Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 278/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 1. gr. 1. mgr. 1. tl. og 2. tl.  

Skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Brottflutningur — Skattskylda erlendis — Lögheimili — Launauppgjöf — Starf erlendis — Vanreifun — Sönnun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1982. Var skattframtalið lagt til grundvallar við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Með bréfi, dags. 1. nóvember 1982, krafði skattstjóri kæranda skýringa á því, hvers vegna laun að fjárhæð 112.087 d.kr. samkvæmt kaupuppgjöf frá E. A/S hefðu ekki verið færð til tekna í skattframtali. Svar barst ekki innan tilgreinds svarfrests og með bréfi, dags. 16. desember 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tekjur hans hefðu verið hækkaðar um fyrrnefnda launafjárhæð og áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1982 hækkuð í samræmi við þá breytingu.

Þessi ákvörðun skattstjóra var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. þann 28. desember 1982. Krafðist kærandi þess, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1982 yrðu felld niður, þar sem kærandi hefði ekki verið heimilisfastur hér á landi á þessu tímabili. Kærunni fylgdi vottorð Hagstofu Íslands, dags. þann 23. desember 1982, þess efnis, að kærandi hefði átt lögheimili í Sómalíu tímabilið 27. mars 1981 —19. desember 1981. Frá 19. desember 1981 —19. ágúst 1982 hefði hann átt lögheimili að G-götu, Reykjavík, en frá 19. ágúst 1982 hefði hann aftur átt lögheimili í Sómalíu. Með úrskurði, dags. þann 25. febrúar 1983, synjaði skattstjóri um niðurfellingu gjaldanna með vísan til 2. tl. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódagsettri en móttekinni þann 24. mars 1983. Eru ítrekaðar þær kröfur, sem gerðar voru í kæru til skattstjóra um niðurfellingu álagðra opinberra gjalda.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi, dags. 2. maí 1983, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Bendir ríkisskattstjóri á, að heimilisfesti sé skilyrði ótakmarkaðrar skattskyldu samkvæmt meginreglu íslenskra skattalaga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Skattskyldan haldist hins vegar áfram hér á landi geti hinn brottflutti skattaðili ekki sannað skattskyldu sína í öðru ríki, sbr. 2. tl. fyrrnefnds lagaákvæðis. Kærandi sé því samkvæmt þessu ótvírætt skattskyldur hér á landi þrátt fyrir að hann hafi fellt niður heimilisfang sitt hér. Lagaákvæði þetta sé einmitt sett í þeim tilgangi að útiloka að sá, er flytji úr landi, verði hvergi skattskyldur, a.m.k. um stundarsakir.

Svo sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra liggur ekkert fyrir í málinu um skattskyldu kæranda erlendis og efndir hennar. Að svo vöxnu þykir eigi vera unnt að hagga ákvörðun skattstjóra. Eftir atvikum þykir rétt að vísa kæru þessari frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja