Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 41/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 106.gr.  

Álag — Vítaleysisástæður — Síðbúin framtalsskil — Stjórnvaldsframkvæmd — Álagsbeiting skattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts á tilskildum tíma árið 1982. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Þann 13. ágúst 1982 barst skattstjóra skattframtal kæranda, dags. 3. s.m. Með úrskurði, dags. 23. september 1982, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað fyrri áætlunar að viðbættu 25% álagi samkvæmt 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt vegna síðbúinna framtalsskila.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. september 1982. Er þess farið á leit, að ákvörðun um beitingu álags verði hnekkt, þar sem kæra vegna upphaflegra álagðra gjalda (áætlaðra) hafi borist innan tilskilins tíma í hendur skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 5. nóvember 1982:

„Skv. áritun á skattframtali kæranda var það móttekið hjá umboðsmanni þann 3. ágúst s.l. og því fram komið að liðnu því tímamarki er beiting álags miðast við, sbr. bréf ríkisskattstjóra þann 15. júlí s.l.

Eigi verður séð að vítaleysisástæður séu fyrir hendi hjá kæranda og er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Á það er fallist með ríkisskattstjóra, að kærandi hafi eigi sýnt fram á, að þær vítaleysisástæður hafi valdið drætti á framtalsskilum, að fella beri álag niður samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi virðist líta til framkvæmdar þeirrar á álagsbeitingu samkvæmt stjórnvaldsákvörðun, sem viðhöfð hefur verið undanfarin ár. Aðalþættir tekjuframtals kæranda hafa samkvæmt málsgögnum legið fyrir skattstjóra í tæka tíð. Að þessu athuguðu þykja eigi næg efni til þess að beita kæranda álagi því, sem greinir í heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er álag það, sem skattstjóri beitti, því fellt niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja