Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 303/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 31. gr. 1. tl.  

Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Atvinnuhúsnæði — Íbúðarhúsnæði — Lántaka — Veðsetning — Leiðrétting skattframtals — Bifreiðakostnaður — Vanreifun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1983. Skattstjóri áætlaði honum því skattstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda árið 1983 barst skattstjóra þann 11. júlí 1983 samkvæmt áritun skattstjóra á framtalið. Áður en skattstjóri tók skattframtalið til úrskurðar sem kæru, krafði hann kæranda með bréfi, dags. 21. október 1983, um útfyllt eyðublað R 4, þar sem gerð væri grein fyrir gjaldfærðum bifreiðakostnaði að fjárhæð kr. 63.278 á rekstrarreikningi og atriðum, sem fram þyrftu að koma, svo sem notkunartíma, heildarakstri og skiptingu hans. Þá var óskað upplýsinga um það, hvernig lán frá Verslunarbanka Íslands h.f. að fjárhæð kr. 87.772 væri tilkomið, þar sem ekki yrði séð, hvernig það lán tengdist öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Svarfrestur var veittur 10 dagar frá dagsetningu bréfsins. Svarbréf barst frá kæranda dags. 15. nóvember 1983 og móttekið af skattstjóra 18. nóvember s.á. Fylgdi því rekstraryfirlit bifreiðar R 4. Þá tók umboðsmaður kæranda fram, að fengist hefðu upplýsingar, sem staðfestu, að nefnt lán frá Verslunarbankanum hefði verið veitt til byggingar atvinnuhúsnæðis á árinu 1982, þótt veð væri fyrir láninu í íbúðarhúsnæði kæranda. Áður en skattstjóra barst svar þetta, hafði hann kveðið upp kæruúrskurð, dags. 16. nóvember 1983. Í þeim úrskurði féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 með þeim breytingum, að gjaldfærður bifreiðakostnaður var lækkaður í kr. 30.000 þar sem bréfi skattstjóra, dags. 21. október 1983, hefði ekki verið svarað, og vaxtagjöld að fjárhæð kr. 50.319 vegna skuldar við Verslunarbanka Íslands h.f. hefðu verið færð úr reit 87 í reit 88 í skattframtali með því að ekki hefði verið gerð grein fyrir tengslum lánsins við öflun íbúðarhúsnæðis, sbr. nefnt bréf skattstjóra.

Með kæru, dags. 30. nóvember 1983, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess farið á leit, að fjallað verði um álagninguna með tilliti til umbeðinna upplýsinga í bréfi til skattstjóra, dags. 15. nóvember 1983.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Með kæru umboðsmanns kæranda fylgdi rekstraryfirlit fólksbifreiðar, merkt R 4.

Samkvæmt því yfirliti er að engu tekið tillit til aksturs í eigin þágu, þ.m. t. til og frá vinnu.

Með hliðsjón af því þykir rekstraryfirlitið ekki fullnægjandi og meðan svo er, sýnist ekki ástæða til að breyta ákvörðun skattstjóra.

Þá verður það að teljast einkennileg tilviljun að framtalinn rekstrarkostnaður kæranda á ekinn km er nákvæmlega sami kostnaður og ríkisskattstjóri hefur ákvarðað í skattmati.

Í kæru kæranda kemur fram að skuld kæranda við Verslunarbanka Íslands er vegna atvinnuhúsnæðis.

Að virtu öllu framangreindu er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda er upplýst, að umrætt lán frá Verslunarbanka Íslands h.f. hafi verið veitt til byggingar atvinnuhúsnæðis kæranda og fyrir láninu sett veð í íbúðarhúsnæði hans. Samkvæmt húsbyggingarskýrslu, sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1983, hefur kærandi byggingu atvinnuhúsnæðis á árinu 1982 að X-götu, G. Ljóst má því vera, að vaxtagjöld af þessu láni eru eigi frádráttarbær samkvæmt 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því breyting skattstjóra að þessu leyti staðfest. Verður að skilja bréf umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 15. nóvember 1983, svo að óskað sé eftir því, að margnefnt lán og vaxtagjöld af því færist í ársreikningi kæranda fyrir árið 1982. Er á þetta fallist. Kærandi þykir eigi hafa gert þá grein fyrir umspurðum atriðum varðandi gjaldfærðan bifreiðakostnað, að unnt sé að fallast á kröfu hans um það kæruatriði. Þykir rétt að vísa þeim þætti kærunnar frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja