Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 409/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 16. gr. 2. mgr.  

Íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis — Frestun tekjufærslu söluhagnaðar — Tímamörk tekjufærslu söluhagnaðar — Freststími — Söluhagnaður, frestun — Tekjufærsluár söluhagnaðar

Málavextir eru þeir, að kærandi seldi íbúð sína að S-götu, B, í mars 1980. Söluhagnaður reyndist vera gkr. 1.195.990 og var farið fram á frestun skattlagningar hans um tvenn áramót sbr. ákvæði 16. gr. laga um tekju- og eignarskatt. Kærandi keypti aðra íbúð að T-götu, A, þann 20. mars 1983. Skattstjóri hækkaði tekjur kæranda á skattframtali hans 1983 um fjárhæð framreiknaðs söluhagnaðar kr. 30.635. Með kæruúrskurði uppkveðnum hinn 29. febrúar 1984 synjaði skattstjóri kröfu kæranda um „að reikna þennan söluhagnað inn í kaupin á T-götu, A.“ Fresturinn til skattlagningar söluhagnaðar hefði runnið út hinn 31. desember 1982, án þess að keypt væri nýtt húsnæði.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Er þess farið á leit, að skattlagning söluhagnaðar verði felld niður, „vegna þess hve stuttur tími líður frá því að frestur rann út og þar til kaupin voru gerð á T-götu, A.“ Jafnframt gerir kærandi grein fyrir erfiðum fjárhagsástæðum sínum.

Kröfugerð ríkisskattstjóra fyrir hönd gjaldkrefjenda, dags. 14. maí 1984 er á þá leið, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi umbeðin frestun skattlagningar á söluhagnaði runnið út í árslok 1981 (sic). Þyki þannig ekki vera fyrir hendi skilyrði til að taka kröfu kæranda til greina.

Með vísan til ótvíræðra ákvæða 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja