Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 50/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr., 99. gr., 106. gr.  

Áætlaðir skattstofnar — Síðbúin framtalsskil — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra — Álag — Álagsbeiting — Málsmeðferð áfátt — Framtalsskil — Óviðráðanleg atvik — Vítaleysisástæður — Sönnun — Sönnunarbyrði

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi við skattstofna samkvæmt skattframtali kærenda árið 1983 á grundvelli heimildarákvæða 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna síðbúinna framtalsskila að því er skattstjóri taldi. Skattstjóri byggði á því, að skattframtal kærenda árið 1983 hefði ekki borist, fyrr en í kærufresti og er móttökuáritun á skattframtali dagsett 11. ágúst 1983. Í kæru til skattstjóra, dags. 6. ágúst 1983, heldur umboðsmaður kærenda því fram, að frumrit skattframtals kærenda árið 1983 hafi verið sent skattstjóra 22. febrúar 1983 ásamt 36 skattframtölum. Umboðsmaðurinn annaðist framtalsgerð fyrir kærendur. Tók umboðsmaðurinn fram, að skattframtalið hlyti að hafa misfarist á einhvern hátt. Fylgdi kærunni ljósrit áritaðs eintaks skattframtalsins. Var þess farið á leit, að álagningu opinberra gjalda yrði hagað í samræmi við skattframtalið án álags. Með úrskurði, dags. 15. desember 1983, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 í stað áætlunar. Skattstjóri bætti 25% álagi við skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með skírskotun til þess, að ekki hefði verið sýnt fram á, að þær vítaleysisástæður hefðu legið fyrir, sem leiddu til þess að fella bæri niður álag samkvæmt ákvæðum 3. mgr. nefndrar lagagreinar.

Með kæru, dags. 20. desember 1983, hefur úrskurði skattstjóra af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. Er þess farið á leit, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði fellt niður. Umboðsmaðurinn færir fram þau sömu rök og áður, að samkvæmt gögnum hans hafi skattframtalinu verið skilað í tæka tíð, en skattstjóri telji að engin ástæða sé til þess að ætla, að skattframtalið hafi misfarist í hans höndum og beiti álagi.

Með bréfi, dags. 26. janúar 1984, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að kröfu kæranda verði hafnað.

Fullyrðing umboðsmanns kæranda um að skattframtal kærenda hafi verið sent skattyfirvöldum innan tilskilins frests styðst ekki við nein gögn og ekkert í málinu bendir til að svo hafi verið.“

Skattstjóri áætlaði kærendum skattstofna við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983, þar sem hann taldi, að skattframtali hefði eigi verið skilað. Eftir málsgögnum að dæma tók skattstjóri tillit til 25% álags við ákvörðun hinna áætluðu skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Eigi var kærendum gerð nein grein fyrir því, að álagi hefði verið beitt. Svo sem fram kemur í kæru til skattstjóra hafa kærendur og umboðsmaður þeirra staðið í þeirri trú, að skattframtalinu hefði verið skilað innan tilskilins frests og gera grein fyrir skilum skattframtalsins. Skattstjóri gerir enga gangskör að því að kanna þetta atriði nánar, áður en hann kveður upp kæruúrskurð sinn og í honum fá kærendur fyrst að vita, að þeir hafa verið beittir 25% álagi á skattstofna. Skattstjóri vísaði til þess, að atvik hefðu eigi verið með þeim hætti, sem lýst er í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e.a.s. að kærendur hefðu eigi fært rök að því, að þeim yrði eigi kennt um vanskil framtalsins eða óviðráðanleg atvik hefðu hamlað skilum þess. Þessi forsenda á eigi við, þar sem kærendur báru fyrir sig, að skattframtalinu hefði verið skilað í tæka tíð. Sú viðbára fær enga úrlausn af hálfu skattstjóra. Þessari málsmeðferð skattstjóra er í verulegum atriðum áfátt. Í tilefni af kröfugerð ríkisskattstjóra þykir ástæða til að taka fram, að kærendur hafa af hálfu skattyfirvalda eigi verið krafðir neinna gagna til stuðnings þeirri staðhæfingu, að skattframtalinu hafi verið skilað í tæka tíð, enda málið með öllu vanupplýst af hálfu skattyfirvalda. Þykja engin efni til þess að vefengja staðhæfingu umboðsmanns kærenda svo sem ríkisskattstjóri gerir. Með vísan til þess að virtri meðferð málsins er hinni kærðu álagsbeitingu hnekkt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja