Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 188/1983

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 16. gr., ákvæði til bráðabirgða IX  

Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Framreikningur — Tengsl eldri laga og yngri — Lögskýring — Tilgangur lagaákvæðis — Lögskýringargögn

Málavextir eru þeir, að þann 28. október 1978 seldi kærandi, íbúðarhúsnæði á byggingarstigi að D-götu, K. Söluverð var 7.000.000 kr. Þann 1. október 1977 hafði kærandi keypt fullbúið íbúðarhúsnæði að E-götu, K. Kaupverð var 7.000.000 kr. Skattstjóri taldi bera að færa kæranda til tekna skattskyldan söluhagnað vegna sölu á íbúðarhúsi í smíðum að D-götu, K. Í úrskurði sínum, dags. 28. maí 1980, ákvað skattstjóri skattskyldan söluhagnað 3.853.514 kr. og hafði þá framreiknað framlög hvers árs til byggingarinnar, með hliðsjón af hækkun byggingarvísitölu frá upphafi framkvæmda. Þá var eigin vinna 70.000 kr. tekjufærð eða tekjuhækkunin alls 3.923.514 kr. Þessum úrskurði skattstjóra var af hálfu kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. mars 1980, og þess krafist, að söluhagnaðurinn yrði felldur niður eða að heimilað yrði að dreifa fjárhæðinni á eins langan tíma og mögulegt væri. Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra. Með úrskurði nr. 594, 21. nóvember 1980, féllst ríkisskattanefnd á, að skattlagningu hagnaðarins yrði frestað með vísan til 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar var tekjufærsla eigin vinnu staðfest.

Næst gerist það, að með bréfi, dags. 22. júlí 1981, tilkynnir skattstjóri kæranda, að söluhagnaður af D-götu, K, frá árinu 1978 3.853.500 kr. hafi verið framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 40/1978 og ákvæðum til bráðabirgða IX sömu laga með síðari breytingum. Framreiknaður söluhagnaður, er nemi 5.969.456 kr. sé færður til tekna á skattframtali árið 1981.

Þessi ákvörðun var kærð af hálfu kærenda með bréfi, dags. 28. ágúst 1981, sbr. rökstuðning, dags. 2. september s.á. Var þess farið á leit við skattstjóra, að leyft yrði að fyrna nefndan söluhagnað í íbúð þeirri, sem keypt var að E-götu, K. Bent var á, að eðlilegt væri að leyfa fyrningu hagnaðarins í síðastnefndri eign, þar sem söluhagnaðurinn hefði verið framreiknaður samkvæmt hinum nýju lögum. Með úrskurðum, dags. 11. nóvember 1981, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda á þeim forsendum, að aðeins væri heimilt að fyrna hagnaðinn í eignum, fyrnanlegum samkvæmt 32. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. nóvember 1981. Eru ítrekaðar fyrri kröfur um meðferð söluhagnaðarins og vísað til allra málsatvika, er fyrir liggja í gögnum málsins.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 1982, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda sé hann í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli.

Með 16. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var reglum um skattalega meðferð á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði breytt. Kærandi krefst þess, að söluhagnaður sá, sem í málinu greinir, verði færður til lækkunar á stofnverði íbúðar hans að E-götu, K, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. nefndra laga. Svo sem fram kemur í málinu myndaðist umræddur söluhagnaður í gildistíð eldri laga. Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 594, 21. nóvember 1980, var kæranda heimiluð frestun á skattlagningu söluhagnaðarins eftir 11. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Með 55. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, var með bráðabirgðaákvæði tekið fram, hversu með skyldi fara í þeim tilfellum, þegar skattaðili hafði notað fyrrnefnda frestunarheimild eldri laga og söluhagnaður sá, sem þannig hafði verið frestað að skattleggja, hafði ekki verið tekjufærður í árslok 1978. Í ákvæði þessu er m.a. veitt heimild til þess að fyrna þær eignir, sem um getur í 32. gr. laganna um fjárhæð, sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði að teknu tilliti til framreiknings svo sem nánar er lýst í ákvæðinu. Eigi er vikið sérstaklega að söluhagnaði af íbúðarhúsnæði, sem myndast hafði í tíð eldri laga og nefnd heimild eldri laga til frestunar á skattlagningu söluhagnaðarins hafði verið notuð. Þegar virtur er tilgangur með þeim reglum um skattalega meðferð söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði, sem greinir í 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og tilefni þess, að slík ákvæði voru sett svo sem það verður ráðið af lögskýringargögnum, þykir mega byggja á því, að skattaðili, sem hefur nýtt sér heimild eldri laga til frestunar á skattlagningu skattskylds söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði, geti í samræmi við 2. mgr. 16. gr. nefndra laga, fært slíkan hagnað, sem ótekjufærður var og á freststíma við gildistöku hinna nýju ákvæða, til lækkunar á stofnverði annars íbúðarhúsnæðis. Eigi verður talið, að ákvæði til bráðabirgða IX í lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 55. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, geti girt fyrir þessa niðurstöðu. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja