Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 149/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 32. gr., 44. gr. 1. mgr.  

Fyrning — Fyrnanleg eign — Bifreið — Rafvirkjameistari — Kröfugerð — Einkanot

Kærandi hafði með höndum sjálfstæða starfsemi sem rafvirkjameistari. Sem eign í ársreikningi færði kærandi fólksbifreið og fór með sem fyrnanlega eign samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Reiknaði kærandi sér sem eigin not 30% af heildarrekstrarútgjöldum bifreiðarinnar að meðtalinni fyrningu.

Skattstjóri taldi, að bifreiðin gæti ekki talist til fyrnanlegrar eignar. Felldi skattstjóri því bifreiðina út af efnahagsreikningi og færði til eignar í skattframtali á kaupverði. Þá var gjaldfærð 12% fyrning felld niður af rekstrarreikningi og aðrar þær breytingar gerðar á skattframtalinu, sem leiddi af þessari niðurstöðu, m.a. fyrning samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981 felld niður og tap á sölu bifreiðar, sem fært hafði verið til frádráttar rekstrartekjum, var strikað út.

Af hálfu kæranda voru álögð opinber gjöld gjaldárið 1982 kærð til skattstjóra með kæru, dags. 26. ágúst 1982 og boðað, að nánari upplýsingar yrðu sendar innan skamms. Með úrskurði, dags. 13. október 1982, var kærunni synjað, þar sem rökstuðningur væri ekki tilgreindur. Skattstjóra barst bréf umboðsmanns kæranda, dags. 26. október 1982, þar sem tekið var fram að sem rökstuðningur fyrir kæru, dags. 26. ágúst 1982, væru mótmæli (sic) við þeim breytingum, sem skattstjóri hefði gert á skattframtalinu. Var krafan sú, að skattframtalið yrði fært í sitt upprunalega horf. Bréf þetta framsendi skattstjórinn í Reykjavík, til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 8. desember 1982, og tilkynnti kæranda þann sama dag um þá framsendingu, sbr. afrit bréfs þar um, sem fyrir liggur í málinu.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 13. janúar1983:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Í kæru kæranda er eigi tilgreindur neinn rökstuðningur og þykir meðan svo er ekki tilefni til breytinga á álögðum gjöldum kæranda.“

Svo sem réttilega er tekið fram í kröfugerð ríkisskattstjóra skortir með öllu rökstuðning af hendi kæranda. Umboðsmaður kæranda virðist þó telja sig hafa framlagt rökstuðning í bréfi sínu, dags. 26. október 1982, er felist í einskærum mótmælum við öllum breytingum, þeim er skattstjóri gerði. Að því athuguðu og með hliðsjón af því, að atvik að ágreiningnum þykja koma nægjanlega ljóst fram í málsgögnum, þykir mega fjalla efnislega um málið. Bifreið sú, sem um ræðir, er bæði notuð til atvinnuþarfa og í einkaþágu eftir því sem gögn málsins bera með sér. Önnur bifreið er eigi í eigu kæranda. Þegar litið er til þessa og málavextir virtir að öðru leyti, þykir bifreið kæranda eigi vera fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Verða breytingar skattstjóra því látnar óhreyfðar standa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja