Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 229/1984

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 44. gr. 2. mgr., 53. gr.  

Atvinnuhúsnæði — Kaupsamningur — Eigendaskipti — Söluár — Kaupár — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Afhendingardagur keyptrar eignar — Sérstök fyrirframfyrning — Varanlegir rekstrarfjármunir — Fyrirframfyrning — Beinn fjármagnskostnaður — Eignfærsla

Málavextir eru þeir, að þann 29. september 1978 gerði kærandi kaupsamning um hluta húseignarinnar að B-götu, Reykjavík og átti eignin að afhendast þann 1. maí 1979. Í ársreikningi 1978 er fylgdi skattframtali 1979 er kaupverðið gkr. 155.000.000 fært til eignar og til skuldar gkr. 115.000.000 þar af gkr. 53.000.000 í víxilskuldum skv. upplýsingum umboðsmanns kæranda. Við útreikning verðbreytingarfærslu er fylgdi skattframtali 1980 voru fjárhæðir þessar uppfærðar með eignum og skuldum og var fasteignin færð á kaupverði. Skattstjóri tilkynnti kæranda að fasteignir teldust ekki til eigna við útreikning þennan sbr. 3. ml. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981. Í stað gjaldfærslu að fjárhæð gkr. 9.527.589 kæmi því teknafærsla að fjárhæð gkr. 61.012.911.

Með kæruúrskurði dags. 16. maí 1983 synjaði skattstjóri aðalkröfu kæranda um að skattframtal 1980 yrði látið óbreytt standa. Hins vegar féllst hann á sérstaka fyrningu tekjufærslu skv. ákvæði 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 22. gr. laga nr. 7/1980, jafnframt því sem hann féllst á 25% tillag í varasjóð.

Skattstjóri byggir á því, að kærandi hafi eignast umrædda fasteign þegar við undirskrift kaupsamnings árið 1978, en ekki við afhendingu eignarinnar á árinu 1979. Umboðsmaður kæranda telur hins vegar eðlilegt að miða við afhendingu fasteignarinnar og telur að almennt muni miðað við það í reikningsskilum, enda færist ábyrgð, ráðstöfun og tekju- og gjaldauppgjör fasteignar frá seljanda til kaupanda við afhendingu þeirra. Með framangreind atriði í huga þ.e. að eignfærsla fasteignarinnar sé á árinu 1979 svo og með hliðsjón af áðurnefndum fyrirvara í kaupsamningi gerir umboðsmaður kæranda þær kröfur að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og að skattframtal kæranda árið 1980 verði fært í upprunalegt horf. Til vara er þess krafist að kærandi fái að nýta heimild í 2. mgr. 44. gr. laga um tekju- og eignarskatt um fyrirframfyrningu enda liggi nákvæmlega fyrir hver vaxtagjöld voru vegna kaupanna. Vaxtagjöld þessi hafi verið gjaldfærð miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir frá skattyfirvöldum er frá framtali var gengið. Er því farið fram á að vaxtagjöld þessi verði eignfærð ef aðalkröfu kæranda verður synjað. Jafnframt er farið fram á lögbundið framlag í skattalegan varasjóð.

Með bréfi, dags. 19. september 1983 krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að kröfum kæranda verði hafnað. Ljóst sé að með kaupsamningi dags. 29. september 1978 hafi kærandi eignast umrædda fasteign. Sú aðferð kæranda að telja fasteignina með eignum við ákvörðun verðbreytingarfærslu í ársreikningi ársins 1979 fái ekki staðist sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980 er gilti við álagningu gjalda árið 1980. Krafa kæranda eigi sér því ekki lagastoð og beri því að hafna henni. Hvað varði varakröfu kæranda um fyrirframfyrningu þykja ekki skilyrði fyrir hendi til að fallast á hana. Ekki verði annað séð en að skattstjóri hafi þegar leyft kæranda að færa lögbundið framlag í varasjóð.

Við það verður að miða að kærandi hafi eignast umrædda fasteign við gerð kaupsamnings um hana. Ber því að, hafna aðalkröfu kæranda. Þá er eigi fallist á þá varakröfu kæranda að heimila honum að fyrna fasteignina sérstakri fyrirframfyrningu samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem þeirri grein var breytt með 16. gr. laga nr.7/1980 um breyting á þeim lögum, þar sem eigi verður ráðið af gögnum málsins að skilyrði þeirra ákvæða sé fullnægt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja