Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 53/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tl., 28. gr.2. tl., 106. gr. 2. mgr.   Lög nr. 73/1980, 24. gr. 2. mgr.  

Skattframtal, ófullnægjandi — Vanframtaldar tekjur — Álag — Örorkubætur — Ársreikningur — Húsaleigutekjur — Reiknaðar húsaleigutekjur

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu gjalda 1982 og sættu því áætlun skattstjóra. Kærendur létu skattstjóra í té skattframtal, dags. 28. júlí 1982, og var það tekið sem skattkæra. Féllst skattstjóri á að leggja til grundvallar álagningu eignaframtal kærenda og tekjuframtal eiginkonu, en hafnaði tekjuframtali eiginmanns og lét teknaáætlun standa óbreytta. Byggði skattstjóri þá höfnun sína á því að samkvæmt innsendum launamiðum virtust tekjur stórlega vanframtaldar og ekki fylgdi framtalinu efnahagsreikningur eða önnur lögboðin fylgiskjöl. Þá ættu kærendur auk eigin íbúðarhúsnæðis „tvær fasteignir og bílskúr“, en engin grein væri gerð fyrir notkun þeirra eigna né sendur rekstrarreikningur vegna leigutekna, einungis færðar á framtalið 6.400 kr. í reit 72.

Með bréfi, dags. 2. desember 1982, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefjast þess að gjöld verði reiknuð út að nýju með hliðsjón af eftirfarandi upplýsingum:

„1. Hér með fylgir nýtt og leiðrétt yfirlit yfir rekstur trésmíða framteljanda.

2. Efnahagsreikning er ekki hægt að gera vegna þess að verkfæri hafa jafnóðum verið talin til gjalda í rekstrinum og engar skuldir hvíla á honum.

3. Framtalin bílskúr að H-götu er eign E. sama stað. Bílskúrinn var seldur með íbúðinni fyrir nokkrum árum, en gleymst hefur að fella hann út úr framtalinu. Tekjur af húseign voru taldar fram á sérblaði, en ekki þótti svara kostnaði að tína til gjöldin, þar eð meiri hluti þeirra var ekki frádráttarbær vegna þess að við bjuggum sjálf í íbúðinni að H-götu í 8 mánuði á árinu. Hin íbúðin að B-götu, var leigulaus í einn mánuð vegna viðhalds.

4. Að lokum óskast skattar G. reiknaðir að nýju með tilliti til upplýsinga í bréfi J., sem afhent var á skattstofunni fyrr í haust.“

Með bréfi, dags. 20. janúar 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Kærunni fylgdi nýr rekstrarreikningur vegna atvinnurekstrar eiginmanns og við athugun á honum er ljóst að tekjur hafa verið stórlega vanframtaldar við framtalsgerð og var því skattstjóra rétt þegar af þeirri ástæðu að hafna framtalinu.

Eigi þykir ástæða til að vefengja nú framlagðan rekstrarreikning og er því fallist á að eiginmanni verði endurákvörðuð gjöld í samræmi við framangreindan rekstrarreikning. Við meðferð málsins virðist skattstjóri hafa fallið frá beitingu álags við ákvörðun gjalda eiginkonu. Með hliðsjón af því er fallist á að framtal eiginmanns verði lagt til grundvallar án álags, að undanskildu því að þess er krafist að beitt verði 25% álagi á þær tekjur er vanframtaldar voru á áður innsendum rekstrarreikningi. Rétt þykir að hagnaður af atvinnurekstri verði færður sem reiknuð laun eiginmanns.

Ríkisskattstjóri fellst á skýringar kæranda varðandi nýtingu fasteigna í eigu þeirra. Framtaldar húsaleigutekjur skv. meðfylgjandi rekstraryfirliti námu 6.400 kr. Með vísan til 2. mgr. 2. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt er þess krafist að heildarleigutekjur hækki í 12.541 kr. og er þá tekið tillit til takmarkaðs leigutíma.

Ríkisskattstjóri fellst á að skattframtali eiginkonu verði breytt þannig að greiddar örorkubætur á árinu 1981, 25.000 kr., myndi ekki skattstofn, sbr. 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/ 1981.“

Fallist er á kröfur kærenda að öðru leyti en því að bætt er 25% álagi á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Þá eru eftir atvikum húsaleigutekjur hækkaðar um 6.141 kr. svo sem ríkisskattstjóri krefst.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja