, og uppfylli því ekki skilyrði um form og efni kæru til yfirskattanefndar, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Þá er bent á að af gögnum málsins megi ráða að umboðsmaður kæranda hafi fallist á skýringar sýslumanns, sbr. tölvupóst 11. nóvember 2015, og gert viðeigandi lagfæringar á erfðafjárskýrslu og skilað henni til sýslumanns. Leiðbeint hafi verið um að ákvörðun sýslumanns væri kæranleg til yfirskattanefndar. Þar sem umboðsmaður kæranda hafi lagt inn leiðrétta erfðafjárskýrslu, þar sem gerðar hafi verið lagfæringar á skýrslunni með hliðsjón af ábendingum sýslumanns, hafi erfðafjárskýrslan verið árituð 30. nóvember 2015 og tilkynning um álagningu erfðafjárskatts send til kæranda með bréfi sama dag. Þar sem ekki hafi verið upplýst um að kærandi óskaði eftir því að láta reyna á réttmæti ákvörðunar sýslumanns með því að nýta sér kæruleið samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/2004 hafi málinu verið lokið með áritun á erfðafjárskýrslu 30. nóvember 2015. Í niðurlagi umsagnar sýslumanns er tekið fram að skattstofn erfðafjárskatts skuli miðast við verðmæti fasteignar eins og það sé skráð hjá Fasteignamati ríkisins á dánardegi arfleifanda, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Hafi erfðafjárskattur því verið lagður á með réttum hætti í umræddu tilviki.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. mars 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn sýslumanns og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi, dags. 17. mars 2016, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Vegna ábendinga í umsögn sýslumanns um að málið hafi ekki verið rekið sem ágreiningsmál er bent á að kæranda hafi ekki verið gefnar upplýsingar þess efnis þrátt fyrir að ítrekað hafi verið komið á framfæri þeim skilningi kæranda að draga bæri afgjaldskvaðarverðmæti frá fasteignamati lóðar. Sé því hafnað að fallist hafi verið á skýringar sýslumanns, enda hafi verið tekið fram í svarbréfi til sýslumanns, dags. 15. nóvember 2015, að erfðafjárskattur yrði greiddur með fyrirvara. Hafi verið gengið frá erfðafjárskýrslu í samræmi við kröfur sýslumanns til þess að unnt yrði að greiða skattinn og þinglýsa fasteigninni á nafn kæranda. Er áréttuð krafa kæranda um lækkun gjaldstofns erfðafjárskatts.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi H, sem lést 5. júlí 2015, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 16. nóvember 2015. Er skýrslan árituð af sýslumanni þann 30. sama mánaðar. Af kæru til yfirskattanefndar og gögnum sem henni fylgdu verður ráðið að ágreiningur hafi risið með kæranda og sýslumanni um skattstofn erfðafjárskatts vegna fasteignar við R í Hafnarfirði þar sem sýslumaður hafi hafnað því að draga afgjaldskvaðarverðmæti frá fasteignamati leigulóðar, sbr. m.a. tölvupósta dagana 11., 15. og 16. nóvember 2015 sem fylgdu kæru til yfirskattanefndar. Þá liggur fyrir í málinu tilkynning sýslumanns, dags. 30. nóvember 2015, um ákvörðun erfðafjárskatts kæranda þar sem leiðbeint er um kærurétt til yfirskattanefndar vegna ákvörðunarinnar og 30 daga kærufrest í því sambandi, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu þykir rétt að taka kæruna til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Kemur fram í þeirri málsgrein að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er að finna sérreglur um skattstofn vegna tiltekinna eigna og tekur b-liður málsgreinarinnar til fasteigna. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 3. mgr. 4. gr. laganna skulu fasteignir taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda. Af leigulóðarréttindum skuli einnig greiða erfðafjárskatt með sama hætti. Þá kemur fram að sé eignarréttur að fasteign háður kvöð um innlausnarrétt tiltekins aðila skuli leggja erfðafjárskatt á innlausnarverð sé það lægra en fasteignamatsverðið.

Samkvæmt framansögðu eru lög nr. 14/2004 skýr og ótvíræð um að ákvarða beri skattstofn leigulóðarréttinda miðað við fasteignamatsverð slíkra réttinda eins og það er skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda. Vegna tilvísunar kæranda til ákvæðis um mat framtalsskyldra eigna í 2. mgr. 1. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem fram kom að telja bæri eiganda leigulóðar afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar en leigjanda mismun fasteignamatsverðs og afgjaldskvaðarverðmætis, skal tekið fram að hliðstætt ákvæði er ekki að finna í lögum um erfðafjárskatt nr. 14/2004. Að framangreindu virtu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja